„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, um síðustu ríkisstjórn og stefnuræðu fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.
Það var fyrir kosningar en núna er allt annað hljóð í skrokknum þegar að hún er sjálf orðin forsætiráðherra og segir launþegahreyfingum og öryrkjum að hafa sig hæga og er þar með orðin tvísaga frá því fyrir Alþingiskosningar.
Hörð orðaskipti hafa átt sér stað að undanförnu milli forystumanna launþega og forsætisráðherra. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR var mjög skýr í sinni afstöðu til ríkisstjórnarinnar í ávarpi sínu á útifundinum þann fyrsta maí s.l.
Sagði hann m.a. að stjórnvöld væru rúin trausti og að boðað yrðir til skæruverkfalla og hótaði m.a. því að sitt fólk gæti lamað samgöngur og stofnanir ef að þess þyrfti til þess að knýja fram kjarabætur. VR mótmælti einnig fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar harðlega.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ lýsti einnig yfir mikilli óánægju með stjórnvöld og sagðist finna fyrir aukinni reiði og ólgu hjá sínu fólki vegna kjaramála. Hann sagði að verkalýðshreyfinguna alla eiga sameiginlegan andstæðing.
„Það er svolítið skrýtið að okkar höfuðandstæðingur í dag skuli vera stjórnvöld, en þannig er það bara,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson. En samhljómur hefur verið með öllum þrýstihópum þeirra sem að lélegustu kjörin hafa um að efnt verði til harðra átaka á vinnumarkaði. Así hefur einnig lýst miklum vonbrigðum með fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og gagnrýnt harðlega áherslur.
Fyrir kosningar var Katrín Jakobsdóttir mjög svo inn á sömu línu og ASÍ og tók undir hvert orð og hverja kröfu sem að þeir lögðu fram og var hjartanlega sammála því að fjármálaáætlun flokksins sem að hún vinnur nú með, hafi verið alveg ómöguleg.
Núna eftir kosningar og þegar að hún er þriðja hjólið undir vagni ríkisstjórnarinnar, er hún algerlega á öndverðu meiði og skammar þá sem að gagnrýna fjármálaáætlun fjórflokksins.
Þá hefur öryrkjabandalagið einnig gagnrýnt ríkisstjórnina, núverandi, harðlega fyrir afleita fjármálaáætlun og m.a. sagt hana vera ávísun á fátækt og eymd.
Þá hafa allir formenn launþega gagnrýnt stöðuna á húsnæðismarkaði, leigufélög og vaxta- og barnabætur sem að hafa ekkert hækkað þrátt fyrir hækkun húsnæðis og leiguverðs.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var alls ekki sátt með viðbrögð formanns Öryrkjabandalagsins vegna gagnrýni á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem að hún situr nú í sem forsætisráðherra
„Ég held að fólk verði bara að horfa á staðreyndirnar og tölurnar sem hér eru lagðar fram en ekki vitna í frasa um að þetta sé ávísun á fátækt og eymd, eins og hér sé beinlínis boðaður niðurskurður á framlögum til örorku þegar staðreyndin er sú að hér er verið að auka um sex milljarða á næsta ári,“ sagði hún í ræðustól Alþingis.
„Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mun halda við og búa til félagsleg vandamál, frekar en að færa fram lausnir. Það er ekki verið að græða sár, sem við þurfum svo mjög á að halda, heldur er þetta eins og að setja plástur yfir gröft,“ sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, um frumvarpið til fjármálaáætlunar.
Hún benti á að í frumvarpinu felist ekki aðgerðir til að tryggja öryrkjum mannsæmandi afkomu. „Það er gert ráð fyrir auknum framlögum vegna fjölgunar öryrkja, en ekki verið að ganga fram til að bæta afkomu þeirra sem núna þurfa að reiða sig á almannatryggingarnar.“
Fyrir kosningar sagði Katrín Jakobsdóttir „Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu,“ sagði stjórnarandstæðingurinn, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra. Hún sagði þáverandi ríkisstjórn gera ráð fyrir að öryrkjar og aldraðir hokruðu áfram og byggju við skammarleg kjör. Á sama tíma dygðu lægstu laun ekki til framfærslu og fólk á lægstu launum væri beðið um að vera þakklátt fyrir 20 þúsund krónur því hlutfallslega væri það ekki lítið.
Katrín vísaði í orð Martins Luthers Kings um að það að bíða með réttlæti jafngilti því að neita fólki um réttlæti. Hún sagði að stjórnmálamenn mættu aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja bið eftir réttlæti, frekar ættu þeir að breyta kerfinu. Hún sagði að annars væri hætta á að traust fólks á lýðræðislegu samfélagi myndi minnka.
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir fyrir kosningar, staðan er aftur á móti þannig núna að félög launþega hafa lýst yfir stríði við stjórnvöld vegna kjara, vaxtaokurs, verðtryggingar ofl.
Katrín Jakobsdóttir svaraði forystu launþega fullum hálsi og lýsti undrun sinni á hörkunni.
Hver krafan verður þá, 400, 500 eða 600.000 króna lágmarkslaun til þess að jafna kjör, verður að koma í ljós en fyrir um þremur árum var krafan 300.000 króna lágmarkslaun og alveg ljóst að þær forsendur eru allar löngu brostnar ef tekið er tillit til verðþróunar og til hækkunar hæstu launa, hvort sem að þær hafa verið ákveðnar af Kjararáði, sjálftökuliðum eða öðrum. Þá er alveg ljóst að hörð barátta er framundan því að almenningi er ofboðið. Prósentu hækkanir ofan á ofurlaun, skila t.d. einum eða fleiri lágmarkslaunum í vasa þeirra sem að hafa fengið veglegar launahækkanir að undanförnu. Nú er komið að skuldadögum.
Enda hefur bilið á milli fólks launalega og eignalega, aldrei verið breiðara þegar að 1% íslendinga eiga 80% eigna en þá nefndi forsætisráherra 1% lækkun á tekjuskatti láglaunafólks til jöfnunar sem er auðvitað í besta falli hlægilegt.
Fyrir kosningar, hafði Katrín Jakobsdótti stór orð um það að styðja þyrfti betur við heilbrigðiskerfið og styrkja innviði. Núna er Katrín Jakobsdóttir aftur á móti tvísaga sem forystumaður og verkstjóri ríkisstjórnarinnar og hæstráðandi.
Þessi sama ríkisstjórn, Katrínar Jakobsdóttur hefur nefnilega lýst yfir ómöguleika á því að hækka laun ljósmæðra og hefur staðið í stríði við þær um langt skeið án árangurs. Og ljósmæðrum er löngu ofboðið út af hörkunni gegn þeim og þær hafa sagt upp störfum í stórum stíl, sem er loka og neyðarúræði hverrar vinnandi stéttar
Þrátt fyrir að það sé ljóst að þingmenn og ráðherrar hafi fengið 45% launahækkun samtals að undanförnu með aðstoð Kjararáðs, þá er enginn skilningur á því þegar að láglaunastéttir krefjast bættra kjara og ekki virðist vera áhugi á að efla heilbrigðiskerfið eins og talað var um fyrir kosningar eða standa við annað sem var lofað. Fyrir kosningar birtust glansmyndir og plaköt af Katrínu Jakobsdóttur, skælbrosandi, undir slagorðinu :
,, Gerum betur í heilbrigðismálum“ – ,,Kjósum nýja forystu“ Hvar eru efndirnar? Hvernig er staðan með ljósmæður? Hvað hefur verið gert betur í heilbrigðismálum? Eða í leiðréttingum kjara yfirleitt eins og á vaxta- og barnabótum? En Katrín gagnrýndi síðustu ríkisstjórn mikið fyrir aðgerðarleysi í þessum málum.
Á vef Öryrkjabandalagsins er Katrín Jakobsdóttir einnig harðlega gagnrýnd:
„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í september sl., þá þingmaður í stjórnarandstöðu.
Það er ekki hægt að segja fólki sem þarf að berjast í hverjum einasta mánuði til þess að ná endum saman að halda áfram að bíða. Auðvitað taka allir undir orð Katrínar.
Eða hvað?
„Það er ekki rétt sem sagt er að ekkert hafi verið gert fyrir öryrkja í fjárlögum fyrir árið 2018. Þar skiluðu sér inn ákveðnar kjarabætur til öryrkja þannig að nú er staðan sú að 29% öryrkja fóru upp í 300.000 kr. greiðslur um áramótin og var bætt í við meðferð fjárlagafrumvarpsins.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, nú forsætisráðherra, í svari við fyrirspurn um kjör örorkulífeyrisþega á Alþingi í vikunni.
Við orð ráðherra er ýmislegt að athuga. Til dæmis er þetta ekki alls kostar rétt. Það heyrir nefnilega til undantekninga að örorkulífeyrisþegar fái slíkar upphæðir frá almannatryggingum. Jafnvel þótt svo væri, þá stendur eftir að sjö af hverjum tíu öryrkjum ná því bara alls ekki.
Stærstur hluti örorkulífeyrisþega hefur einhverjar aðrar tekjur en frá almannatryggingum. Sumir eru í vinnu, oft í hlutastörfum. Sumir fá lífeyri á grundvelli réttinda sem þeir hafa aflað sér á vinnumarkaði. En hvaða gildi hefur það gagnvart kerfisbundnu óréttlæti?
Staðreyndin er sú að stór hluti þeirra situr pikkfastur í fátæktargildru. Hverri örðu af sjálfsbjargarviðleitni er miskunnnarlaust sópað burtu með grimmum skerðingum: Krónu á móti krónu.
Allt er þetta fólk enn að „bíða eftir réttlætinu“. Að halda þaki yfir höfuðið, mat á diskunum svo ekki farið út í „lúxus“ eins og tómstundastarf fyrir börnin eða bara nýja úlpu.
Grunnframfærsla verður að vera tryggð, svo að fólk geti lifað mannsæmandi lífi. Það gerir enginn á þeim rúmum 240 þúsund krónum sem fólk hefur milli handanna eftir skatta og skerðingar.
Forsætisráðherra nefndi réttilega í umræðunni í þinginu að greina þarf „orsakir þess að öryrkjum hefur fjölgað“ og grípa inn í. Það hljóta stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins að gera. Og þau hljóta að líta vel og vandlega í eigin barm þegar við hugsum um þann veruleika að fólk fær örorkumat vegna álags, líkt og til dæmis sjúkraliðar hafa bent á.
Í því er hins vegar ekki fólgið svarið við spurningunni um kjör öryrkja. Og svo mikilvæg sem þau verkefni eru, þá felast ekki í þeim neinar kjarabætur fyrir þau sem misst hafa starfsgetuna eða alltaf búið við skerta starfsgetu.
„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu,“ sagði þingmaðurinn.
Hvað þarf að bíða lengi eftir því að forsætisráðherrann geri þau orð að sínum?
https://gamli.frettatiminn.is/2018/12/04/thingmenn-fa-45-haekkun-vinstri-stjornin-lysir-yfir-omoguleika-launahaekkun-ljosmaedra/