,,Guð blessi Reykjavík“
Borgarráð í dag: Sjómannaskólareitur:
Borgarstjóri fann grænan blett í borginni – Nú skal honum slátrað í nafni góðmennsku.
Það er stundum súrealískt að sitja fundi í Ráðhúsi borgarinnar.
Meðan meirihlutinn táraðist úr gleði yfir að hafa fundið síðasta græna blettinn í Háteigshverfi og skipulagt slátrun hans gluggaði ég í Meirihlutasáttmála þeirra frá í fyrra og las orðin:
,,Við ætlum að hlúa að grænum svæðum borgarinnar.´´
Þær staðreyndir sem koma fram í bókun minni vegna málsins eru ansi magnaðar og lesturins verðar:
Fulltrúi Miðflokksins harmar að meirihlutinn beiti enn og aftur fyrir sig sýndarsamráði og virði að vettugi innsendar réttmæta, vel unnar athugasemdir íbúa borgarinnar og hagsmunaaðila.
Meirihluti Vg-S-C-P heldur áfram stríðsrekstri gegn íbúum,hagsmunaaðilum og náttúru borgarinnar. Þvert á yfirlýsingar og fyrirheit, er ráðist gegn hverjum græna blettinum á fætur öðrum.
Allt í nafni ,,samráðs´´.
Þetta mál er í raun með ólíkindum, því samkvæmt úttekt borgarinnar sjálfrar er gróðurþekja Háteigshverfis of lítil nú þegar.
Í stað þess að hlúa að þessu síðasta vígi hverfisins skal því eytt í nafni góðmennsku og fyrirheita um hagkvæmt húsnæði.
Við nánari skoðun kemur í ljós eftirfarandi í lið 5.2. samnings um ,,hagkvæmt´´ húsnæði:
„Seljist íbúð ekki til framangreinds forgangshóps innan þriggja vikna frá auglýsingu í fjölmiðlum (þ.m.t. vefmiðlar) er heimilt að selja hana á almennum markaði.“
Þetta heitir á fagmáli að hafa frjálsar hendur.
Við þekkjum þessi vinnubrögð frá Rúv-reit, þar eru nú auglýstar ,,hagkvæmar´´ íbúðir upp á 27 fermetra á 30 milljónir, eða kr.1.111,000,- pr.fm!
Því miður sannast hér orð sem féllu í öðru umdeildu máli:
,,Okkur er alveg sama hvað fólk vill, við ætlum að gera þetta.´´
Guð blessi Reykjavík.
Baldur Borgþórsson Varaborgarfulltrúi Miðflokksins