Raforkuverð vegna flutningstapa verður 5,45 kr/kWst fyrir fyrsta ársfjórðung 2020
Nýverið voru opnuð tilboð í raforku sem áætlað er að muni tapast á 1. ársfjórðungi næsta árs en Landsnet býður fjórum sinnum á ári út alla þá orku sem tapast í flutningskerfinu.
Flutningstöp er sú raforka sem tapast vegna viðnáms í raflínum og spennum í raforkuflutningskerfinu. Ríflega 2% þeirrar raforku sem mötuð er inn á kerfið tapast á leið til notenda. Sú raforka samsvarar um 400 GWh/ári sem jafngildir framleiðslu Kröflustöðvar eða raforkunotkun um 1.500 rafmagnsbíla á einu ári.
Boðnar voru út tvenns konar vörur. Annars vegar er um að ræða grunntöp með fullum nýtingartíma og hins vegar eru það viðbótartöp með 41% nýtingartíma og sveigjanleika sem nemur magn aukningu eða – minnkun um +/- 30%. Alls voru 97 GWh af raforku boðin út en það er sú raforka sem áætlað er að tapist í flutningskerfinu á næsta ársfjórðungi.
Sögulega hefur raforkuverð vegna flutningstapa verið með því hæsta á vetrarmánuðum, en á þeim árstíma er raforkunotkun með mesta móti og eftirspurnin því mikil eftir rafmagni í samfélaginu öllu. Meðalverð þessa útboðs lækkar um 1,9% miðað við sama tíma í fyrra, en er þó 16% hærra en á síðasta ársfjórðungi en raforkuverð fyrir fyrsta ársfjórðung 2020 verður 5,45 kr/kWst. Gjald vegna flutningstapa fyrir fyrsta ársfjórðung 2020 verður 107,30 kr. á MWst og hækkar úr 91,44 kr. á MWst, eða um 17,35%.
Að þessu sinni var samið við þrjá raforkusala, Íslenska orkumiðlun, Landsvirkjun og Orku náttúrunnar. á grundvelli þeirra tilboða sem bárust og er heildarkostnaður þeirra um 520 millj. kr. Til að geta tekið þátt í rafrænum útboðum á raforku vegna flutningstapa þurfa raforkusölufyrirtæki að gera rammasamning við Landsnet. Rammasamningur skyldar þó ekki fyrirtæki til þess að taka þátt í útboðunum, enda er það val hvers sölufyrirtækis hverju sinni. Í dag eru 5 raforkusalar með rammasamning við Landsnet: HS orka, Íslensk orkumiðlun, Landsvirkjun, Orka náttúrunnar og Orkusalan.
Öll tilboð sem bárust vegna útboðsins eru birt á www.landsnet.is og þar er hægt að skoða nánar dreifingu tilboða og bera saman við tilboð fyrri útboða.
Hefur þú áhuga á að hjálpa Fréttatímanum að vaxa og dafna?
Með því að styrkja Fréttatímann stuðlar þú að frjálsri og óháðri umfjöllun.