Síðastliðinn laugardag birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu sem vakti nokkra athygli. Ástæða er til að þakka fólkinu sem hrósaði greininni en þó sérstaklega þeim sem reyttu hár sitt og fordæmdu skrifin. Án þeirra hefði ekki tekist að færa sönnur á innihald greinarinnar.
Að vísu verð ég að fallast á að ekkert bendi til þess að þorri gagnrýnenda hafi haft fyrir því að lesa greinina. Líklega hafa nokkrir þeirra gert það en þeim tókst þó ágætlega að leyna því.
Með viðbrögðunum fékkst staðfesting á öllum meginatriðum greinarinnar um eðli svo kallaðra ímyndarstjórnmála og rétttrúnaðar samtímans. Litlar sem engar athugasemdir voru gerðar við innihaldið. Þess í stað völdu gagnrýnendur sér það sem þá langaði helst að setja út á, ímynduðu sér að það stæði í greininni og fordæmdu það svo. Þessu fylgdu hefðbundið persónuníð og sleggjudómar. Allt samkvæmt uppskrift ímyndarstjórnmálanna.
Allt annað en innihaldið
Vilji menn taka undir stefnu samtakanna Black Lives Matter (ekki bara nafnið) geta þeir gert það. Telji þeir réttlætanlegt að svívirða eða útskúfa þá sem leitast við að efna til rökræðu um rétttrúnaðinn (eða styðja hann ekki á nógu öfgakenndan hátt) geta þeir sagt það. Þeir sem telja rétt að meta það sem fólk segir og gerir út frá húðlit eða öðrum einkennum mega láta vita af því. Gagnrýnendur greinarinnar treysta sér hins vegar ekki til að ræða þessi atriði eða annað innihald hennar.
Hinir sömu telja að þeir sem leggja áherslu á jafnan rétt alls fólks séu með því að lýsa andstöðu við alla aðra hópa en eigin úthlutaða hóp. Rökvísi er ekki beint megineinkenni rétttrúnaðarriddarans.
Gagnrýnendum rétttrúnaðarins eru svo gerðar upp alls konar hvatir, ekki vegna þess sem þeir segja eða gera, heldur á grundvelli þess hóps sem viðkomandi var úthlutað.
Neyðarstimpillinn
Þeir sem lengst gengu (fáir þeirra eru þekktir fyrir jafnaðargeð og umburðarlyndi) töldu meira að segja tilefni til að nýta neyðarstimpil vinstriöfgamanna, fasistastimpilinn.
Þetta er löngu þekkt sem fyrsta og síðasta útspilið úr þeirri átt þegar rökin skortir. Aðferðin var t.d. mikið notuð af kommúnistum í Austur-Evrópu. Allir sem ekki voru kommúnistar töldust fasistar. Vestræn ríki voru að þeirra mati undir stjórn fasista og Berlínarmúrinn var fyrir vikið kallaður „andfasíski veggurinn“.
Hvað er fasískt við að vilja tryggja jafnan rétt allra einstaklinga? Þeirri spurningu telja þeir sem fara frjálslega með stimpilinn óþarft að svara. Þeir þurfa reyndar alls ekki að útskýra neitt. Hvers vegna ættu þeir að þurfa að útskýra tilfinningar sínar þegar þær vega svo miklu þyngra en staðreyndir?
Róttæklingar á Vesturlöndum tóku þetta upp og Sex Pistols sungu „Guð blessi drottninguna [og] fasistastjórn hennar“. Þar var reyndar átt við stjórn Verkamannaflokksins undir forystu James Callaghan. Lagið var hins vegar mun betra en ámótlegur söngur íslenskra öfgamanna þar sem skortir ekki aðeins vit heldur einnig frumleika. Það er ekkert pönk í því að stinga fingrunum í eyrun, loka augunum og öskra ofnotaða frasa.
Eðli öfgahreyfinga
Þótt hamagangur öfgafólks geti stundum virst spaugilegur er þó mikilvægt að taka þróuninni alvarlega. Bolshevikar voru innan við 1% Rússa þegar þeir tóku völdin þar í landi. Þegar maður les söguna og veltir fyrir sér hvernig í ósköpunum hlutir geti stundum farið svo ótrúlega illa á skömmum tíma veitir samtíminn ákveðin svör.
Öfgamenn flokka fólk undantekningalaust í hópa og segjast vera að gæta hagsmuna þeirra sem hallar á. Oftar en ekki er það sama fólk og fer verst út úr byltingunni.
Afleiðingarnar
Undanfarnar vikur hefur glæpatíðni snaraukist í Bandaríkjunum. Margar borgir brugðust við kröfu „byltingarinnar“ um að fjársvelta lögregluna. Borgarstjórn Minneapolis samþykkti meira að segja ályktun um að leggja niður eigið lögreglulið. Í New York sem var þekkt sem glæpaborg fram á 10. áratuginn hafði náðst gríðarlegur árangur í að draga úr glæpum. Morðum fækkaði um 86% milli 1990 og 2019. Borgarstjórn New York svaraði kallinu um að draga úr löggæslu. Lögreglumenn sem áfram voru á vakt kvörtuðu undan því að þeir þyrðu vart að athafna sig. Áhrifin létu ekki á sér standa. 270 voru skotnir í New York í júní, meira en tvöfalt (154%) fleiri en í sama mánuði í fyrra. Í Chicago, sem hefur glímt við glæpafaraldur árum saman er ástandið enn verra. Meira að segja BBC fjallaði um „sprengingu í ofbeldi“ í Chicago og hafði eftir lögreglu borgarinnar að hún væri búin að missa stjórn á ástandinu. Einnig kom fram að yfiröld veigruðu sér nú við að ákæra brotamenn.
Allt bitnar þetta hlutfallslega mest á minnihlutahópum. Einkum fólki af afrískum uppruna. Þetta er hin raunverulega afleiðing ímyndarstjórnmálanna.
Vandinn við hópa
Það er eðlilegt að skipta fólki í þá hópa sem það velur sér, t.d. út frá skoðunum, en það að skipta fólki í hópa út frá meðfæddum einkennum, eða að neyða fólk í tiltekna hópa, endar illa.
Þegar fólk sem tilheyrir minnihlutahópum gagnrýnir rétttrúnaðinn á það ekki von á góðu frá þeim sem þykjast bera hag þess fyrir brjósti. Það fólk getur átt von á trakteringum á borð við „ef þú ert ekki sammála ertu ekki svartur“.
Öllum má vera ljóst að kynþáttahyggja var stórkostlegt vandamál á Vesturlöndum eins og annars staðar í heiminum. Vestræn samfélög hafa hins vegar náð einstökum árangri við að draga úr fordómum og auka jafnrétti þótt enn sé verk að vinna. Áframhaldandi árangur næst helst á grundvelli þess sem best hefur reynst. Rétttrúnaðarriddarar virðast þó ekki mega heyra á árangur minnst. Þegar ekki tekst að benda á augljósa fordóma er bent á ósýnilega kerfisbundna fordóma eða ómeðvitaða fordóma. Fyrirtæki og stjórnmálaflokkar hafa að undanförnu sent fólk á námskeið til að takast á við ómeðvitaða fordóma. Skikkað það í svokallaða endurmenntun.
Kanadískur þingmaður hafði orð á því að hann teldi að landar sínir væru almennt ekki rasistar. Því var mætt með kröfum um afsögn. En hver er raunin ef menn vilja líta til kynþátta- og menningarhópa og fullyrðinga um „rótgróinn kerfislægan rasisma sem gegnsýri samfélögin og hafi það að markmiði að halda öllum niðri nema hvítu fólki“?
Í Bretlandi hefur fólk af austurasískum uppruna langhæstu meðaltekjurnar, þar á eftir koma hindúar og svo innflytjendur frá Afríku. Svartir Bretar frá Karabíahafseyjum og múslimar eru hins vegar tekjulægri en hvítir Bretar. Þegar litið er til barna gengur engum hópi eins illa í skóla og hvítum drengjum úr hópi verkafólks. Þeir eru nú kallaðir gleymdu drengirnir.
Lögreglustjóri Lundúnalögreglunnar (Scotland Yard) sem oftast hefur reynt að fylgja rétttrúnaðinum upplýsti fyrir þingnefnd að lögreglan hafi ekki hlutfallslega meiri afskipti af öðrum kynþáttum en hvítum Bretum þegar litið er til glæpatíðni.
Er þetta samfélag sem fyrirlítur aðra kynþætti en þann hvíta og heldur þeim niðri?
Tekjuhæsti og best menntaði hópur Bandaríkjanna eru landsmenn af nígerískum uppruna. Það er augljóslega afleiðing einhvers annars en markvissra kynþáttafordóma. Er ekki líklegra til árangurs að líta til vanda þess fólks sem er fast í fátæktargildru og fær ekki tækifæri til að vinna sig upp vegna þess að því hefur verið skipað í hóp?
Byggjum á raunverulegu jafnræði
Hvað er skaðlegra í þessu samhengi en það að segja ungu fólki að það sé sama hvort það leggur sig fram eða ekki, það muni aldrei njóta sannmælis vegna þess að samfélagið sé gegnsýrt af fordómum og muni halda því niðri?
Rétttrúnaðarhreyfingin er sérstaklega hættuleg vegna þess að hún er byggð á vandamálum en ekki lausnum. Þar má aldrei viðurkenna að árangur hafi náðst vegna þess að það sem skiptir mestu máli er fólkið sem metur eigið ágæti í hlutfalli við stærð vandans sem það þykist vera að takast á við. Fólk sem metur eigið ágæti út frá vandanum sjálfum en ekki lausnum og árangri.
Slík stefna er fordómafull, eigingjörn og hættuleg.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Formaður Miðflokksins