Hugleiðingar veðurfræðings
Það er útlit fyrir rólegheitaveður hjá okkur í byrjun nýrrar vinnuviku en víðáttumikil hæð við strendur Skotlands viðheldur suðvestlægum áttum. Það stefnir í skýjað veður vestanlands með lítilsháttar vætu hér og þar og hita í kringum 10 stig. Fyrir austan er annað uppi á teningnum en þar verður víða bjart og hiti upp í 18 stig.
Á morgun er ekki miklar breytingar að sjá, en á miðvikudagskvöld byrjar að rigna um vestanvert landið og ætlar sú rigning að ílengjast fram að helgi. Lengst af verður úrkomulítið og hlýjast fyrir austan.
Næstu helgi er útlit fyrir að létti víða til með hægum vindi svo að ekki er öll von úti enn. Þau sem fylgjast með veðurspám vita þó að sú veiði er sýnd en ekki gefin. Spá gerð: 05.06.2023 06:47. Gildir til: 06.06.2023 00:00.
Veðurhorfur á landinu
Suðvestlæg eða breytileg átt 3-10 m/s.
Skýjað að mestu á vestanverðu landinu, lítilsháttar væta og hiti 7 til 12 stig, en yfirleitt bjart á Suðaustur- og Austurlandi með 10 til 18 stiga hita.
Spá gerð: 05.06.2023 05:22. Gildir til: 06.06.2023 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Vestan 3-10 m/s. Skýjað og líkur á stöku skúrum, en bjart að mestu suðaustantil. Hiti 6 til 18 stig, svalast norðvestantil, en hlýjast á Suðausturlandi.
Á miðvikudag:
Suðvestan 3-10 m/s. Skýjað og úrkomulítið, en léttir til um landið austanvert. Heldur hlýnandi. Bætir í vind um kvöldið með rigningu vestantil.
Á fimmtudag:
Sunnan og suðvestan 5-15 m/s og rigning með köflum, hvassast og blautast norðvestantil, en úrkomulítið um landið austanvert. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast á Austurlandi.
Á föstudag:
Suðlæg átt 8-15 m/s og rigning eða súld, en þurrt um landið norðaustanvert. Hiti breytist lítið.
Á laugardag:
Vestlæg átt 3-10 m/s og bjart með köflum þegar líður á daginn. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast á austanverðu landinu.
Á sunnudag:
Hæg vestlæg eða breytileg átt, víða léttskýjað og hlýnar.
Spá gerð: 04.06.2023 21:00. Gildir til: 11.06.2023 12:00.