Í morgun var viðamikið útkall hjá slökkviliinu á höfuðborgarsvæðinu þegar eldur kviknaði í tanki við malbikunarstöðina Höfða. Kalla þurfti út allt tiltækt lið slökkviliðsins sem er í dag á 9 stöðum á höfuðborgarsvæðinu.
Í verkefnið voru notaðir fimm dælubílar og tveir körfubílar. Eldurinn var í klæðningu utan á tanknum og þurfti að rífa mikið til að komast að eldinum og til tryggja að ekki leyndist glóð á einhverjum stöðum.
Einnig þurfti að kalla út fólk af frívakt til að manna stöðvar og leysa önnur verkefni sem upp komu meðan unnið var að slökkvistarfinu. Slökkvistarf gekk vel og lauk því á fjórða tímanum í dag.
Við höfum skipt upp vöktunum okkar til að koma í veg fyrir smit hjá okkar fólki. Það er aukaálag að gæta þess í útköllum að stöðvar blandist sem minnst saman.
Við lok slökkvistarfs er strangt verklag þegar þau sem voru í útkallinu snúa til baka á sínar stöðvar þar sem þau mega ekki hitta þá sem leysti af á meðan á útkallinu stóð. Það sýndi sig vel í dag hversu fljótt okkar fólk er að aðlagast nýjum og krefjandi aðstæðum, segir á vef slökkviliðsins. Myndir: Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs.