Íbúi á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík lést í gær úr COVID-19. Þetta kemur fram í tilkynningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Facebook. Þetta er sjötta andlátið hér á landi vegna kórónuveirunnar. Á vef fréttamiðilsins BB.is kemur fram að maðurinn hét Gunnsteinn Svavar Sigurðsson og var fæddur 1938.
Á Bergi eru tveir sýktir af COVID-19 og þrír íbúar í einangrun og búið að taka sýni. Fimm íbúar eru í sóttkví án einkenna. Meirihluti fastra starfsmanna á hjúkrunarheimilinu eru í einangrun, þar af fimm með staðfest smit. Aðrir fastir starfsmenn utan þriggja eru í sóttkví og er heimilinu því sinnt nær eingöngu af fólki úr bakvarðarsveit eða öðrum deildum stofnunarinnar.
,,Meirihluti fastra starfsmanna á hjúkrunarheimilinu eru í einangrun, þar af fimm með staðfest smit. Aðrir fastir starfsmenn utan þriggja eru í sóttkví og er heimilinu því sinnt nær eingöngu af fólki úr bakvarðasveit eða öðrum deildum stofnunarinnar. Liðsafli hefur þegar borist úr bakvarðasveit og fleiri komu í hópinn með þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða vottar aðstandendum samúð. Starfmönnum og heimilisfólki óskum við skjóts bata og samfélaginu þökkum við aðstoð og velvilja. Einnig þökkum við fólki sem boðist hefur til starfa á stofnuninni sem hluti af bakvarðasveit.“