Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og innflytjendaráð minna á auglýsingu um umsóknir um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála. Umsóknarfrestur er til og með 15. desember nk.
- See English version: Call for applications for grants from the Development Fund for Immigrant Issues
Við val verkefna sem hljóta styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála árið 2023 verður áhersla lögð á verkefni sem efla lýðræðislega þátttöku, vinna gegn fordómum og taka á margþættri mismunun.
Hlutverk þróunarsjóðs innflytjendamála er að styðja þróunarverkefni og efla rannsóknir á sviði málefna innflytjenda með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags.
Paola Cardenas, formaður innflytjendaráðs, minnir á að úthlutunarreglunum hefur verið breytt.
„Nú geta einstaklingar sótt um styrki til verkefna. Áður var það bara til rannsókna. Þetta er nýtt og skiptir miklu máli. Ég hvet fólk til að sækja um í þróunarsjóð innflytjendamála – ekki síst innflytjendur,“ segir hún.
Óskað er eftir umsóknum um verkefni sem ná til:
- Aukinnar lýðræðislegrar þátttöku innflytjenda.
- Aðgerða gegn fordómum, haturstjáningu og ofbeldi.
- Aðgerða gegn margþættri mismunun.
Styrkir verða veittir félögum, samtökum og opinberum aðilum. Sú nýbreytni hefur sem fyrr segir verið gerð að einstaklingar geta nú sótt um styrki til verkefna, en ekki einungis til rannsókna líkt og verið hefur. Styrkir geta að hámarki numið 75% af áætluðum heildarkostnaði verkefnis. Unnt er að sækja um jafnt á íslensku sem og ensku.
Félags- og hagsmunasamtök innflytjenda eru sérstaklega hvött til þess að sækja um.
Umsókn sem berst eftir að umsóknarfrestur er liðinn verður ekki tekin til umfjöllunar.
- Sækja skal um á rafrænu formi á umsóknarvef Stjórnarráðsins.
- Hægt er að nálgast ítarlegar leiðbeiningar um notkun vefsins og hvernig finna skuli formið.
Frekari upplýsingar fást í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu í síma 545 8100 og með tölvupósti á netfangið frn@frn.is.