-2.2 C
Reykjavik
Sunnudagur - 26. mars 2023
Auglýsing

Kjararáð kært fyrir meintar ólöglegar launahækkanir á ofurlaun

Auglýsingspot_img
Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Jón Þór Ólafsson þingmaður og VR, hafa í sameiningu stefnt íslenska ríkinu – Kjararáði, vegna úrskurðar Kjararáðs um tuga prósenta hækkanir ofan á ofurlaun. Þingmenn og ráðherrar, fengu m.a. 45% launahækkun hjá Kjararáði

Áður höfðu aðilar skorað á Kjararáð að falla frá hækkunum sem að voru í engum takti við almenna launaþróun í landinu. Kjararáð féllst heldur ekki á að lækka þau ofurlaun sem að ráðið veitti þeim sem að undir það falla og því er neiðarúrræðið að kæra Kjararáð og reka málið fyrir dómstólum eins og kom fram í máli Jóns Þórs varðandi málið.
Hugsanlega getur málið haft fordæmisgildi gagnvart öðrum hækkunum sem að Kjararáð stóð fyrir en það mun koma í ljós síðar. En eins og kunnugt er, hefur hið umdeilda Kjararáð verið lagt niður. Formaður Kjararáðs var Jónas Þór Guðmundsson, hæstaréttarlögmaður og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn Landsvirkjunar.

Fréttatíminn hefur stefnuna undir höndum og birtir hana í heild sinni neðst í greininni.  Þetta hafði Jón Þór um málið að segja í gær og vakti hann athygli á því að aðalmeðferð í kæru á hendur Kjararáði fari fram á morgun kl. 13.30 í dómssal 302 í Héraðsdómi Reykjavíkur

,,Bara til að fara yfir stöðu málsins. Við erum komin á góðan stað með þessu frumvarpi að því leytinu til að fellt verður úr gildi þetta kjararáð sem hefur verið að taka ólöglegar ákvarðanir vil ég segja og hef kært með VR þær ákvarðanir sem kjararáð tók m.a. á kjördag 2016 þegar það hækkaði laun þingmanna, ráðherra og annarra langt, langt umfram almenna launaþróun. Nú verður þetta kjararáð ekki lengur til jafnvel þótt lögin segðu að fylgja eigi einhverjum ákveðnum viðmiðum um almenna launaþróun, það var þess vegna sem ég og verkalýðsfélagið VR kærðum það mál.

Þeir sem áhuga hafa geta komið og mætt í dómsal, það verður held ég  kl. 13.30 núna á fimmtudaginn, verður málið tekið fyrir, en þar biður ríkið eða ríkislögmaður um að fá að vísa málinu frá. Þeir vilja ekki að það mál sé tekið fyrir, sem er áhugavert, þegar borgarar eru að leita réttar síns þegar stjórnsýslustofnun tekur ákvörðun sem virðist, og benda mjög margir á það, hafa verið lögbrot.

Aðilar vinnumarkaðarins segja klárlega allir, bæði ASÍ og SA á þeim tíma, að sú ákvörðun hafi skapað verulegan usla á vinnumarkaði sem lögin segja alveg skýrt í greinargerð að megi ekki gera. Það má ekki setja kjarasamninga þorra launafólks í hættu, það má ekki einu sinni setja þá í hættu. Ekki það að það hafi síðan orðið, en það má ekki setja þá í hættu. Þannig eru lögin þegar ákvörðunin var tekin.

Eins og staðan er núna verður kjararáð fellt úr gildi. Það getur ekki tekið svona ólöglegar ákvarðanir áfram og það verður bara fest við launaþróun — að vísu vil ég fá að skoða það aðeins betur í þessu tilfelli um opinbera starfsmenn, að hvaða leyti það mun nákvæmlega þýða — en það er gott að verið er að festa þetta við almenna launaþróun þannig að ráðamenn hækki ekki í launum nema landsmenn hafi hækkað í launum. Það er meginreglan og það er mjög góð meginregla.

Annars skapast bara tortryggni. Fólk horfir upp á það eins það hefur verið að gera núna á síðasta eina og hálfa ári að ráðamenn hækka í launum og landsmenn sitja eftir. Ráðamenn hækka um tugi prósenta sem ASÍ og fleiri vöruðu við. VR og fleiri verkalýðsfélög vöruðu við og sögðu: Það verður ekki sátt á vinnumarkaði með þessu. Það er það sem við stöndum frammi fyrir núna, við stöndum frammi fyrir mjög miklu ósætti á vinnumarkaði. Sátt á vinnumarkaði þarf alltaf að grundvallast á sanngirni. Fólk upplifir það sem það hefur verið að upplifa, að ráðamenn fara langt umfram almenna launaþróun. Og þá verður ósætti.

Með frumvarpinu er samt sem áður verið að gera eitt. Á sama tíma og verið er að fella kjararáð úr gildi og segja: Þið eigið ekki að taka þessar ákvarðanir, þá er verið að færa ákvörðunartökuvaldið til ráðherra. Ég spurði 1. flutningsmann málsins, formann nefndarinnar, hv. þm. Óla Björn Kárason, um það áðan. Hann vildi meina að það væru örfá mál, en við verðum að fylgja því eftir, í nefndinni líka, og sjá hvaða mál þetta eru, hvaða raunverulegar heimildir er verið veita ráðherra til að taka ákvarðanir um laun og kjör áður en þessi festing verður, að launin hækki bara ef laun þeirra viðmiðunarstarfsmanna, sem eru að vísu opinberir eins og ég nefndi, hafa hækkað þar á undan.

Svo ég reki örlítið söguna og aðkomu mína að þessu. Strax á kjördag 2016 voru laun þingmanna hækkuð um 43%. Fyrr á árinu höfðu þau verið hækkuð um 13%. Þetta setti allt náttúrlega á hliðina. Kennarar sögðu upp í unnvörpum. Við þekkjum síðan söguna, bæði ASÍ og VR lýstu því mjög skýrt yfir að þetta væri að valda usla á vinnumarkaði.

Ég gagnrýndi þá ákvörðun strax og var með grein viku síðar þar sem ég hafði tekið stöðuna um hverjir gætu stöðvað þetta. Forsetinn hefði getað stöðvað það, en skiljanlega gerði hann það kannski ekki. Það hefði verið óhefðbundið að mörgu leyti. Kjararáð hefði getað viðurkennt mistök: Heyrðu, við tókum bara ranga ákvörðun og viðurkennum að ákvörðunin grundvallaðist ekki á almennri launaþróun, sem allir sáu að var ekki að gerast í þessu tilviki, og kjararáð ákveðið að þetta þyrfti að leiðrétta.

Ráðherra hefði líka getað sagt: Heyrðu, þið þurfið að leiðrétta þetta. Það er það sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson gerði það á sínum tíma, þeir sendu bréf. Þegar því bréfi var ekki svarað af kjararáði þá settu þeir lög. Þetta var á fyrsta starfsári þeirra beggja, hvor á sínu ári, þá voru svona miklar launahækkanir á launum þingmanna og ráðherra, sem verkalýðshreyfingin gagnrýndi harðlega, og þær ollu miklum usla á vinnumarkaði. Hvað gerðist í kjölfarið? Í kjölfarið voru sett lög, lög á þessar ákvarðanir og það þurfti að taka nýjar ákvarðanir, þá erum við ekki að tala um 43% hækkanir, það voru miklu lægri prósentutölur þar undir, vel undir 10%, þannig að þingið gæti sett þau lög.

Ef þessi atriði væru ekki, ef enginn aðili væri sem gæti gert eitthvað í málinu; forsetinn, kjararáð, ráðherra, þingið, þá myndi ég kæra. Ég lagði það fram í þinginu að það skyldi gert. Ég nefndi það í forsætisnefnd þegar kjör þingmanna voru aðeins lækkuð til að koma eitthvað á móts við þetta. Ég nefndi það, en það var ekki nóg. Verkalýðshreyfingin hefur sagt að þetta sé ekki nóg sem hefur verið gert. Við Píratar lögðum fram frumvarp um að leiðrétta skyldi launin. Þessi launahækkun skyldi felld úr gildi og önnur tekin af kjararáði sem samsvaraði því sem lögin segðu, að við eigum að fylgja almennri launaþróun. Þetta var svæft í nefnd. Það fór ekkert lengra í þinginu. Um vorið talaði ég betur við lögfræðinginn og sagði: Heyrðu, við erum komin á þennan stað.

Við fórum yfir stöðuna, unnum við málið og niðurstaðan varð sú að hann sagði að til þess að eiga sem bestan séns væri að vera talinn aðili máls — takið eftir þessu — það að vera aðili máls, það að launafólk í þessu landi horfi upp á þetta og horfi upp á uslann á vinnumarkaði, horfi upp á það að verið sé að setja stöðugleikann í hagkerfinu í hættu — maður, eða kona, úti á götu í Bretlandi sem var ekki hrifinn af Brexit gat kært þá ákvörðun. Það er ekki hægt á Íslandi af því að dómstólar á Íslandi hafa skilgreint það svo þröngt hver sé aðili máls.

Hér geturðu sagt: Ég er aðili máls. Þetta hefur áhrif á mig. Ég vil gera eitthvað í málinu. Ég vil fá að kæra þessa ákvörðun stjórnvalda og fá niðurstöðu í það mál. Það að ég væri þingmaður, við reyndum að finna leiðir að því, það var ekki alveg víst að það tækist, en að hafa verkalýðsfélag sem klárlega er í hlutverki að standa vaktina gagnvart stjórnvöldum og öðrum fyrir umboðsmenn sína, fyrir aðila í sínu verkalýðsfélagi, vinna að hagsmunum þeirra, ef verkalýðsfélag getur ekki verið aðili að slíku dómsmáli þá er enginn sem getur verið aðili að slíku dómsmáli.

Eftir kosningarnar 2017 rétt fyrir áramót, í desember, þá samþykkti VR að kæra með mér kjararáð sem og við gerðum í desember. En það að taka málið fyrir hefur frestast töluvert. En núna gerist það eftir tvo daga. Þá fáum við að sjá hvort ríkið verði af sínum kröfum um að fá að vísa málinu frá. Ef ekki, og dómstólar komast að raun um að ákvörðunin hafi verið ólögleg, þá verður hún bara felld úr gildi, og þá þarf að taka aðra ákvörðun sem samræmist því að ráðamenn fari ekki upp fyrir það sem almenna launaþróunin er, að þeir þurfi að fylgja í kjölfarið þannig að lækkun verði launum ráðamanna.

Þá hef ég líka áhuga á að sjá hvernig þessi lög hérna myndu hafa áhrif á það, af því að það sem þetta frumvarp gerir er bara að festa í sessi þá ákvörðun sem kjararáð tók á sínum tíma, ákvörðun sem heildarsamtök á vinnumarkaði launafólks eða atvinnurekenda voru sammála um að væri ekki lögum samkvæmt og væri að valda usla, og væri ekki heimil.

Þetta er staðan. Þetta er yfirferðin. Það verður spennandi að sjá hvað gerist á fimmtudag. Þetta er í sal, held ég, 302 í Héraðsdómi Reykjavíkur, klukkan 13.30. Þá munum við sjá hvernig málið þróast.“

Stefna á hendur íslenska ríkinu vegna Kjararáðs
https://frettatiminn.is/2018/06/03/kjararad-lagt-nidur/
https://frettatiminn.is/2018/04/12/thingmenn-fa-45-haekkun-vinstri-stjornin-lysir-yfir-omoguleika-launahaekkun-ljosmaedra/