Í tilefni af aðgerðum lögreglu aðfaranótt 3. nóvember sl. þegar 15 fullorðnir einstaklingar voru fluttir frá Íslandi til Grikklands vill ráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri.
Líkt og fram kom í yfirlýsingu ríkislögreglustjóra stóð til að flytja alls 28 fullorðna einstaklinga til Grikklands. Við undirbúning ferðar tókst ekki að hafa upp á 13 þeirra. Um var að ræða útlendinga sem sótt höfðu um alþjóðlega vernd hér á landi en fengið endanlega synjun á stjórnsýslustigi þar sem þeir njóta þegar slíkrar verndar í Grikklandi. Notast var við leiguflugvél fyrir fylgdina og með í för voru læknir, túlkur og eftirlitsaðili sem hlotið hefur sérstaka þjálfun hjá Landamærastofnun Evrópu (Frontex). Flutningurinn og framkvæmd hans fór fram á grundvelli gildandi laga, þ. á m. laga um útlendinga, laga um meðferð sakamála og lögreglulaga.
Málsmeðferð þegar sótt er um vernd
Þegar einstaklingur sækir um alþjóðlega vernd hér á landi er það samkvæmt gildandi lögum á ábyrgð Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála að meta hvort viðkomandi eigi að fá efnismeðferð hér á landi, og þannig mögulega áframhaldandi dvöl, eða hvort vísa eigi honum úr landi. Við rannsókn þeirra er litið til frásagnar umsækjanda, gagna sem hann leggur fram og til þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í viðtökuríki hans, t.d. skýrslur og gögn alþjóðlegra samtaka, frjálsra félagasamtaka og annarra ríkja.
Við slíkt mat taka stjórnvöld m.a. afstöðu til þess hvort synjun umsóknar muni brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 42. gr. laga um útlendinga (non-refoulement). Öll mál eru því skoðuð og metin á einstaklingsbundnum grundvelli með tilliti til aðstæðna hvers og eins. Í þeirri málsmeðferð njóta allir umsækjendur þjónustu löglærðs talsmanns á báðum stjórnsýslustigum þeim að kostnaðarlausu.
Á vef Stjórnarráðsins er að finna upplýsingavef verndarmála, m.a. ferli umsóknar, fjölda umsókna um vernd og afgreiðslu mála. Þar kemur m.a. fram að á þessu ári hafa borist 1.468 umsóknir og þar af hafa 961 fengið vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Þar fyrir utan hafa 1.999 flóttamenn komið hingað frá Úkraínu.
Þeir útlendingar, sem fá endanlega synjun á stjórnsýslustigi á umsókn um alþjóðlega vernd, geta skotið úrlausninni til dómstóla. Slíkt málskot frestar þó ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar og 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Þannig verður framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun ekki frestað með því að höfða mál fyrir dómi nema kærunefnd útlendingamála fallist á slíkt. Að sama skapi frestar það ekki framkvæmd ákvörðunar að leggja fram beiðni um endurupptöku máls.
Aðstæður í Grikklandi
Á vefnum www.urskurdir.is eru úrskurðir kærunefndar útlendingamála aðgengilegir, þ. á m. úrskurðir þar sem aðstæður einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi eru raktar og metnar. Þar kemur fram að sú vernd sem flóttamenn njóta þar í landi telst virk alþjóðleg vernd í skilningi flóttamannaréttar og hefur það mat kærunefndar verið staðfest af dómstólum hér á landi. Þannig hafa stjórnvöld og dómstólar hafnað því að endursendingar til Grikklands brjóti í bága við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 42. gr. laga um útlendinga (non-refoulement).
Hvað tekur við eftir synjun á umsókn um vernd?
Útlendingi sem fær endanlega synjun á umsókn um vernd á stjórnsýslustigi ber lögum samkvæmt að yfirgefa landið enda er hann þá í ólögmætri dvöl. Samkvæmt verklagi Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála er ákvörðun um frávísun eða brottvísun birt einstaklingi samhliða ákvörðun um synjun á umsókn um vernd. Að jafnaði stendur útlendingum í þessari stöðu til boða að fara sjálfviljugir úr landi, án aðkomu lögreglu, eftir atvikum með aðstoð stjórnvalda svo sem með greiðslu fargjalda. Fari einstaklingur ekki sjálfviljugur er flutningur úr landi í fylgd lögreglu eina úrræði stjórnvalda til að framfylgja frávísun eða brottvísun.
Flutningur í fylgd lögreglu
Flutningur í fylgd lögreglu er hluti af lögbundinni málsmeðferð laga um útlendinga. Við undirbúning flutnings í fylgd er tekið tillit til fordæmisgildis dóma og annarra fyrirliggjandi ákvarðana stjórnvalda. Áður en flutningur fer fram aflar lögregla samþykkis frá stjórnvöldum viðtökuríkis fyrir móttöku hvers og eins einstaklings. Í samræmi við verklag stoðdeildar ríkislögreglustjóra er hættumat unnið fyrir alla flutninga í fylgd. Þar er m.a. litið til stöðu og þarfa einstaklings, þ. á m. í samræmi við ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurð kærunefndar útlendingamála, heilbrigðisaðstæðna og öryggissjónarmiða, og annarra atriða sem skipt geta máli við flutning. Í einhverjum tilvikum getur verið um að ræða hættulega einstaklinga sem hafa þarf sérstakar gætur á. Fyrirkomulag flutnings er ákveðið á grundvelli þess hættumats.
Samkvæmt lögum um útlendinga er lögreglu heimilt að beita þvingunar- og rannsóknarúrræðum til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um frávísun eða brottvísun. Í lögunum er m.a. kveðið á um heimild lögreglu til að skylda einstaklinga að halda sig á afmörkuðum svæðum, tilkynna sig eða dveljast á tilteknum stað, framkvæma húsleit, handtaka eða setja í gæsluvarðhald. Til þess að beita rannsóknar- og þvingunarúrræðum þarf að jafnaði úrskurð dómara og gilda lög um meðferð sakamála um slík úrræði. Í lögum um útlendinga er skýrt kveðið á um að lögregla geti ekki farið fram á gæsluvarðhald nema önnur vægari úrræði hafi áður verið reynd. Vakin er athygli á að hægt er að leita til nefndar um eftirlit með lögreglu vegna starfshátta lögreglu.