„Bullgjöld“ bankanna!
Ég fór á afar athyglisverðan fund í morgun þar sem umræðuefnið var nýútkomin skýrsla um bankakerfið.
Það var æði margt sem vakti athygli mína í þeim erindum sem flutt voru enda endurspeglar umrædd skýrsla þá græðisvæðingu sem hefur heltekið bankakerfið. Hins vegar vakti erindi Hauks Skúlasonar einn af stofnendum INDÓ mestu athygli mína en í hans erindi kom meðal annars fram „svokallað“ bullálag sem bankarnir leggja á sína „viðskiptavini.“
Þessi gjöld eru gjaldeyrisálag sem kostar íslenska neytendur 7,2 milljarða á ári. Árgjald korta sem nemur 1,3 milljarði, færslugjöld sem nema 1 milljarði og seðilgjöld upp á 500 milljónir.
Samtals gera þessi bullgjöld 10 milljarða á hverju ári en af hverju kallar Haukur Skúlason þetta bullgjöld jú, vegna þess að INDÓ rukkar ekki þessi gjöld af sínum viðskiptavinum og af hverju rukkar INDÓ ekki þessi gjöld? Jú, það er vegna þess að hjá INDÓ er enginn kostnaður sem þeir þurfa að greiða vegna þessara þátta.
Það sama hlýtur þá að gilda einnig fyrir viðskiptabankana þrjá og hugsið ykkur bankarnir eru að taka 10 milljarða af neytendum án þess að neinn kostnaður falli á þá.
Það kom einnig fram hjá Hauki hjá INDÓ að meðaltal á bullgjöldum þriggja manna fjölskyldu sé 71.454 kr. á ári.
Þetta er galið og ég spyr hvernig má það gerast að bankarnir geti lagt bullgjöld á „viðskiptavini“ sína án þess að neinn kostnaður sé til staðar hjá bönkunum. Hvar eru stjórnvöld, Alþingi og Fjármálaeftirlitið er hægt að láta svona rán eiga sér stað ár eftir ár. INDÓ hefur sýnt að það er enginn kostnaður sem fellur á þá vegna þessara bullgjalda og það sama hlýtur að gilda fyrir viðskiptabankana.
Hugsið ykkur að bara bullgjöldin sem viðskiptabankarnir leggja á neytendur er nánast sama upphæð og auðlindagjöld í sjávarútvegi námu árið 2022. Það vantar ekki varðstöðu margra þingmanna þegar verið er að tala um að auka auðlindagjöld í sjávarútvegi en hvar eru alþingsmenn yfir bullgjöldum bankanna þar sem enginn kostnaður fellur á þá en þeir rukka 10 milljarða?
Ps. Það kom fram á fundinum að bankastjórum viðskiptabankanna hafi verið boðið á fundinn en þeir hafi ekki séð sért fært að koma. Er ekki hissa því það er útilokað fyrir bankastjórana að útskýra og réttlæta þá græðgisvæðingu sem hefur enn og aftur heltekið bankanna.