Matvælaráðherra hefur gefið út leyfi til veiða á langreyðum til Hvals hf. auk leyfis til veiða á hrefnu til tog- og hrefnuveiðibátsins Halldórs Sigurðssonar ÍS 14 sem er í eigu Tjaldtanga ehf. Þrjár umsóknir bárust um leyfi til hrefnuveiða og ein umsókn til veiða á langreyðum. Leyfin eru gefin út í samræmi við ákvæði laga nr. 26/1949 um hvalveiðar, að fengnum umsögnum Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar.
Leyfin eru veitt til fimm ára líkt og árin 2009, 2014 og 2019 og þannig er nokkur fyrirsjáanleiki í atvinnugreininni tryggður. Leyfin framlengjast árlega um eitt ár og heimilt er að flytja allt að 20% af veiðiheimildum hvers árs yfir á næsta ár. Fiskistofa og Matvælastofnun munu sem fyrr hafa eftirlit með veiðunum.
Stjórnun á nýtingu lifandi auðlinda sjávar á Íslandi er í föstum skorðum og skal leyfilegur heildarafli á langreyði og hrefnu fylgja veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem byggir á sjálfbærri nýtingu og varúðarnálgun. Ráðgjöfin er byggð á úttektum Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO) og mælir fyrir um að árlegar veiðar á langreyði á tímabilinu 2018-2025 nemi ekki meira en 161 dýrum á veiðisvæðinu Austur-Grænland/Vestur-Ísland og að hámarki 48 langreyðum á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar.
Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um hvalveiðar fyrir tímabilið 2018-2025 er vísað til mats á stofnþróun frá 2017 þar sem fram kom að langreyði hafi fjölgað jafnt og þétt við Ísland frá upphafi hvalatalninga árið 1987. Fjöldinn í síðustu talningu (2015) var sá mesti síðan talningar hófust. Besta leiðrétta mat fyrir allt talningasvæði Íslands og Færeyja árið 2015 var 40.788 langreyðar, þar af 33.497 á Austur Grænlands-Íslands stofnsvæðinu.
Hafrannsóknastofnun ráðleggur jafnframt að árlegar veiðar hrefnu árin 2018–2025 nemi ekki meira en 217 dýrum. Árið 2018 voru sex hrefnur veiddar við Ísland og árið 2021 var ein hrefna veidd. Engar langreyðar hafa verið veiddar á árinu 2024, árið 2022 voru 148 dýr veidd eftir þriggja ára veiðihlé og 24 dýr voru veidd árið 2023.
Með útgáfu leyfanna framfylgir matvælaráðherra lögum nr. 26. frá 1949 um hvalveiðar sem eru sett af Alþingi. Einungis eru leyfðar veiðar á langreyði og hrefnu við Ísland en aðrir hvalastofnar eru friðaðir.