Hugleiðingar veðurfræðings
Eftir milda og rólega tíð í síðustu viku, hefur kalt heimskautaloft nú borist yfir landið úr norðri. Búast má við köldu veðri út vikuna. Í dag er útlit fyrir norðaustan strekking. Í nótt hefur snjóað eitthvað í flestum landshlutum, en sunnan- og suðvestanlands á að létta til með deginum. Seint í dag bætir í snjókomuna á Norður- og Austurlandi með allhvössum vindi, geta akstursskilyrði þá orðið erfið. Frost á landinu yfirleitt á bilinu 2 til 7 stig.
Á morgun er spáð norðan kalda eða strekkingi og hvassara í vindstrengjum suðaustanlands. Dálítil él norðaustantil, en þurrt og bjart veður á sunnan- og vestanverðu landinu. Annað kvöld dregur síðan úr vindinum. Þegar lægir eftir kalda norðanátt, þá nær frostið sér oft á strik og búast má við talsverðu frosti aðfaranótt fimmtudags.
Veðuryfirlit
Yfir Grænlandi er 1028 mb hæð, en yfir Skandinavíu er víðáttumikil 970 mb lægð. Um 350 km S af landinu er 1000 mb lægðardrag sem hreyfist lítið. Skammt SA af Jan Mayen er 999 mb smálægð sem fer SSV.
Veðurhorfur á landinu
Norðaustan 8-15 m/s og víða él, en léttir til sunnan- og suðvestanlands með deginum. Norðan 10-18 undir kvöld og bætir í snjókomu á Norður- og Austurlandi.
Norðan 8-13 á morgun, en hvassara í vindstrengjum á suðaustanverðu landinu. Dálítil él á Norður- og Austurlandi, en léttskýjað sunnan heiða.
Frost 1 til 7 stig.
Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu
Austan 5-10 m/s og dálítil snjókoma. Léttir til með deginum, snýst í norðaustan 8-13 eftir hádegi og norðan 10-15 í kvöld.
Norðan 5-13 á morgun og bjartviðri. Frost 1 til 5 stig.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Hæg norðlæg eða breytileg átt og víða þurrt og bjart veður, en stöku él norðaustantil á landinu. Kalt í veðri og sums staðar talsvert næturfrost.
Á föstudag:
Breytileg átt 3-8. Skýjað með köflum og stöku él, einkum við ströndina. Frost 0 til 6 stig að deginum, en frostlaust við suðvesturströndina.
Á laugardag og sunnudag:
Austlæg átt 8-15 m/s, en mun hægari vindur austantil. Snjókoma eða slydda um landið suðvestananvert, en annars dálítil él. Hiti breytist lítið.
Á mánudag:
Útlit fyrir norðaustanátt. Stöku él og áfram svalt í veðri.