Gert að greiða 1.375.000 kr. samtals vegna dauðra og ómerkra ummæla
Nú liggur fyrir dómur í máli Manna í vinnu ehf. vegna ummæla sem þar voru viðhöfð opinberlega, en Halla Rut Bjarnadóttir var stefnandi í málinu og hennar lögmaður, Jóhannes Stefán Ólafsson fór með málið fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Gegn Maríu Lóu Friðjónsdóttur (Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður). Dómsniðurstaðan var sú að neðangreind ummæli voru dæmd dauð og ómerk og María Lóa var dæmd til að greiða stefnanda 75.000 krónur til að standa straum af kostnaði af opinberri birtingu niðurstöðu málsins, og til að greiða stefnanda 1.300.000 krónur í málskostnað.
Dómsorð voru:
Eftirtalin ummæli skulu vera dauð og ómerk: „og ég er búin að sjá bankareikninga hjá þeim þar sem að fyrirtækið leggur inn og tekur jafn harðan út aftur. Mennirnir komast ekki neitt og þeir eru ekki á launum“
og
„Menn í vinnu legðu inn á þá til dæmis 100.000 en síðan færi 90.000 út aftur. Ég sá þessar færslur og spurði hvern þetta væri hægt en þá vissu þeir það ekki almenninga en að Halla Rut sem á fyrirtækið vildi alltaf fá að sjá og vita PIN númer þeirra svo það virðist sem Menn í Vinnu ehf. hafi aðgang að heimabönkum mannanna.“
Stefnda er sýkn af kröfu stefnanda um ómerkingu ummælanna: „Að mínu mati er þetta nauðungarvinna og þrælahald. Þetta er mjög slæm aðstaða.“
Stefndu, Maríu Lóu Friðjónsdóttur, ber að greiða stefnanda 75.000 krónur til að standa straum af kostnaði af opinberri birtingu niðurstöðu þessa máls, og henni ber einnig að greiða stefnanda 1.300.000 krónur í málskostnað.
.
Dómurinn í heild sinni:
Mál þetta, sem var höfðað með stefnu birtri 20. mars 2019, var dómtekið 16. október 2019. Stefnandi er Halla Rut Bjarnadóttir, [—], fh. þb. MIV ehf. (áður Menn í vinnu ehf.), en stefnda er María Lóa Friðjónsdóttir, til heimilis að [—].
.
Stefnandi gerir svofelldar dómkröfur.
.
1) Að eftirfarandi ummæli verði dæmd dauð og ómerk: „Að mínu mati er þetta nauðungarvinna og þrælahald. Þetta er mjög slæm aðstaða og ég er búin að sjá bankareikninga hjá þeim þar sem að fyrirtækið leggur inn og tekur jafn harðan út aftur. Mennirnir komast ekki neitt og þeir eru ekki á launum.“ „Menn í vinnu legðu inn á þá til dæmis 100.000 en síðan færi 90.000 út aftur. Ég sá þessar færslur og spurði hvernig þetta væri hægt en þá vissu þeir það ekki almenninga en að Halla Rut sem á fyrirtækið vildi alltaf fá að sjá og vita PIN númer þeirra svo það virðist sem Menn í Vinnu ehf. hafi aðgang að heimabönkum mannanna.“
.
2) Að stefnda verði dæmd til þess að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna með vöxtum, samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 7. febrúar 2019 til 26. mars 2019, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
.
3) Að stefndu verði gert að greiða stefnanda 500.000 krónur með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þingfestingardegi stefnu til greiðsludags, til að kosta birtingu dóms, forsendna og dómsorðs ítveimur dagblöðum, sbr. 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er krafist greiðslu málskostnaðar í öllum tilvikum.
.
Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefnda greiðslu málskostnaðar. I.Þann 7. febrúar 2019 var umfjöllun um starfsmannaleiguna Menn í vinnu ehf. í fréttum Stöðvar 2.
.
Í fréttinni voru viðtöl við rúmenska starfsmenn starfsmannaleigunnar þar sem þeir lýstu bágbornum aðbúnaði sínum hjá einkahlutafélaginu Mönnum í vinnu. Í fréttinni sýna umræddir starfsmenn fréttamönnum íbúðarhúsnæði sem þeir telja ófullnægjandi og gefa til kynna að það sé húsnæðið sem þeir hafi til afnota.
.
Kemur m.a. fram í fréttinni að Alþýðusamband Íslands hafi lengi fylgst með fyrirtækinu vegna grunsemda um slæma framkomu í garð starfsmannanna. Voru starfsmenn ASÍ, stefnda og Halldór Grönvold viðstödd þegar viðtöl voru tekin við starfsmennina og fréttin tekin upp, en starfsmenn fréttastöðvarinnar höfðu haft samband við félagið og gefið forsvarsmönnum þess kost á að vera viðstaddir þegar fréttin væri tekin upp. Í fréttinni var tekið viðtal við stefndu sem síðan var spilað í fréttatíma Stöðvar 2, þar sem hún lýsir því sem fyrir augu bar, m.a. íbúðarhúsnæðinu með hinum umstefndu ummælum: Að mínu mati er þetta nauðungarvinna og þrælahald. Þetta er mjög slæm aðstaða og ég er búin að sjá bankareikninga hjá þeim þar sem að fyrirtækið leggur inn og tekur jafn harðan út aftur. Mennirnir komast ekki neitt og þeir eru ekki á launum.
.
Áfram var fjallað um málið í fjölmiðlum næstu daga. Þann 17. febrúar 2019 fjallaði DV um málið og þar komu fram seinni ummæli stefndu í samtali hennar við blaðamann DV: Menn í vinnu legðu inn á þá til dæmis 100.000 en síðan færi 90.000 út aftur. Ég sá þessar færslur og spurði hvernig þetta væri hægt en þá vissu þeir það ekki almenninga en að Halla Rut sem á fyrirtækið vildi alltaf fá að sjá og vita PIN númer þeirra svo það virðist sem Menn í Vinnu ehf. hafi aðgang að heimabönkum mannanna.
.
Áður en stefnda hafði uppi síðar greindu ummælin kom eftirfarandi fram í viðtalinu: „María Lóa Friðjónsdóttir staðfesti í samskiptum við blaðamann að hún hafi séð færslur á heimabanka 2-3 starfsmanna þar sem tekið hafi verið út af reikningum jafn harðan og lagt væri inn.“Þann 26. febrúar 2019 sendi lögmaður stefnanda bréf til stefndu, þar sem stefnda var m.a. krafin um greiðslu miskabóta. Einnig var skorað á stefndu að færa fram gögn til sönnunar á fyrrgreindum ummælum um nauðungarvinnu, þrælahald og frelsissviptingu.
.
Þá var skorað á stefndu að sýna fram á og sanna með gögnum að stefnandi hefði tekið laun Rúmenanna jafnharðan út aftur, og að leggja fram þau gögn sem stefnda hafði staðhæft að hafa undir höndum, þess efnis að stefnandi hefði lagt inn 100.000 krónur sem væru teknar út strax aftur. Í sama bréfi var gerð grein fyrir launum sem greidd hefðu verið einum af þeim Rúmenum sem komu fram í fréttinni, Romeo Sarga.
.
Er í bréfinu gerð grein fyrir launum hans og því lýst að hann hafi fengið greitt sem nemi 73.501 krónu umfram ráðningarsamning. Samtals hafi laun hans verið 1.717.980 krónur á tímabilinu ágúst–desember 2018, en 1.234.998 krónur að teknu tilliti til frádráttar. Er því lýst að umræddar fjárhæðir hafi verið lagðar inn á bankareikning Romeo. Þá voru lögð fram gögn frá Arion banka um að engin greiðsla hefði borist frá Romeo inn á bankareikning Manna í vinnu ehf. Þá segir svo í bréfi lögmannsins: Romeo Sarga (eins og hinir Rúmenarnir) fór í jólafrí til Rúmeníu og átti að koma aftur til starfa að því loknu.
.
Hann vann því ekkert eftir15.12.2018 heldur flaug hann út til Rúmeníu þann 18.12.2018 og svo aftur til Íslands þann 19.1.2019. Fyrir flugmiðana greiddi umbj. mínir, sbr. meðfylgjandi skjöl. Eftir að hann kom til baka til Íslands hafði hann ráðið sig til vinnu hjá þriðja aðila, verktakafyrirtæki sem hér skal nefnt MM. Hinir Rúmenarnir höfðu komið til Íslands 8. janúar og byrjuðu allir nema einn að starfa hjá MM í lok janúar. Þeir störfuðu einungis í nokkra daga hjá umbj. mínum eftir heimkomu úr fríinu.
.
Í upphaflegri frétt Stöðvar 2,dags. 7.2.2019, má sjá Rúmenana klædda gulum vinnugöllum þar sem límt hefur verið límbandi yfir merkingar á bakhlið búninganna. Ástæður þessa eru þær að undir límbandinu var að finna áletrun með nafni vinnuveitanda þeirra, þ.e.a.s. MM. Í umræddu bréfi lögmannsins er einnig tekið fram að það húsnæði sem sýnt var í fréttinni hafi ekki verið í eigu stefnanda, heldur ótengdra aðila. Þar hafi búið 6 manns sem tengdir væru fjölskylduböndum. Um sé að ræða stúdíóíbúð. Þeir aðilar sem þar bjuggu hafi búið þar frítt og hafi ekki með mál starfsmanna stefnanda að gera. Segir í bréfinu að ljóst sé að um leikrit hafi verið að ræða enda hafi umræddir Rúmenar aldrei búið í þeirri íbúð sem sýnd var í fréttinni. Bréfi þessu var svarað 7. mars 2019, með bréfi lögmanns stefndu, með þeim orðum að öllum kröfum stefnanda væri hafnað
.
„Með vísan til hlutverks Alþýðusambands Íslands og 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu …“. Að öðru leyti var bréfi lögmanns stefnanda ekki svarað og ekki orðið við framlagningu umbeðinna gagna, hvorki þá né síðar. Áður en fyrrgreind umfjöllun átti sér stað hafði verið umfjöllun í fjölmiðlum um málefni erlends vinnuafls hér á landi. Í fréttaskýringaþættinum Kveik þann 2. október 2018 var m.a. fjallað um málefnið og þar með talið Menn í vinnu ehf. og rúmenska starfsmenn félagsins. Voru þar tekin viðtöl við nokkra starfsmenn félagsins og sýndar myndir af vistarverum þeirra.
.
Skýrslur fyrir dóminum gáfu Halla Rut Bjarnadóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Manna í vinnu ehf., stefnda, María Lóa Friðjónsdóttir, Nadine Guðrún Yaghi fréttamaður og Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. II.1. Helstu málsástæður og lagarök stefnandaStefnandi byggir á því að ummæli stefndu feli í sér meiðyrði gegn stefnanda. Skoða beri ummælin hlutlægt og í samræmi við almenna málvenju. Ásakanir um þrælahald, nauðungarvinnu og óumbeðnar úttektir af bankareikningum feli í sér alvarlegar ásakanir um refsiverða og siðferðislega ámælisverða háttsemi. Nauðungarvinna sé sérstaklega bönnuð í 2. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar og 227. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 225. gr. laganna um nauðung og 226. gr. um frelsissviptingu. Þáfeli ummæli stefndu um úttektir af bankareikningum Rúmenanna í sér ásökun um þjófnað, sbr. 244. gr. sömu laga. Hér sé um að ræða alvarlegar refsiverðar aðdróttanir af hálfu stefndu, sbr. 235. og 236. gr. laga nr. 19/1940. Stefnandi byggir á því að óheimilt sé að bera fram ásökun um refsiverða háttsemi og/eða mjög siðferðilega ámælisverða háttsemi, nema sá sem beri fram ásakanir geti fært sönnur á réttmæti ummælanna.
.
Stefnandi vísar til þess að ummæli stefndu hafi verið sérstaklega alvarleg í ljósi stöðu hennar hjá ASÍ og þess að ummælin hafi verið höfð upp í aðalfréttatíma Stöðvar 2. Hafi stefnda mátt ætla að dreifing þeirra yrði gríðarleg. Þá séu ummælin alvarleg í ljósi þess að stefnda hafi staðhæft að hún hafi haft undir höndum gögn sem hafi sannað réttmæti ummælanna. Almennt megi ganga út frá því að þegar aðili í stöðu stefndu, sérfræðingur stéttarfélags, tjái sig með svo afgerandi hætti, þá leggi almenningur mikla trú á réttmæti ummælanna. Henni hafi borið að gæta hófs í ummælum sínum stöðu sinnar vegna, en það hafi hún ekki gert.
.
Stefnda hafi ekki haft réttmæta ástæðu til að telja ummælin sönn og bar réttmæti þeirra ekki undir stefnanda áður en hún hafði þau í frammi. Þá hafi hún fengið í hendur gögn sem hafi sýnt að ummælin væru beinlínis röng, en hafi þrátt fyrir það ekki dregið þau til baka eða beðist afsökunar. Þvert á móti hafi hún tjáð sig aftur með svipuðum hætti, sbr. síðari ummæli hennar sem hún hafði uppi 17. febrúar 2019. Þá hafi hún ekki orðið við áskorun stefnanda um að upplýsa hvaða gagna hún vísi til með umræddum ummælum. Stefnandi byggir á því að stefnda hafi með orðum sínum vegið með alvarlegum hætti að æru, virðingu og nafni félagsins og fyrirsvarsmanna eða starfsmanna þess. Með því hafi hún framið alvarlega meingerð gagnvart stefnanda sem hún beri skaðabótaábyrgð á. Ljóst sé að virðing stefnanda hafi borið hnekki, sem og æra þeirra sem starfi hjá félaginu og stjórni því.
.
Réttur stefnanda njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og XXV. kafla almennra hegningarlaga, sbr. m.a. 229. gr. laganna. Öll framangreind lagaákvæði gildi um stefnanda sem lögaðila. Félagið sé réttur aðili til að hafa uppi kröfur í málinu enda sá aðili sem misgert var við í skilningi 3. tölul. 1. mgr. 242. gr. laga nr. 19/1940. Stefnandi reisir kröfu sína á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá byggir stefnandi á því að stefnda þurfi að sanna hinar meintu ásakanir með töluverðri nákvæmni. Það hafi hún ekki gert.
.
Stefnandi tekur fram að umræddir Rúmenar hafi fengið laun sínað fullu greidd samkvæmt fyrirliggjandi ráðningarsamningum og launaseðlum. Launaseðlar þeirra hafi í öllum tilvikum verið í samræmi við ráðningarsamninga viðkomandi starfsmanna og þeir hafi allir verið innan samþykktra kjarasamningstaxta. Engin laun hafi verið tekin til baka eins og haldið hafi verið fram af stefndu. Vinnumálastofnun hafi farið sérstaklega yfir frádrátt af launum starfsmanna og ekki gert neinar athugasemdir. Þá hafi umræddir Rúmenar verið hættir að starfa fyrir stefnanda þegar frétt Stöðvar 2 hinn 7. febrúar 2019 var flutt.
.
Eftir að þeir komu til baka frá Rúmeníu eftir jólafrí í janúar s.á. hafi þeir einungis starfað hjá stefnanda í nokkra daga. Um húsnæðismál Rúmenanna tekur stefnandi fram að þeir hafi allir búið í fallegri íbúð í Breiðholti þangað til þeir héldu til síns heimalands í jólafrí í desember 2018. Fyrir þá aðstöðu hafi þeir greitt lága leigu eða 26.000 krónur á mánuði. Húsnæðið sem sýnt hafi verið í umræddri frétt Stöðvar 2 hafi ekki verið á vegum stefnanda. Þeir hafi aldrei búið í því húsnæði sem sýnt var í fréttinni.
.
Á meðan Rúmenarnir voru í jólafríi í Rúmeníu hafi íbúðin í Breiðholti verið leigð út í skamman tíma eða til febrúarloka 2019. Vegna þessa hafi verið samið við þá um að þar til íbúðin losnaði fengju þeir annað húsnæði á vegum Manna í vinnu ehf. Þannig hafi 3 starfsmenn búið í tvískiptu herbergi í Hjallabrekku í Kópavogi og 2 í öðru húsnæði í Kópavogi á meðan beðið var eftir íbúðinni.Stefnandi tekur fram að Rúmenarnir hafi ekki virt uppsagnarfresti í ráðningarsamningum. Þeir hafi hlaupist á brott úr vinnu og hafið störf hjá öðru fyrirtæki. Þeir hafi krafist þess að fá að búa áfram í leiguhúsnæði stefnanda án þess að greiða fyrir það leigu. Því hafi verið hafnað. Í kjölfarið hafi verið settur upp leikþáttur með aðstoð fréttamanna Stöðvar 2, visis.is, starfsmanna ASÍ, Eflingar og fleiri aðila, sem allir hafi án gagnrýni tekið þátt í leiknum. Helstu málsástæður og lagarök stefnduStefnda bendir á að Alþýðusamband Íslands sé stærstu hagsmunasamtök á Íslandi. Hlutverk þess sé að standa vörð um hagsmuni og réttindi launþega.
.
Stefnda bendir á að á þeim tíma sem ummæli stefndu voru viðhöfð hafi forstjóri Vinnumálastofnunar lýst því að fyrirtækið hafi verið í gjörgæslu og að stofnunin hafi kært málið til lögreglu. Þá hafi Vinnumálastofnun sektað stefnanda um 2,5 milljónir króna vegna rangrar upplýsingagjafar til stjórnvalda þar sem ósamræmi hafi verið milli skráðra einstaklinga hjá stofnuninni og upplýsinga til ríkisskattstjóra. Stefnda byggir á því að ummælin sem krafist er ómerkingar á séu vernduð af 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 73. gr. og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Um tilvísun stefnanda til ákvæða hegningarlaga tekur stefnda fram að gildissvið allra ákvæða hegningarlaga takmarkist við einstaklinga og nái ekki til félaga. Þess vegna skorti lagaheimild fyrir takmörkun tjáningar stefndu. Stefnda byggir á því að takmörkun á tjáningarfrelsi þurfi að vera nauðsynleg í lýðræðissamfélagi.
.
Eins og málið sé lagt upp af stefnanda, þá sé ekki nauðsynlegt að takmarka tjáninguna eins og áskilið er í 3. mgr. 73. gr. stjskr. Stefnda telur að meta skuli ummælin heildstætt. Meta skuli ummælin í fyrsta lagi í samhengi við almenna stjórnmálaumræðu um stöðu og réttindi útlendinga á Íslandi. Umræðan um málefni erlends vinnuafls hafi verið áberandi undanfarin ár, ekki síst um slæma meðferð á slíku starfsfólki. Þá hafi ummælin verið látin falla í aðdraganda kjaraviðræðna árið 2019.
.
Í öðru lagi verði að meta ummælin í samhengi við umfjöllun um stefnanda sjálfan en sú umræða hafibyrjað með fréttaskýringaþætti Kveiks í október 2018. Bendir stefnda á að stefnandi hafi kvartað bæði til fjölmiðlanefndar og siðanefndar Blaðamannafélags Íslands vegna þeirrar umfjöllunar en ekki hafi verið fallist á kröfur hans.
.
Í þriðja lagi verði að meta ummælin með hliðsjón af frétt Stöðvar 2 um málið þar sem fyrri ummælin voru látin falla. Í þeim þætti hafi aðstæður starfsmanna stefnanda verið sýndar, auk þess sem fram hafi komið að þeir hafi sýnt stefndu yfirlit úr heimabanka sínum sem hún vísi m.a.til og því sé um endursögn hennar að ræða.
.
Í fjórða lagi verði að meta ummæli með hliðsjón af starfi stefndu og hlutverks ASÍ, svo og þeirri staðreynd að ASÍ hafði fylgst með fyrirtækinu vegna kvartana sem þessara. Vegna stöðu sinnar hafi stefnda ríkar aðhalds-og eftirlitsskyldur gagnvart aðilum vinnumarkaðarins, þ. á m. starfsmannaleigum. Ekki megi hefta það hlutverk nema brýna nauðsyn beri til. Í fimmta lagi verði að meta ummælin með hliðsjón af háttsemi stefnanda sjálfs og framkomu hans í garð starfsfólks. Í því samhengi sé ástæða til að benda á að þeir aðilar sem nú standi að rekstri stefnanda hafi áður komið að stjórn starfsmannaleigunnar Verkleigunnar sem nú sé gjaldþrota. Kröfur í þrotabú þess félags hafi numið 30 mkr. Kvartanir vegna þess félags hafi verið nær vikulega á borðum stéttarfélaga eins og fram hafi komið í fjölmiðlum. Stefnda telur ummælin eiga erindi til almennings.Þau séu liður í samfélagslegri umræðu um málefni starfsmannaleiga og réttindi erlendra starfsmanna hérlendis.
.
Um mikilvægi umræðunnar er bent á að stjórnvöld hafi gert ítrekaðar athugasemdir við og haft afskipti af meðferð stefnanda á starfsmönnum sínum, slæmri aðstöðu og vangreiddum launum. Þá hafi stefnandi verið sektaður eins og áður hafi komið fram. Um tilgang ummælanna þá hafi stefnda, sem starfi hjá ASÍ, það yfirlýsta markmið að vernda starfsmenn stefnanda sem brotið hafi verið gegn með alvarlegum hætti. Sá grunur hafi verið fyrir hendi að stefnandi hafi brotið gegn réttindum starfsfólks síns. Stefnda tekur fram að ummælin byggi á ályktunum af gögnum sem feli í sér endursögn og gildisdóm.
.
Ummælin séu endursögn af frásögn starfsmanna stefnanda, sem bæði stefnda og fréttamenn voru vitni að. Stefnda bendir á að ummæli hennar hafi ekki verið úr lausu lofti gripin og gangi ekki lengra en fyrri umfjöllun um sama efni. Ályktun hennar eigi sér stoð í staðreyndum og byggi á upplifun hennar á aðstæðum og frásögn starfsmannanna og þeim gögnum sem þeirhafi sýnt henni. Um það orðalag í stefnu að ummæli hafi verið látin falla sem enginn fótur sé fyrir tekur stefnda fram að það sé alkunna vegna fréttaflutnings og afskipta Vinnueftirlitsins og launþegahreyfingarinnar að grunur leiki á lögbrotum í garð starfsfólksins.
.
Ályktanir stefndu séu þannig á engan hátt úr lausu lofti gripnar, heldur þvert á móti sé um að ræða ályktanir hennar um þau atvik og eigi allir gildisdómar og ályktanir sem stefnda tjáði sér stoð í staðreyndum. Þá feli ummælin í sér endursögn af því sem áður hafi komið fram. Byggir stefnda á því að ummælin séu ádeila, ályktun og gildisdómar sem henni og hverjum öðrum sé frjálst að viðhafa. Ummælin njóti því aukinnar verndar, en óheimilt sé að takmarka tjáningu gildisdóma. Stefndu sé frjálst af hafa skoðun á meðferð stefnanda á starfsmönnum sínum og tjá þá skoðun sína að hún sé ófullnægjandi.
.
Raunar hafi MDE kveðið á um aukna vernd gildisdóma sem teljist vera harkalegir, þegar aðstæður kalli á slíka orðræðu. Stefnda byggir á því að hún hafi ekkiverið upphafsmaður opinberrar umræðu um meðferð á starfsmönnum stefnanda. Bæði hafi fjölmiðlar áður fjallað um stefnanda og hann ýmist tjáð sig eða neitað að tjá sig þar sem tilefni hafi verið til.
.
Útvíkki það heimild til tjáningar um málefni stefnanda, enda um andsvör að ræða við umræðu og endursögn úr fjölmiðlum. Þá hafi engin knýjandi þörf verið fyrir þöggun ummælanna. Stefnda mótmælir miskabótakröfu stefnanda. Stefnandi sé einkahlutafélag. Tilgangur slíks félags sé fjárhagslegur í eðli sínu og geti stefnandi því ekki orðið fyrir ófjárhagslegu tjóni í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Verði þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu af miskabótakröfu stefnanda. Þá séu engin skilyrði til að verða við kröfu um birtingarkostnað.
8III. Samkvæmt dómaframkvæmdnjóta bæði einstaklingar og lögaðilar verndar 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Lögaðilar njóta einnig verndar samkvæmt 1. mgr. 241. gr. sömu laga, en samkvæmt ákvæðinu má dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk, ef sá krefst þess, sem misgertvar við.
8III. Samkvæmt dómaframkvæmdnjóta bæði einstaklingar og lögaðilar verndar 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Lögaðilar njóta einnig verndar samkvæmt 1. mgr. 241. gr. sömu laga, en samkvæmt ákvæðinu má dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk, ef sá krefst þess, sem misgertvar við.
.
Er því hafnað þeirri málsástæðu stefndu að ákvæðin takmarkist við einstaklinga og nái ekki til lögaðila. Ummæli þau sem krafist er ómerkingar á viðhafði stefnda í viðtali við fréttamann Stöðvar 2 hinn 7. febrúar sl. og í samtali við blaðamann DVsem birt var á fréttamiðlinum dv.is. hinn 17. febrúar 2019. Þegar ummælin voru höfð uppi hinn 7. febrúar 2019 var stefnda, ásamt starfsmönnum ASÍ. og einnig fréttamönnum Stöðvar 2 mætt í Hjallabrekku í Kópavogi þar sem rúmenskir fyrrum starfsmenn stefnanda voru mættir og lýstu bágbornum aðstæðum sínum í störfum sínum hjá Mönnum í vinnu ehf. (nú MIV ehf.). Í fréttinni lýstu mennirnir því fyrir fréttamönnum og stefndu að þeir fengju ekki laun sín greidd, lagt væri inn á bankareikninga þeirra og tekið út af reikningum þeirra. Einnig sýndu starfsmennirnir fréttamönnum og stefndu húsakynni sem þeir lýstu sem sínum en sem síðar kom í ljós að þeir bjuggu ekki í.
.
Einnig var viðstöddum og stefndu sýnt skjáskot af bankareikningum sem þeir sögðu að sýndi að laun þeirra væru lögð inn á bankareikning þeirra og tekin út jafnharðan. Í beinu framhaldi af þessu var síðan tekið viðtal við stefndu þar sem hún lýsti þeirri afstöðu sinni að starfsemi Manna í vinnu ehf. væri „nauðungarvinna og þrælahald. Þetta er mjög slæm aðstaða og ég er búin að sjá bankareikninga hjá þeim þar sem að fyrirtækið leggur inn og tekur jafn harðan út aftur. Mennirnir komast ekki neitt og þeir eru ekki á launum.“ Tíu dögum síðar, eða 17. febrúar 2019, endurtekur stefnda viðhorf sín til starfsemi Manna í vinnu ehf. í viðtali sem birt var á fréttamiðlinum dv.is með eftirfarandi orðum: „Menn í vinnu legðu inn á þá til dæmis 100.000 en síðan færi 90.000 út aftur. Ég sá þessar færslur og spurði hvernig þetta væri hægt en þá vissu þeir það ekki almenninga en að Halla Rut sem á fyrirtækið vildi alltaf fá að sjá og vita PIN númer þeirra svo það virðist sem Menn í Vinnu ehf. hafi aðgang að heimabönkum mannanna.“Þegar ummæli stefndu eru virt og metið hvort þau hafi falið í sér ærumeiðingar og aðdróttanir í garð Manna í vinnu ehf. ber að líta til þess að umræða um slæman aðbúnað og starfsskilyrði erlendra starfmanna starfsmannaleiga hér á landi hefur verið til umræðu í þjóðfélaginu. Þar á meðal var umræða um starfsemi Manna í vinnu ehf. í fjölmiðlum í október 2018.
.
Víkur fyrst að eftirfarandi ummælum sem komu fram í fréttum Stöðvar 2 hinn 7. febrúar 2019: „Að mínu mati er þetta nauðungarvinna og þrælahald. Þetta er mjög slæm aðstaða og ég er búin að sjá bankareikninga hjá þeim þar sem að fyrirtækið leggur inn ogtekur jafn harðan út aftur. Mennirnir komast ekki neitt og þeir eru ekki á launum.“Samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók Stofnunar Árna Magnússonar er með orðunum „nauðungarvinna“ átt við starf sem einhver vinnur nauðugur, oft sem refsingu, og með orðinu „þrælahald“ er átt við mikla vinnuhörku og slæma meðferð á starfsfólki. Í daglegu tali er átt við erfiðisvinnu. Í ljósi þessa telur dómurinn og með tilliti til þeirra aðstæðna sem stefnda var stödd í þegar hún lét eftirfarandi orð falla: „Að mínu mati er þetta nauðungarvinna og þrælahald. Þetta er mjög slæm aðstaða“,að í þeim felist fremur gildisdómur um almennan aðbúnað starfsmannanna en fullyrðing um staðreynd eða aðdróttun. Verður því ekki fallist á það með stefnanda að orðin feli í sér ærumeiðandi aðdróttun fyrir stefnanda.
.
Er því hafnað ómerkingu þessara ummæla á þessum grundvelli. Hið sama verður ekki sagt um síðari hluta ummæla stefndu sem fram komu í fréttinni hinn 7. febrúar 2019 sem eru svohljóðandi: „og ég er búin að sjá bankareikninga hjá þeim þar sem að fyrirtækið leggur inn og tekur jafn harðan út aftur. Mennirnir komast ekki neitt og þeir eru ekki á launum.“ Með þessum orðum er gefið til kynna að stefnandi hlunnfari starfsmenn sína um launagreiðslur, hafi aðgang að bankareikningum þeirra og að þeir fái ekki greidd laun fyrir vinnu sína hjá Mönnum í vinnu ehf. Er Mönnum í vinnu ehf. með þessum orðum borin á brýn refsiverð háttsemi. Hefur stefnda hvorki skotið stoðum undir það að þessar fullyrðingar séu réttar né að hún hafi mátt ganga út frá því að svo væri, en hún ber sönnunarbyrðina fyrir því að umræddar fullyrðingar séu réttar.
.
Verður því ekki talið að stefnda hafi verið í góðri trú um réttmæti þeirra.Eiga fyrirtæki ekki að þurfa að þola það að vera opinberlega sökuð um refsiverða háttsemi án þess að staðreynd búi þar að baki. Er fallist á það með stefnanda að í orðum þessum felist aðdróttanir um refsiverða hegðun stefnanda gagnvart starfsmönnum sínum, sbr. 235. gr. laga nr. 19/1940. Er því fallist á ómerkingu þessara ummæla, sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Víkur þá að síðari ummælum stefndu sem komu fram í viðtali hennar við blaðamann dv.is hinn 17. febrúar 2019. Staðhæfir stefnda í viðtalinu að stefnandi hafi hlunnfarið starfsmenn sína, haft aðgang að bankareikningum þeirra ogað hún hafi séð þessar færslur með eigin augum. Eru þessar fullyrðingar sama marki brenndar og fyrri fullyrðingar um ólögmætar úttektir af bankareikningum starfsmannanna.
.
Í ummælunum felst að stefnandi og starfsmaður hans, Halla Rut, hafi með ólögmætum hætti tekið fé út af bankareikningum tiltekinna starfsmanna þannig að þeir hafi ekki fengið laun sín greidd. Af hálfu stefndu fór engin rannsókn fram á réttmæti frásagnanna. Getur stefnda ekki skotið sér undan ábyrgð á orðum sínum með því að breiða út rangarsögur án þess að kanna réttmæti þeirra. Með sömu rökum og áður segir er fallist á það með stefnanda að í tilvitnuðum orðum hafi falist aðdróttun um refsiverða hegðun Manna í vinnu ehf., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga.
Einnig verður ekki talið að stefnda hafi verið í góðri trú um réttmæti ummælanna m.a. í ljósi þess að fyrirsvarsmaður Manna í vinnu ehf. sendi aðstoðarframkvæmdastjóra ASÍ upplýsingar og skýringar með tölvuskeyti 9. febrúar 2019 sem hefðu átt að gefa stefndu tilefni til þess að kanna réttmæti þeirra.Dómurinn telur ummælin vera alvarlegs eðlis og hafa verið til þess fallin að skaða hvort tveggja Menn í vinnu ehf. og fyrirsvarsmann félagsins, Höllu Rut Bjarnadóttur.
.
Með vísan til þessa er fallist á ómerkingu þessara ummæla í heild sinni,sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Ekki skiptir máli eins og atvikum er hér háttað hvort um endursögn stefndu er að ræða á því sem hinir fyrrum rúmensku starfsmenn félagsins gáfu til kynna eða hver hafi verið upphafsmaður ummælanna. Þá verður ekki fallist á það með stefndu að ummælin sem hún hafði upp um einkahlutafélagið Menn í vinnu og fyrirsvarsmann þess, Höllu Rut Bjarnadóttur, eigi erindi til almennings sem réttlæti þau. Stefnandi byggir á því að með orðum sínum hafi stefnda vegið með alvarlegum hætti að æru, virðingu og nafni félagsins, starfsmönnum og fyrirsvarsmönnum þess. Virðing stefnanda hafi borið hnekki, sem og æra þeirra sem störfuðu hjá félaginu og stjórnuðu því, og af þeim sökum eigi stefnandi rétt á miskabótum á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga.
.
Þar sem lögaðilar njóta ekki verndar samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga er kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta þegar af þeirri ástæðu hafnað. Með vísan til 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga verður stefndu gert að greiða stefnanda 75.000 krónur til að standa straum af kostnaði af opinberri birtingu niðurstöðu þessa máls. Samkvæmt framansögðu er fallist á dómkröfu stefnanda eins og nánar greinir í dómsorði. Samkvæmt úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991ber stefndu að greiða stefnanda 1.300.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til þess þáttar málsins sem laut að kröfu stefndu um málskostnaðartryggingu. Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
.
D ó m s o r ð :
Eftirtalin ummæli skulu vera dauð og ómerk: „og ég er búin að sjá bankareikninga hjá þeim þar sem að fyrirtækið leggur inn og tekur jafn harðan út aftur. Mennirnir komast ekki neitt og þeir eru ekki á launum“
og
„Menn í vinnu legðu inn á þá til dæmis 100.000 en síðanfæri 90.000 út aftur. Ég sá þessar færslur og spurði hvernig þetta væri hægt en þá vissu þeir það ekki almenninga en að Halla Rut sem á fyrirtækið vildi alltaf fá að sjá og vita PIN númer þeirra svo það virðist sem Menn í Vinnu ehf. hafi aðgang að heimabönkum mannanna.“Stefnda er sýkn af kröfu stefnanda um ómerkingu ummælanna: „Að mínu mati er þetta nauðungarvinna og þrælahald. Þetta er mjög slæm aðstaða.“
Stefndu, Maríu Lóu Friðjónsdóttur, ber að greiða stefnanda 75.000 krónur til að standa straum af kostnaði af opinberri birtingu niðurstöðu þessa máls. Stefndu ber að greiða stefnanda 1.300.000 krónur í málskostnað.
Ragnheiður Snorradóttir kvað upp dóminn.
Umræða