Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur birt frumvarp um framleiðendafélög á samráðsgátt stjórnvalda. Þar er lagt til að fyrirtækjum sem eru í eigu eða undir meirihlutastjórn frumframleiðenda verði heimilt að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti líkt og tíðkast í nágrannalöndum.
Frumvarpið er í samræmi við áherslur sem birtast í landbúnaðarstefnu fyrir Ísland sem samþykkt var á Alþingi í júní 2023. Þar kemur fram að tryggja skuli með löggjöf að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en framleiðendur í nágrannalöndunum þar sem starfað er samkvæmt EES- löggjöf.
„Markmiðið er að heimildir bænda til samstarfs og samvinnu verði formfestar og séu ekki þrengri en tíðkast í samanburðarlöndum“ sagði matvælaráðherra. „Samningsstaða bænda er afleit þegar markaðsöflunum einum er eftirlátið að skipuleggja virðiskeðju landbúnaðar, ekki gengur til lengdar að bændur séu afgangsstærð í þeirri keðju“.
Við samningu frumvarpsins var einkum horft til reglna ESB á þessu sviði og útfærslu á þeim í Finnlandi. Frumvarpið miðar að því að því að styrkja stöðu framleiðenda búvara og skapa tækifæri til aukinnar samvinnu og verðmætasköpunar.
Frumvarpið má finna á samráðsgátt, umsagnarfrestur er til 17. október nk.