Tilkynnt var um húsbrot og eignaspjöll í miðborginni. Maður er sagður hafa ruðst inn í íbúðarhúsnæði og lagt þar allt í rúst. Maðurinn er sagður hafa brotið tvær rúður og yfirgefið síðan íbúðina. Kona með börn var í íbúðinni og náði hún að komast inn í herbergi og læsa.
Þá var tilkynnt um umferðarslys í sama hverfi. Bifreið var ekið á hjólreiðamann og síðan af vettvangi. Að sögn vitna hafði ökumaður bifreiðarinnar verið að þenja bifreiðina og flauta áður en hann ók á reiðhjólamanninn. Reiðhjólamaðurinn datt í götuna og bifreiðinni var ekið yfir hjólið. Ekki er getið um áverka en hjólreiðamaðurinn vildi ekki fá sjúkrabifreið á vettvang. Málið er í rannsókn.
Klukkan 02:13 var tilkynnt um líkamsárás á bar í hverfi 109. Árásarþoli var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Bráðadeild. Árásaraðilinn var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Skömmu síðar var bifreið stöðvuð á Breiðholtsbraut. Ökumaðurinn reyndist vera aðeins 16 ára og hefur því aldrei öðlast ökuréttindi. Tilkynning var send til foreldra og Barnaverndar.