3.8 C
Reykjavik
Laugardagur - 28. janúar 2023
Auglýsing

Nokkur orð

Auglýsingspot_img

Nýjar fréttir

Auglýsingspot_img

,,Ég vona að stjórnvöld standi að fullu við gefin loforð. Ég vona að þau axli jafnframt þá ábyrgð sem þau sannarlega bera gagnvart öryrkjum og öðrum sem hér er gert að lifa við skert kjör vegna grimmdar kerfisins.“

Sólveig Anna Jónsdóttir

Við höfum háð mikla, markvissa og einbeitta baráttu mánuðum saman. Við höfum tekið hvern slaginn á fætur öðrum. Við höfum stigið fram og sýnt samfélaginu að verka og láglaunafólk í íslensku samfélagi er stórkostlega mikilvægt í öllu efnahagslegu og félagslegu samhengi, á skilið virðingu og á heimtingu á því að hafa völd, á heimtingu á því að ávallt sé horft til hagsmuna þeirra í allri ákvarðanatöku yfirvalda. Ég vil þakka saminganefnd Eflingar, félögum okkar í samflotinu og öllu því fólki sem er tilbúið til að taka þátt í stéttabaráttu á Íslandi. Við berum höfuðið hátt og við höldum áfram að sækja fram.
Við höfum barist fyrir því atvinnurekendur viðurkenni mikilvægi vinnuaflsins. Við höfum kallað hlutina réttum nöfnum. Við höfum af heiðarleika lýst aðstæðum og kjörum verka og láglaunafólks á vinnumarkaði. Við höfum valdelft okkur sjálf og aðra. Við höfum gert okkar besta til að axla ábyrgð; ma. ábyrgðina sem er fólgin í því að reyna ávallt að segja satt og rétt frá. Við höfum með því að færa fram rök um leið og við setjum fram kröfur, knúið stjórnvöld til að færa okkur miklu ríflegri skattalækkarnir en þau höfðu í hyggju. Við höfum barist fyrir því að stjórnvöld axli pólitíska ábyrgð á því að tryggja fólki eðlileg og góð lífskjör, að stjórnvöld axli ábyrgð á því að tryggja lágmarksmannréttindi eins og þau að húsnæði sé sannarlega fyrir alla, óháð stétt og stöðu.
Þessir samningar eru vopnahlé og við höldum áfram því verkefni að byggja upp félagið. Og ég vil nota tækifærið og árétta afstöðu mína um að barátta vinnuaflsins fyrir efnahagslegu réttlæti snýst ekki síst um það að hér fái meðlimir auðstéttarinnar og stjórnmálastéttarinnar ekki að fara fram eins og þeim sýnist með algjöru skeytingarleysi gagnvart hagsmunum vinnuaflsins. Hér hafa fulltrúar launafólks setið undir linnulausum árásum á meðan að fyrirtækjaeigandi fékk að blása upp bólu sem sprakk með hörmulegum afleiðingum fyrir hið svokallaða venjulega fólk. Við, verka og láglaunafólk, berum ekki ábyrgð á að blása upp bólur. Við förum ekki fram af skeytingarleysi gagnvart hagsmunum almennings. Þvert á móti. En þrátt fyrir það erum við samt ávallt látin axla ábyrgð á öllu því sem á sér stað í efnahagslífinu. Ég set fram þá kröfu að þau sem raunverulega valda uppnámi og óstöðugleika verði látin axla ábyrgð. Ég vona að við getum sem samfélag áttað okkur á því að þessar leikreglur sem eru í gildi eru fáránlegar, ganga gegn nokkru því sem hægt er að kalla stöðugleika og leiða óumflýjanlega alltaf á endanum uppnám yfir venjulegt fólk.
Við í Eflingu vorum í samningaviðræðum fram á síðustu stundu. Á lokametrunum náðum við td. inn ákvæði um að atvinnurekendur eigi að sjá fyrir túlkun þegar miðla þarf mikilvægum upplýsingum til starfsfólks, ef að íslenskukunnátta er ekki fyrir hendi og við náðum inn bókun um aukna vernd fyrir þau sem taka þátt í stéttabaráttu með sínu félagi. Bæði þessi atriði eru mjög mikilvæg; ég hef setið á fundi sem fulltrúi Eflingar þar sem tilkynnt var um fjöldauppsögn á íslensku, þrátt fyrir mikinn fjölda starfsmanna af erlendum uppruna og engin tilraun gerð til að túlka það sem fram fór og tveir af stjórnarmeðlimum Eflingur misstu vinnuna vegna aktívrar þátttöku í starfi félagsins.
Ég vona að stjórnvöld standi að fullu við gefin loforð. Ég vona að þau axli jafnframt þá ábyrgð sem þau sannarlega bera gagnvart öryrkjum og öðrum sem hér er gert að lifa við skert kjör vegna grimmdar kerfisins. Ég vona að eldmóður okkar hvetji aðra til dáða og að sameinuð munum við komast miklu, miklu lengra í baráttunni fyrir efnahagslegu réttlæti á Íslandi.
Mér þykir leitt að við komumst ekki lengra en ég veit að við erum rétt að byrja.
Sjáumst í baráttunni.