Mögulegt er að gos verði innan fárra daga
Yfir 1.600 jarðskjálftar hafa mælst við Fagradalsfjall frá því hrina hófst á Reykjanesskaga síðdegis í gær. Vísindamenn Veðurstofunnar og Háskóla Íslands funduðu með almannavörnum klukkan níu vegna stöðunnar. Virknin svipar til aðdraganda síðustu gosa og því möguleiki á að gos verði innan fárra daga.
Virknin sem hófst við Fagradalsfjall í gær hefur haldið linnulaust áfram í nótt og hafa yfir 1600 jarðskjálftar mælst. Alls hafa átta skjálftar mælst yfir þremur að stærð og hafa þeir fundist vel á Reykjanesskaganum, höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Frá um kl. 07:30 hafa fjórir skjálftar yfir fjórum að stærð mælst, sá stærsti kl. 08:21, 4,6 að stærð.
Búast má við áframhaldandi jarðskjálftavirkni næstu daga og er fólki ráðlagt frá því að ferðast um á svæðinu þar sem auknar líkur eru á grjóthruni.
Í byrjun apríl á þessu ári hófst landris við Fagradalsfjall og er talið að virknin nú stafi af völdum kvikuinnskots á um 5 km dýpi.
Sólahringsvakt Veðurstofunnar heldur áfram að vakta svæðið náið.
Umræða