Ólína sem enn hefur ekki verið beðin afsökunar, segir að eðlilegt sé að formaður nefndarinnar axli ábyrgð en ekki skattgreiðendur
Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu í vor að jafnréttislög hafi verið brotin þegar Einar Á.E. Sæmundsen var skipaður í starf þjóðgarðsvarðar fram yfir Ólínu. Ari Trausti Guðmundsson er formaður Þingvallanefndar og sagði þá að „Þingvallanefnd féllist á að lúta þessum úrskurði.“
Ríkið hefur komist að samkomulagi um tuttugu milljóna króna bótagreiðslu til Ólínu Þorvarðardóttur sem metin var hæfust af kærunefnd jafnréttismála í stöðu þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum en var ekki ráðin. Vísir.is greindi fyrst frá málinu og þar er það rakið að Þingvallanefnd hafi auglýsti starf þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum laust til umsóknar haustið 2018 eins og kunnugt er.
Þá hafi af þeim tuttugu umsækjendum sem sóttu um, tveir verið metnir hæfastir. Þau Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur og fyrrverandi alþingismaður og Einar Á. E. Sæmundsen sem ráðinn var þjóðgarðsvörður.
Ólína kærði niðurstöðuna til kærunefndar jafnréttismála sem komst að þeirri niðurstöðu í fyrra vor, að Þingvallanefnd hefði brotið jafnréttislög með því að ráða Einar fram yfir hana í stöðuna.
Fyrir jól náði svo ríkislögmaður og Ólína sáttum um bótagreiðslu vegna málsins. „Þar með legg ég það aftur fyrir mig og lít svo á að ég sé bundin samkomulaginu að það hafi náðst sátt í málinu,“ segir Ólína sem enn hefur ekki verið beðin afsökunar og segir að eðlilegt sé að nefndin axli ábyrgð en ekki skattgreiðendur.
https://gamli.frettatiminn.is/2019/10/07/thingvallanefnd-braut-jafnrettislog-vid-radningu-thjodgardsvardar/