Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi í úttekt á Lindarhvoli, vill að ríkissaksóknari taki málefni félagsins til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir birti í dag greinargerð hans sem lengi hefur verið kallað eftir.
Einhver umtalaðasta greinargerð síðari ára sem mikil leynd hefur hvílt yfir og ekki fengist birt, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir sumra alþingismanna, birtist á vef Pírata í dag. Ríkisútvarpið fjallaði ítarlega um málið og þar kemur fram að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, birti greinargerð Sigurðar Þórðarsonar um Lindarhvol. Hún segist hafa fengið hana í hendur og telji almannahagsmuni krefjast þess að greinargerðin líti dagsins ljós. Því hafi Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, einn staðið gegn í forsætisnefnd Alþingis.
„Það kemur mér á óvart að málið sé birt með þessum hætti,“ segir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. „Þannig hefur verið að nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa haft aðgang að greinargerð Sigurðar Þórðarsonar frá 2018 í allmörg ár en verið bundin, í sambandi við það, trúnaði í samræmi við reglur þingsins.“ Sagði Birgir í viðtali við rúv.is.