Rúmlega 730 milljóna króna tap var á rekstri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, á síðasta ári, en ársreikningur félagsins fyrir árið 2018 var lagður fram og staðfestur af stjórn á aðalfundi félagsins.
Leiga og sala fasteigna Varnarliðsins
Töluverður viðsnúningur hefur orðið á rekstri félagsins nú þegar sölu á þeim eignum sem félagið hafði til umráða er að mestu lokið, en tæplega 600 milljóna króna hagnaður var af rekstrinum árið á undan. Frá árinu 2006 hefur Kadeco unnið að þróun svæðis, ásamt leigu og sölu fasteigna sem áður tilheyrðu samfélagi Varnarliðsins, svæði sem í dag er nefnt Ásbrú. Sölu fasteigna er nú lokið og er framtíðaráhersla lögð á landþróun svæðisins.
Kjarnaverkefni félagsins til framtíðar felur í sér skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu á landi ríkisins sem umlykur flugverndarsvæði Keflavíkurflugvallar og nágrennis. Viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð af hálfu fjármála- og efnahagsráðherra, fulltrúa Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar í lok júní sl.
Efnt verður til formlegs samstarfs til að tryggja að þróun og skipulag verði heildstætt og land verði nýtt með sem bestum hætti óháð mörkum skipulagssvæða sveitarfélaga eða Keflavíkurflugvallar.
Kadeco kemur að ýmsum verkefnum sem eiga það sameiginlegt að auka virði svæðisins. Segir um starfsemi félagsins.