Oddur F. Helgason, ættfræðingur og fyrrverandi sjómaður, er látinn. Oddur fæddist á Akureyri 29. október 1941. Hann lést í Reykjavík 1. desember og var því nýorðinn 82 ára. Eiginkona Odds, Unnur Pálsdóttir, lést þremur dögum áður, 28. nóvember. Odds er minnst á vefnum Akureyri.net
Oddur ólst upp hjá afa sínum og ömmu, Stefaníu Einarsdóttur og Páli Jónssyni. Að loknu námi í Gagnfræðaskóla Akureyrar hóf hann sjómennsku, 15 ára að aldri, hjá Útgerðarfélagi Akureyringa.
Eftir þrjá áratugi á sjónum, lengst af á togurum ÚA, kom Oddur „spekingur“ eins og hann var gjarnan kallaður, í land árið 1987. Hann flutti til Reykjavíkur árið 1990, stofnaði fljótlega ættfræðiþjónustuna ÓRG og hefur lengi verið einn þekktasti ættfræðingur landsins.
Oddur lagði alla tíð mikla áherslu á „samstarf við þjóðina“ í starfi sínu og í ættfræðigrunninum Unni – sem Oddur nefndi eftir konu sinni – eru nærri 900.000 manns skráðir.
Umræða