Gissur Sigurðsson fréttamaður lést af veikindum á Landspítalanum í Fossvogi í fyrrinótt. Hann sagði morgunfréttir á Bylgjunni í aldarfjórðung. Ófáir landsmenn ólust upp við fréttaflutning Gissurar, sem hann gæddi lífi með hrjúfri og hlýrri rödd, einarðri fróðleiksfýsn og yfirgripsmikilli þekkingu á íslensku samfélagi. Vísir.is greindi frá og birti minningar um Gissur heitinn á vefsíðu sinni.
Gissur fæddist 7. desember 1947 í Hraungerði í Flóa. Foreldrar hans voru Stefanía Gissurardóttir og séra Sigurður Pálsson vígslubiskup. Þau fluttu á Selfoss árið 1956 þegar Gissur var níu ára. Hann var næst yngstur af sjö systkinum.
Gissur hóf starfsferil sinn í blaðamennsku hjá Alþýðublaðinu um tvítugt. Hann varð fyrsti ritstjóri tímaritsins Sjávarfrétta og þótti flytja fréttir af sjávarútvegi af mikilli þekkingu enda hafði Gissur stundað sjómennsku á sínum yngri árum.
Í framhaldinu tók hann þátt í stofnun Dagblaðsins sem breyttist síðar í Dagblaðið Vísi og er í dag kallað DV. Ferill hans sem útvarpsmaður hófst hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins í kringum 1980 þar sem hann starfaði í 16 ár þar til hann flutti sig yfir á Bylgjuna. Hann sá um morgunfréttir Bylgjunnar við miklar vinsældir landsmanna, enda þekktur fyrir einstaka frásagnargáfu og húmor.
Hvort tveggja naut sín til fulls í Bítinu á Bylgjunni. Þar var hann daglegur gestur árum saman, óhræddur við að segja skoðanir sínar og gantast við umsjónarmennina, Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason. Segir á vefsíðunni Vísir.is sem jafnframt birtir viðtal frá árinu 2018 á síðunni