Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist ekki geta tjáð sig um einstök mál flóttafólks og hælisleitenda. En tjáir sig þó lauslega um þetta tiltekna mjög svo umdeilda mál sem hefur farið eins og eldur í sinu um allt þjóðfélagið í dag og m.a. rætt á Alþingi
,,Ég fékk fregnir af þessu máli í fjölmiðlum í morgun líkt og aðrir. Þó ég geti ekki tjáð mig um einstök mál get ég þó sagt að mér var brugðið líkt og öðrum. Við viljum öll að farið sé varlega þegar um er að ræða þungaðar mæður, börn þeirra, fædd og ófædd.
Almennt er verklagið á þann veg í dag að fengin eru tilmæli frá heilbrigðisyfirvöldum um hvort einhver hætta sé vegna brottfarar þeirra sem um ræðir úr landi. Ef svo er er brottvísun frestað. Það hefur oft orðið raunin, til að mynda vegna þungunar kvenna í þessari erfiðu stöðu.
Ég óskaði eftir upplýsingum um þetta tiltekna mál sem fjallað hefur verið um í dag og fékk þau svör að þeim almennu reglum hefði verið fylgt í málinu.
Landlæknir hefur engu að síður boðað að skoða skuli verklagið og Útlendingastofnun mun fara yfir gildandi reglur með þeim. Ég fagna því. Það þarf að meta hvort í ljósi þessa máls sé þörf á að breyta reglum eða verklagi. Brýnt er að leiðbeiningar frá heilbrigðisyfirvöldum séu skýrar.
Um þessar mundir er ég að leggja lokahönd á að skipa þverpólitíska þingmannanefnd um málefni útlendinga. Þar verður hægt að fjalla um framkvæmd laganna, mögulegar lagabreytingar með mannúðarsjónarmið til grundvallar, fá gesti og koma með tillögur til úrbóta. Sú vinna er einstaklega mikilvæg.“ Segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra um hið umdeilda mál.
https://gamli.frettatiminn.is/2019/11/05/komin-9-manudi-a-leid-og-visad-brott-af-landinu-med-flugi/