Samkvæmt samanburði á eldsneytisverði í 34 Evrópulöndum á vefsíðunni www.tolls.eu þá njótum við Íslendingar þess vafasama heiðurs að borga hæsta bensínverðið í Evrópu. Samanburðurinn nær yfir meðalverð á bensín- og dísillítra í löndunum þann 29. ágúst 2022.
Verðin eru uppreiknuð með skráðu viðmiðunargengi Evru hjá Seðlabanka Íslands.
Tyrkland sem er að hluta í Evrópu en ekki meðlimur í Evrópusambandinu er með langlægsta bensínlítraverðið og þar á eftir koma Ungverjaland og Malta.
Ísland sker sig út varðandi hátt verð en verðin eru næst hæst í Noregi og þá Sviss. Fjallað er um málið á vef FÍB.
Í Evrópusambandinu er reglugerð sem kveður á um lágmarksskattheimtu aðildarríkjanna á hvern lítra af bensíni eða 0,36 Evrur, tæplega 51 íslensk króna. Búlgaría, Malta, Pólland og Ungverjaland leggja aðeins lágmarks ES-skattinn á bensín en öll hin aðildarríkin leggja meira á hvern lítra. Hollendingar leggja mest á hvern lítra eða 0,82 Evrur sem gerir tæplega 116 íslenskar krónur, þá Ítalía 0,73 Evrur (103,15 ISK) og lokst Finnland 0,72 Evrur (101,75 ISK). Fastur bensínskattur í Noregi er 6,73 NOK á lítra sem gerir um 95,40 ISK. Íslensk stjórnvöld leggja 89,40 krónur á hvern bensínlítra fyrir utan virðisaukaskatt. Þetta eru fastir skattar á hvern bensínlítra en síðan bætist virðisaukaskattur á endanlegt útsöluverð. Virðisaukaskattur í Hollandi er 21% en 25% í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Finnland er með 24% eins og Ísland.
Skattar hafa veruleg áhrif á kostnað neytenda vegna bensínkaupa en skattar útskýra ekki þá staðreynd að íslenskir neytendur borga hæsta bensínverðið í Evrópu. Líkt og FÍB hefur oft ítrekað þá búum við hér á landi við mjög háa álagningu á hvern seldan lítra af eldsneyti og skort á samkeppni