Í lögum um almannatryggingar segir að Tryggingastofnun skuli skynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt þeim lögum og öðrum lögum er stofnunin starfar eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsæknenda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjenda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfa að fylgja umsókn og um framhald máls.
Álit umboðsmanns kemur í kjölfar úrskurðar Úrskurðarnefndar velferðarmála, þar sem staðfest er sú ákvörðun Tryggingastofnunar að greiða kvartanda barnalífeyri aðeins 2 ár aftur í tímann frá umsókn hennar, þrátt fyrir að Tryggingastofnun hafi mátt vera ljóst að viðkomandi var með barn á framfæri allt frá árinu 2008.
Í úrskurði nefndarinnar segir að fyrir liggi að kærandi hafi frá árinu 2007 notið milligöngu Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur með barni sínu, og þá hafi kærandi einnig fengið umönnunargreiðslur með barninu á sínum tíma. Úrskurðarnefndin féllst á það að þetta hefði átt að gefa Tryggingastofnun tilefni til að leiðbeina kæranda um rétt til greiðsliu barnalífeyris, og nauðsyn þess að sótt yrði um hann. Engin gögn liggi fyrir í málinu um að slíkt hafi verið gert.
Umboðsmaður telur að á Tryggingastofnun hvíli ríkari leiðbeiningaskylda en almennt hvílir á stjórnvöldum samkvæmt stjórnsýslulögum. Hann segir jafnframt í áliti sínu að ekki verði annað séð en að frá árinu 2008, þegar Tryggingastofnun afgreiddi umönnunar og meðlagsgreiðslur til kvartanda, hafi stofnunin átt að hafa nauðsynlegar upplýsingar um mögulegan rétt hennar til barnalífeyris og þar með tilefni til að leiðbeina henni í samræmi við þær lagaskyldur sem á stofnuninni hvíla. Umboðsmaður telur að á Tryggingastofnun hafi frá þeim tíma, hvílt skylda til að leiðbeina kvartanda um að hún gæti átt rétt til barnalífeyris.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalagsins:
Athugun umboðsmanns á þessu máli er honum tilefni til að gæta að stöðu þeirra einstaklinga sem telja að Tryggingastofnun hafi ekki gætt að „þeim ríku leiðbeiningar- og rannsóknarskyldum sem hvíla á stofnuninni samkvæmt lögum.“
Í því skyni hefur umboðsmaður beint þeim tilmælum til félags- og barnamálaráðherra að endurskoða gildandi lög þannig að þeir sem telja að skortur á leiðbeiningum af hálfu Tryggingastofnunar hafi leitt til þess að þeir urðu af bótagreiðslum lengra aftur í tímann en tvö ár, geti fengið skorið úr slíkum ágreiningi hjá stjórnvöldum og leiðréttingu.
Þuríður Harpa segir að það sé í raun ólíðandi að Tryggingastofnun skýli sér bak við þessar fyrningarreglur í tilvikum sem þessum, þar sem ljóst er að stofnunin uppfyllti ekki skýrar skyldur sínar til leiðbeiningar borgurunum.
Umboðsmaður álítur að málsmeðferð Tryggingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við lög og beinir þeim tilmælum til stofnunarinnar, að taka þann þátt í máli kvartanda, sem lítur að fyrningarfresti, til athugunar og leggja í nauðsynlegan farveg til að rétt hlut hennar til samræmis við þá afstöðu Úrskurðarnefndar velferðarmála og ráðuneytis, að tilefni hafi verið til að leiðbeina henni. – Álitið í heild sinni má lesa hér.
https://gamli.frettatiminn.is/einungis-65-ororkulifeyristhega-fa-oskertan-lifeyri/