6.8 C
Reykjavik
Föstudagur - 31. mars 2023
Auglýsing

Bleikþvottur

Auglýsingspot_img
Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Bleikþvottur 💖

Bjarni Snæbjörnsson deildi áhugaverðum pistli
Nú þessa dagana keppast fyrirtæki við að auglýsa hvað mest þau mega með regnbogalitum og óska þjóðinni allri til hamingju með stórkostlegu hinsegin hátíðina sem nú stendur yfir. Við sjáum lógó í regnbogalitum, fánar blakta við hún á bensínstöðvum og stuttar auglýsingar eins og frá Húsasmiðjunni sem sýnir tvær hendur “kless’ann”. Þetta er allt alveg frábært og manni hlýnar um hjartarætur að sjá hversu stuðningurinn er víðtækur. Bankar, verktakar, tryggingafélög, búðir, veitingastaðir og mörg fleiri fyrirtæki leggja mikinn metnað í að teika hinsegin-regnboga-lestina með miklum sýnileika, auglýsingum og hinseginskrauti.

Og þá er mikilvægt að staldra aðeins við og spyrja sig: eru þessi sömu fyrirtæki að leggja hinsegin málstaðnum lið af fullri alvöru eða er þetta bara kandífloss? Er þetta allt saman bara bleikur sykur og loft án allrar undirstöðu og eftirfylgni? Því ef enginn stuðningur við hinsegin samfélagið fylgir þessum fallegu ímyndum og auglýsingum þá eru þetta innantómar markaðsbrellur: Fyrirtækið reynir að hagnast án virkrar þátttöku í hinsegin samfélaginu eða gerir nokkuð til að berjast gegn fordómum og misrétti sem hinsegin fólk verður enn kerfisbundið fyrir. Þetta kallast bleikþvottur. (Pinkwashing, Rainbow washing).

Þegar fyrirtæki hoppar um borð í hinseginvagninn í þessa einu viku á PRIDE þá er mikilvægt að viðkomandi fyrirtæki líti djúpt í eigin barm og spyrji sig: “Er þessi hinsegin sýnileiki búinn til af heilindum eða er hann aðeins í markaðslegum tilgangi?”

Svarið við þessari spurningu verður hver stjórnandi og markaðsdeild að eiga við sig og sýna samvisku. Því eitt er víst að bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks er raunverulegt og í raun aldrei verið mikilvægara að efla hinsegin fræðslu með öllum mögulegum leiðum. Og í því samhengi er mikilvægt að minna á að samtök og félagsheildir sem halda uppi mikilvægu fræðslunni og þjónustu við hinsegin fólk eru mjög fjársvelt.

Hér eru nokkrar hugmyndir um hvernig fyrirtæki gætu stutt við hinsegin fólk og baráttu þeirra og sýnt þannig sannan stuðning í verki:

– Peningastyrkir til félagasamtaka eða skipulagsheilda sem styðja við hinsegin fólk. T.d. Beinn fjárstyrkur til Samtakanna 78, Hinsegindaga, Félagsmiðstöðvar Samtakanna 78, Trans Ísland (fleiri hagsmunasamtök er að finna hér: https://samtokin78.is/um-samtokin-78/hagsmunafelog/ )

– Kaupa regnbogafána, skraut og vörur beint af Hinsegin kaupfélaginu þar sem hagnaðurinn fer beint í Hinsegindaga. T.d. er þessi frábæri bolur til þar sem styrkir Hinsegindaga lóðbeint! (Þau halda úti vefverslun allt árið).

– Sýna frumkvæði í að skapa hinseginvænan vinnustað með jafnréttisstefnum sem taka fyrir hinseginleikann sérstaklega.

– Ekki einskorða hinsegin markaðsefni bara við Hinsegindaga, þessa einu viku á ári heldur vera sýnilega hinseginvæn allt árið um kring.

– Leggja áherslu á að ráða hinsegin listamenn í auglýsingar og verkefni sem tengjast Hinsegindögum og borga þeim full laun (fata- og vöruhönnuðir, myndlistafólk, tónlistarfólk, söngvarar, kvikmyndagerðarfólk, leikarar o.s.frv.).

– Fleiri hugmyndir er að finna í þessari góðu grein: https://www.theurbanlist.com/a-list/rainbow-washing

Svo er ég handviss um að hægt er að finna margar skapandi leiðir til að styðja réttindabaráttuna hjá hverju fyrirtæki fyrir sig. Í grunninn þarf stuðningurinn að vera mælanlegur og styðja hinsegin samfélagið beint á einhvern hátt.

Þannig eru sannir bandamenn okkar.

Gleðilega hinsegindaga kæru öll!

——

Ég tek það fram að ég hef enga þörf á að fyrirtæki sanni fyrir mér eitt eða neitt í þessum efnum. Ég vildi bara setja fram hugleiðinguna og hvert og eitt fyrirtæki tekur þetta bara til sín sem þarf. Regnboginn er ekki höfundavarinn og öllum er frjálst að gera það sem samviskan þeirra leyfir. Heimildir og hugmynd að þessari hugleiðingu fengin úr grein af hinsegindagar.is: Hvert fer ágóðinn: https://hinsegindagar.is/hvert-fer-agodinn/