Snarpur skjálfti sem mældist 4,5, varð klukkan 16.25 á suðvesturhorni landsins. Skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu.
Talið líklegt að þessi aukna virkni geti verið undanfari eldgoss. Um 2200 skjálftar frá því í gær
Uppfært 5. júlí 2023 kl: 14:50
Jarðskjálftahrinan sem hófst í gær (4. júlí 2023) liggur á milli Fagradalsfjalls og Keilis í norðaustur-suðvestur stefnu. Hún hófst á þekktu uppstreymissvæði kviku undir Fagradalsfjalli (nálægt þar sem innskot hófst í júlí 2022) með upptök á um 8 km dýpi sem grynntust upp í um 4 km á um fimm stundum eftir upphaf hrinunnar. Í morgun hafa skjálftar mælst á um 2-3 km dýpi. Skjálftastærð hefur vaxið eftir því sem liðið hefur á hrinuna og hafa sjö skjálftar stærri en 4 orðið í morgun.
Virknin er áþekk fyrri skjálftahrinum sem urðu á svæðinu í febrúar-mars og desember 2021 og í júlí-ágúst 2022. Þær hrinur urðu vegna kvikuinnskots á sömu línu. Tvær hrinanna enduðu með eldgosi (í mars 2021 og ágúst 2022).
Hrinan nú er talin vera vegna nýs kvikuinnskots á milli Fagradalsfjalls og Keilis. Nánar tiltekið svipar yfirstandandandi hrinu til þeirrar sem hófst 30. júlí 2022 þegar innskot varð á sama svæði og endaði með eldgosi fjórum dögum síðar, þann 3. ágúst 2022.
Talið er líklegt að þessi aukna virkni geti verið undanfari eldgoss á næstu stundum eða dögum. Þó getur virknin hætt án þess að til eldgoss komi, en m.t.t. líkinda yfirstandandi hrinu og hrinunni í júlí og ágúst 2022 eru taldar vera auknar líkur á eldgosi.
Aflögun tengd innskotinu og jarðskjálftavirkninni er talin geta komið af stað gikkskjálftum á öðrum sprungum á Reykjanesskaga
Hér á myndinni sjást upptök jarðskjálfta (hringir) við Fagradalsfjall frá 30. júlí 2022 til 5. júlí 2023. Rauðir hringir tilheyra yfirstandandi jarðskjálftahrinu og bláir hringir hrinunni sem átti sér stað í júlí-ágúst 2022. Appelsínugula strikið sýnir lóðrétt ofanvarp gangainnskotsins sem varð 2022. Kortið sýnir yfirfarna jarðskjálfta og stærðir fyrir skjálfta stærri en 1 og eru stærðir hringanna í hlutfalli við stærð skjálftanna.
Uppfært 5. júlí 2023 kl: 13:50
Í gær, 4. júlí hófst jarðskjálftahrina í Fagradalsfjalli, alls hafa um 2200 skjálftar mælst og finnast stærstu skjálftarnir á Suðvesturhornið. Um 130 jarðskjálftar hafa verið yfirfarnir. Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni í dag. Sjö skjálftar yfir fjórum að stærð hafa mælst, sá stærsti 4,8 að stærð kl. 08:21. Skjálftarnir raðast milli Fagradalsfjall og Keilis.
Aðgát skal höfð við brattar hlíðar þar sem grjóthrun getur orðið í kjölfar öflugra skjálfta. Íbúar í grennd við svæðið eru hvattir til að huga að lausa- og innanstokksmunum.
Hér má sjá yfirfarna skjálfta en hægt er að skoða skjálftana hér.
Uppfært 5. júlí 2023 kl: 11:50
Vegna jarðskjálftahrinu sem nú stendur yfir á Reykjanesskaga er aukin hætta á grjóthruni. Nú þegar hafa sjö skjálftar mælst yfir 4 stigum og 1800 skjálftar frá því í gær. Í jarðskjálftum sem þessum getur grjóthrun orðið og jafnvel skriður fallið. Enn hafa ekki borist tilkynningar um nýlegt grjóthrun á svæðinu en fólk er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum, nálægt bröttum sjávarbjörgum og forðast svæði þar sem grjót getur hrunið.
Uppfært 5. júlí 2023 kl: 09:00
Jarðskjálftavirkni hélt áfram í nótt. Yfir 1700 skjálftar hafa mælst síðan í gær, flestir eftir miðnætti. Fjórir skjálftar yfir fjórum að stærð hafa mælst, sá stærsti 4,6 að stærð kl. 08:21 í morgun.
Sett inn 4. júlí 2023.
Í byrjun apríl fór að mælast landris við Fagradalsfjall og hefur rishraðinn verið u.þ.b. 1 cm/mán þar sem það er mest. Landrisið sést víða á vestanverðum Reykjanesskaganum og gæti bent til innflæðis kviku undir fjallinu. Líkanreikningar benda til þess að mögulegt innflæði sé á um 15 km dýpi. Til viðbótar við þensluna við Fagradalsfjall sést afmarkaðra merki um sig við Reykjanestá. Þar hefur verið viðvarandi sig vegna jarðhitavinnslu en undanfarið hefur hert á því. Ekki er ljóst hvað veldur siginu en ekki er útilokað að það tengist annarri virkni á Reykjanesskaga. Einnig er viðvarandi sig við Svartsengi svipað og mældist árin 2020 og 2022. Jafnframt mælist afmarkað sig við Fagradalsfjall sem er mjög sambærilegt og mældist í tengslum við innskotið 2021.
Mynd sýnir GPS tímaröð frá stöðinni FAFC sem staðsett er nálægt miðju riskúrfunnar. Á lóðrétta þættinum sést vel að landris hefst í byrjun apríl og hefur risið um 3 cm. Rauðu línurnar sýn upphaf eldgoss og bláu sýna innskot.
Viðvarandi skjálftavirkni hefur verið á vestanverðum Reykjanesskaganum. Í júní mældust þar yfir 1000 jarðskjálftar. Virknin afmarkast helst við vestasta hluta Reykjaness, Svartsengi, Fagradalsfjall og Kleifarvatn. Flestir skjálftarnir eru staðsettir við Reykjanestá, norðaustan við Fagradalsfjall eða suðvestan Kleifarvatns. Frá áramótum hefur djúp skjálftavirkni (> 8 km) við Fagradalsfjall aukist samanborið við síðari hluta 2022.
Nýlegar gas- og hitamælingar sýna að hraunbreiðan sem rann í Merardölum í ágúst 2022 er enn að afgasast og hitastig mælist yfir 219 °C á sumum stöðum í hrauninu.
Nánari upplýsingar um eldstöðvar á Reykjanesskaga má finna í Íslensku Eldfjallavefsjánni.