„Við erum með 3 milljarða notenda um allan heim og hjá okkur starfa 35.000 starfsmenn við netöryggi. Þá eru 15.000 starfsmenn sem hafa eftirlit með efninu á miðlinum,“ segir Marianne Neraal verkefnastjóri almennrar stefnumótunnar hjá Facebook á málþingi á netinu á vegum fjölmiðlanefndar. Á málþinginu voru ræddar niðurstöður nýrrar skýrslu fjölmiðlanefndar á miðlalæsi á íslandi um falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Í skýrslunni kemur m.a. fram að 7 af hverjum 10 höfðu séð falsfréttir á netinu varðandi Covid-19 faraldurinn og af þeim voru langflestir sem rákust á slíkt á Facebook, eða 83,1%.
80 fyrirtæki sem vinna með 60 mismunandi tungumál
„Við erum alþjóðlegt fyrirtæki sem setur alþjóðlega staðla sem gilda fyrir samfélagið sem banna m.a. skaðlegt efni um Covid-19. Við tökum þannig efni úr umferð. Við reynum líka að draga úr dreifingu falsfrétta um Covid-19. Þar vinnum við með fyrirtækjum sem sérhæfa sig í slíkri staðreyndavakt víða um heim. Því miður höfum við ekki slíkan samstarfsaðila á Íslandi, en við vinnum með 80 mismunandi fyrirtækjum víða um heim sem vinna með 60 mismunandi tungumál. Þau hjálpa okkur að koma auga á falsfréttir svo við getum dregið úr þeim. Við viljum þó ekki sitja í dómarasætinu varðandi hvað sé sannleikur og því förum við ekki að ritskoða og fjarlægja allt sem er ósatt,“ segir Marianne.
Ísland meðal þeirra þjóða sem hafa flesta Facebook notendur
Í sambærilegri könnun sem gerð var í Noregi hafði helmingur þátttakenda rekist á falsfréttir um Covid-19 og einn af hverjum þremur sagði það hafa verið á Facebook, sem eru mun færri en hér á landi. Hluti af skýringunni gæti verið mikil Facebook notkun Íslendinga sem Marianne segir hlutfallslega mjög mikla. „Ísland er klárlega meðal þeirra þjóða sem hafa flesta Facebook notendur miðað við höfðatölu. Það eru um 290.000 íslenskir notendur á Facebook sem er meira en 80% af íbúafjölda landsins ef mér skjátlast ekki. Svo Ísland skipar sér ofarlega á listann varðandi notendur,“ segir Marianne.
Mikilvægt að láta vita af öllu efni sem brýtur reglur miðilsins
„Við viljum að notendur geti sett upplýsingar í samhengi svo þeir geti sjálfir lagt mat á það sem þeir lesa, treysta og deila. Við bjóðum þannig uppá upplýsingamiðstöð í tengslum við Covid-19 þar sem við beinum fólki ef það rekst á falsfréttir í tengslum við faraldurinn,“ segir Marianne og leggur áherslu á að notendur hjálpi til og láti vita þegar þeir sjá efni sem þeir telja að eigi ekki heima á miðlinum. „Á öllu efni eru þrír punktar uppi í horninu þar sem hægt er að velja „report“ til að láta okkur vita. Við vinnum ekki einungis með staðreyndavöktum heldur reiðum okkur einnig á annars konar vöktun, eins og t.d. ef margar athugasemdir við færslu eru „þetta er ótrúlegt“ eða „þetta virðist ekki raunverulegt“. Þá hugsum við til þess að margar falsfréttir eru grípandi, gerðar til þess að fá marga smelli og drifnar áfram í hagnaðarskyni til að lokka fólk inn á aðrar síður til að blekka eða svíkja. Við nýtum okkur þessi merki til þess að draga úr dreifingu.“
Tungumál fámennari þjóða meira vandamál
„Við erum með norrænt teymi sem fer meðal annars yfir efni á íslensku. Þá notumst við einnig við vélnám og gervigreind til að hafa eftirlit með okkar miðlum. Það er þó erfiðara að vinna með slíkt varðandi tungumál hjá fámennum þjóðum,“ segir Marianne og nefnir sem dæmi ensku sem tungumál sem margir tala og því sé til mun meira efni sem hægt sé að nota til þess að þjálfa hugbúnaðinn. „Okkar samfélagslega stefna er þó alþjóðleg þannig að það gilda sömu reglur um íslenska notendur og aðra. Í hverju landi fyrir sig geta síðan verið lög sem heimila okkur að fjarlægja efni. Við erum stöðugt að þróa og uppfæra okkar staðla og reglur og vinnum með sérfræðingum, löggæslunni, vísindamönnum og mismunandi fyrirtækjum víða um heim til að finna jafnvægið milli málfrelsis og þess að fjarlægja skaðlegt efni. Þá hefur líka reynst okkur gagnlegt að vera í sambandi við fjölmiðlanefndina á Íslandi til að fá betri sýn á þá stefnu og reglur sem gilda í landinu,“ segir Marianne.
Allt viðtalið við Marianne frá málþingi fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu má finna hér.