Á vefnum ögmundur.is er fjallað um grein sem að birtist í Fréttablaðinu á dögunum um skýringar ónefnds prófessors og er greinin harðlega gagnrýnd þar. M.a. er sagt að um sé að ræða „Steypuprófessor“ og „barnalega einfeldni“ um grein höfundar sem á að fjalla um þriðja orkupakkann. En svona er fjallað um greinina:
.
Kári skrifar: ÞUNN OG SJÓBLÖNDUÐ STEYPA PRÓFESSORS – ÞRIÐJI ORKUPAKKINN
Í Fréttablaðinu þann 31. júlí er grein eftir mann sem titlaður er prófessor [hér eftir nefndur „Steypuprófessor“] við Háskólann í Reykjavík. Greinin nefnist „Sæstrengjasteypa“.
Greinin lýsir einfeldni og oftrú höfundar á lagareglum alþjóðaréttar. Mætti kalla þetta „barnalega einfeldni“. Það er við lestur svona greina sem stundum læðist að manni að brotalöm kunni að vera í lagakennslu á Íslandi. Skal enn og aftur áréttað að greina þarf skýrlega í sundur hvernig annars vegar hlutir eru tilgreindir og skilgreindir, í hinum ýmsu lagatextum, og svo hvernig þeir virka í raun. Þar er oft mikið ósamræmi á milli. Eitt er sýnd annað er reynd.
Greina þarf á milli þess sem kalla má „jákvæða skyldu“ og hins sem kalla má „neikvæða skyldu“. Sú fyrrnefnda felur sér skyldu til að aðhafast, skyldu til þess að framkvæma eitthvað. Neikvæð skylda merkir hins vegar að ekki megi hindra að aðrir geri eitthvað.
Hvað snertir lagningu sæstrengs (og lengi hefur verið í undirbúningi hjá Landsvirkjun) og þátt íslenska ríkisins má ljóst vera að það er einkum „neikvæð skylda“ sem þar kemur til álita. Allt regluverkið sem orkupakki 3 felur í sér (og enn er hert á í hinum fjórða) byggir á „einkaframtaki“ ef svo má segja.
Byggir á opnun og samtengingu raforkumarkaða heimaríkja yfir í sameiginlegan innri orkumarkað Evrópu. Það hefur hins vegar ekkert með samræmingu á „mál og vog“ að gera, eins og sumir virðast halda, heldur einfaldlega vaxandi orkuskort í Evrópu!
Réttarheimildir Evrópuréttar
Áður en lengra er haldið er rétt að skýra aðeins hverjar réttarheimildir Evrópuréttar eru og hvernig þær raðast (hierarchy) eftir vægi. Réttarheimildunum er skipt í frumlöggjöf (primary legislation) og afleidda löggjöf (secondary legislation). Sáttmálarnir falla undir frumlöggjöf.
- Sáttmáli Evrópusambandsins (TEU), sáttmáli um virkni sambandsins (TFEU), ásamt 37 bókunum, tveimur viðaukum og 65 yfirlýsingum sem fylgja sáttmálunum til nánari útskýringa.
- Sáttmáli Evrópusambandsins um grundvallarréttindi (mannréttindi).
- Euratom-sáttmálinn um kjarnorkusamstarf.
- Alþjóðasamningar.
- Almennar meginreglur Evrópuréttar. Reglur sem Evrópudómstóllinn beitir sem og dómstólar aðildarríkjanna og tilheyra hinu evrópska lagakerfi.
- Afleidd löggjöf (secondary legislation). Þar er átt við reglugerðir, tilskipanir og ákvarðanir(decisions). Um þetta atriði vísast til 288. gr. TFEU.[i]
Sæstrengur og þriðji orkupakkinn
En þá aftur að nefndri blaðagrein. „Steypuprófessorinn“ fer mikinn og byrjar á því að fullyrða að það sé hin mesta firra að samningsbrotamál kunni að verða höfðað gegn íslenska ríkinu, vegna mála sem snerta sæstreng og vísar þar til alþjóðasamninga. Þarna fer „steypuprófessorinn“ talsvert fram úr sjálfum sér. Hvers vegna? Skoðum það betur. Byrjum á því að skoða vel það sem „steypuprófessorinn“ fullyrðir undir fyrirsögninni „Ekkert í orkupakkanum“. Fyrst er þá auðvitað að nefna að ef ekkert er í pakkanum til hvers í veröldinni ættu menn þá að innleiða í íslenskan rétt jafn innihaldslausan pakka og hér um ræðir? Það út af fyrir sig er alveg fráleitt.
Þarna er fyrst fullyrt að þriðji orkupakkinn fjalli ekkert um skyldu EES-ríkjanna að koma á eða leyfa samtengingu milli ríkja. Þetta er mjög mikil einföldun á staðreyndum og bakgrunni málsins.
Fyrsta spurningin er þessi: um hvað snýst innri orkumarkaður Evrópu? Svar: hann snýst um samtengingu aðildarríkja (ESB/EES) þannig að úr verði sameiginlegur innri orkumarkaður Evrópu.
Næsta spurning: hvernig ná menn því markmiði [og markmið í Evrópurétti hafa gríðarlegt vægi] í tilviki Íslands? Svar: með því að tengja raforkuframleiðslu Íslands við innri orkumarkað Evrópu. Hvernig gera menn það? Svar: með sæstreng, einum eða fleirum. Ekki senda menn 800.000 volta spennu um himingeiminn, þótt einhverjir virðist að halda að það sé framtíðin. Það má fullyrða að langt sé í að það verði hægt. Að senda útvarpsbylgjur eða háspennu er ekki sami hlutur. Þá liggur það fyrir. Leiðin að innri orkumarkaði Evrópu liggur um sæstreng til Bretlands (Skotlands) eða til meginlands Evrópu.
„Steypuprófessorinn“ fullyrðir að þriðji orkupakkinn fjalli ekkert um sæstrengi. Er það ekki býsna langsótt fullyrðing? Hver er t.d. aðferð Norðmanna til að selja rafmagn til annara Evrópuríkja? Er það ekki um sæstrengi? [Eða flytja þeir e.t.v. rafmagnið með skipum?] Kemur það orkupakka 3 ekkert við?
Ef menn standa í þeirri trú, er þá ekki líka ljóst að það þarf ekkert á honum að halda? Ef menn á annað borð telja að lagning sæstrengja sé jafn fýsileg án þriðja orkupakkans og eftir innleiðingu hans er hann þá ekki algerlega óþarfur? Enda verið sýnt fram á að hann felur ekki í sér aukna neytendavernd og reglur sem gagnast almenningi. Af og frá. En stórhækkað raforkuverð hins vegar. Það liggur fyrir og hægt er að sýna og sanna með einföldum verðsamanburði við önnur Evrópuríki.
„Steypuprófessorinn“ virðist í barnaskap sínum telja að innleiðing þriðja orkupakkans hafi engin áhrif á stöðu Íslands gagnvart lagningu sæstrengs. Sumir óvandaðir fjölmiðlar taka síðan undir það, enda þótt ljóst sé að þeir hafi ekki rannsakað málið sjálfir ofan í kjölinn. Það sem liggur fyrir er þetta:
1) sæstrengur er nauðsynleg forsenda þess að Ísland verði hluti af sameiginlegum innri orkumarkaði Evrópu;
2) eftir innleiðingu orkupakka 3 er framhaldið einungis á valdi íslenskra stjórnvalda að nafninu til (og núverandi fyrirvarar halda ekki). Allt regluverkið mun auðvitað þrýsta á lagningu sæstrengs (cross-border) með öllu sem því fylgir. Þegar aðili (aðilar) lýsir sig reiðubúinn til þess að ráðast í lagningu sæstrengs, og þannig innlima Ísland í sameiginlegan orkumarkað Evrópu, virkjast auðvitað „neikvæða skyldan“ og hér var áður rædd, um að standa ekki í vegi fyrir öðrum [og markmiðum hins sameiginlega innri orkumarkaðs!]. Í því sambandi má nefna að árið 2015 kom út skýrsla á vegum ESB sem nefnist; HVDS Submarine Power Cables in the World. Þar segir m.a. að Ísland framleiði miklu meiri orku en þurfi fyrir þessa 317.000 íbúa landsins og greinilegt að gengið er út frá lagningu sæstrengs til Íslands (Ice-Link). Í skýrslunni er vísað til viðræðna á milli ríkisstjórna Bretlands og Íslands og viljayfirlýsingar frá 2012(memorandum of understanding) um lagningu sæstrengs [sem aftur styrkir þá ályktun að þetta sé einmitt stefna VG].
Í reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 714/2009, um raforku yfir landamæri kemur skýrt fram í inngangskafla hver markmiðin eru. Inngangurinn gengur að miklu leyti út á það að skýra nauðsyn þess að koma á samtengingum milli aðildarríkjanna. Í a- og b-lið 1. gr. reglugerðarinnar koma markmiðin fram. Samandregin eru þau eftirfarandi; flutningur á raforku yfir landamæri, samkeppni á þeim sama markaði, að auðvelda heildsölumarkað og samræma reglur þar að lútandi.
Felur þetta í sér skyldu Íslands til þess að leggja sæstreng? Svar: þetta endurspeglar markmið innri orkumarkaðar Evrópu. Stutt svarið er já, þetta felur í sér neikvæða skyldu ríkis til þess að greiða fyrir lagningu sæstrengs, að minnsta kosti til þess að leggjast ekki gegn slíkri framkvæmd, eftir innleiðingu þriðja orkupakkans. Geta einkaaðilar byggt rétt á grundvelli væntinga sem aftur byggja á markmiðum ESB? Já, þeir geta það. Geta haft réttmætar væntingar (Legitimate expectation) í krafti markmiðanna.
Áhrif alþjóðasamninga innan Evrópuréttar
Kemur lagning sæstrengs Vínarsamningnum og hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna[ii][UNCLOS] við, eins og „steypuprófessorinn“ heldur fram? Svarið krefst nokkura útskýringa. Vínarsamningurinn[iii] frá 1969 fjallar um túlkun alþjóðasamninga [treaties between States].
Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna fjallar um fjölmargt sem tengist umferð og nýtingu hafsins. Má nefna frjálsa för (innocent passage), nýtingu fiskistofna, lagningu sæstrengja og fjölmargt fleira. Nú er það svo að alþjóðaréttur (s.s. hafréttarsáttmálinn) er ein af réttarheimildum Evrópuréttar [og Evrópuréttur hluti af alþjóðarétti ef út í það er farið]. En það segir ekki nema stutta sögu.
Að nafninu til er það rétt hjá greinarhöfundi að hafréttarsáttmálinn „ trónir á toppnum í alþjóðakerfinu“. Það hefur hins vegar sáralítið vægi í þessu tilliti. Hvers vegna? Á því eru nokkrar skýringar. Fyrst má telja stöðu alþjóðaréttar annars vegar og hins vegar stöðu Evrópuréttar og sá síðari þá skoðaður sem sjálfstætt réttarkerfi en ekki hluti alþjóðaréttar. Um hvað snýst málið? Það snýst um það að samningar og sáttmálar í alþjóðakerfinu (utan ESB) eru oft frekar veikburða þegar t.d. kemur að eftirfylgni og þvingunarúrræðum. Eru sem sagt meira í orði en á borði. Það er jú rétt að hafi ríki staðfest og lögfest alþjóðlegan sáttmála er það sama ríki „bundið“ af honum. Það er rétt svo langt sem það nær! Þar með er ekki sagt að Evrópudómstóllinn, og aðrar stofnanir ESB, telji sig bundnar af ákvæðum alþjóðaréttar. Má í þessu sambandi rifja upp afstöðu bandarískra yfirvalda til hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.[iv]
Kemur þá að öðru mikilvægu atriði. Það snýst um afstöðuna innan réttarkerfis ESB til réttarheimilda á borð við hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Spurningin er þá þessi: hversu mikið vægi hefur hafréttarsáttmálinn sem réttarheimild innan Evrópuréttar? Enn og aftur, hann hefur vægi að nafninu til, eins og alþjóðaréttur almennt, en oft mjög lítið þegar til kastanna kemur (í raun). Þess má og geta að hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna heyrir undir hafréttardómstólinn í Hamborg (Tribunal international du droit de la mer[v]). Um lögsögu dómstólsins má lesa á heimasíðu hans. Hvað merkir þetta? Þetta merkir að Evrópudómstóllinn fer að mestu leyti sínar „eigin leiðir“ þegar kemur að mati á réttarheimildum og vægi þeirra.
Ákvæði hafréttarsáttmálans munu því ekki „trufla“ Evrópudómstólinn neitt telji hann markmiðum innan ESB vera ógnað! Þá vaknar aftur spurning, hvort vegur þá þyngra á metum, ákvæði hafréttarsáttmálans eða markmið ESB, sáttmálar ESB og afleidd löggjöf (tilskipanir, reglugerðir)? Svar: Að sjálfsögðu lagaverkið innan ESB. Hvernig á að rökstyðja það? Svar: það er best gert með því að rýna dóma og lagaframkvæmd dómstóla ESB sem og lesa greinar erlendra fræðimanna þar um.
Evrópska kerfið hefur margskonar þvingunarúrræði til þess að ná fram sínum markmiðum sem alþjóðakerfið hefur almennt ekki. Þar má nefna viðurlög við samkeppnisbrotum, dóma Evrópudómstólsins vegna brota á reglum innri markaðar Evrópu og fjöldamörg atriði sem of langt mál er að telja nú.
Skoðum þetta aðeins betur. Um þessi málefni hefur m.a. ritað Dr. Katja Ziegler,[vi] Sir Robert Jennings Professor í alþjóðarétti við háskólann í Leicester í Englandi. Í grein sinni frá 2013, og ber titilinn; „The Relationship between EU law and International Law“ fjallar Dr. Ziegler um tengsl alþjóðaréttar og Evrópuréttar. Spurningin snýst þá að miklu leyti um það hvaða stöðu alþjóðaréttur hefur innan Evrópuréttarins. Ziegler tiltekur t.d. málið T-315/01 Kadi v Council and Commission [2005] þar sem reyndi á stöðu stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna [UN Charter] innan Evrópuréttar.
Undirrétturinn [the Court of First Instance, síðar the General Court] taldi ESB bundið af stofnsáttmálanum, ekki í krafti alþjóðaréttarins, heldur í krafti Evrópuréttar. En málið fór fyrir Evrópudómstóllinn (ECJ, síðar CJ) og hann fylgdi ekki því sjónarmiði. Ziegler bendir réttilega á að það vekji upp spurningar um það hversu bundið Evrópudómstóllinn telur ESB vera af stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Þá bendir hún á dæmi þar sem Evrópudómstóllinn hefur ekki veitt alþjóðlegum sáttmálum bein réttaráhrif (direct effect). Um stöðu alþjóðaréttar innan Evrópuréttar segir Dr. Ziegler: „…af framangreindum dómafordæmum leiðir að þegar alþjóðaréttur hefur fengið bein réttaráhrif innan lagakerfis Evrópuréttarins, þá skipar hann hærri sess en afleidd löggjöf ESB [reglugerðir, tilskipanir]….en skipar almennt ekki hærri sess en frumlöggjöf [primary law]. ESB…„[vii]
Um stöðu alþjóðadómstólsins (Cour Internatioinale de justice[viii] – ICJ) innan Evrópuréttarhefur einnig ritað Dr. Jed Odermatt við lagadeild City Law School – University of London. Í grein á þessu ári (2019) og ber heitið; The International Court of Justice and the Court of Justice of the European Union: Between Fragmentation and Universality of International Law, rekur Dr. Odermatt á mjög greinargóðan hátt hvernig samspili tveggja dómstóla er háttað, þ.e. Evrópudómstólsins og alþjóðadómstólsins.
Þannig er ljóst, að það er röng ályktun, eins og þegar hefur verið sýnt fram á, að túlkunarreglur alþjóðaréttar muni ráða. Evrópudómstóllinn fer í vaxandi mæli „eigin leiðir“. Staða hafréttarsáttmálans skiptir því sáralitlu máli í þessu sambandi en hann er hins vegar nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar.
Um Vínarsamninginn segir Dr. Odermatt m.a. „…Evrópudómstóllinn hefur beitt reglum Vínarsamningsins [VCLT] til þess að túlka alþjóðasamninga, en beitir þeim ekki þegar hann túlkar Evrópusáttmálana sjálfa.“[ix] Þetta segir í raun allt sem segja þarf um það hverning Evrópudómstóllinn beitir reglum Vínarsamningsins við túlkun Evrópusáttmálanna – hann einfaldlega beitir þeim ekki!
Þar með kolfellur sá hluti greinar höfundarins (steypuprófessorsins við HR) undir fyrirsögninni „túlkunareglur þjóðaréttar“. Rétt að nafninu til, enn raunin er allt önnur. Evrópudómstóllinn hefur vísað til mála og reglna alþjóðaréttar en telur sig þó ekki bundinn af þeim. Sömu reglur munu því vart koma til álita ef/þegar deilumál rísa vegna sæstrengs og atriða sem honum tengjast. En ákvæði EES-samningsins ber að túlka í samræmi við sáttmála ESB eins og kveðið er á um í 6. gr. EES-samningsins.
„Sæstrengsskyldan“ er „neikvæð skylda“
„Steypuprófessorinn“ og hér hefur verið vitnað til, fullyrðir undir lok greinar sinnar að engin „sæstrengjaskylda“ sé til staðar. Þetta er bæði villandi og rangt. Í upphafi þessarar greinar er skýrður greinarmunur á „jákvæðri skyldu“ og „neikvæðri skyldu“. „Steypuprófessorinn“ segir: „Af túlkunarreglum þjóðaréttar leiðir að skýra verður ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði vöru til samræmis við ákvæði hafréttarsamningsins.“ Í fræðigreinum sumum er þetta svona já, þ.e. að nafninu til. Raunin er allt önnur. Í lagakerfi ESB hefur þessi túlkun lítið, raunverulegt vægi.
Niðurstaðan verður sú að komi fram aðilar, einn eða fleiri, sem vilja kosta og leggja sæstreng (aflstreng) verður íslenska ríkið í afar veikri stöðu til þess að leggjast gegn slíkum áformum, eftir innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt.
Héraðsdómarinn, Arnar Þór Jónsson, skilur vel hvernig evrópska réttarkerfið virkar og samspil þess við hið alþjóðlega kerfi. Í Staksteinum Morgunblaðsins, í dag, 1. ágúst er vikið að skrifum Arnars. Greining hans á tengslum Evrópuréttar og alþjóðaréttar er í fullu samræmi við skrif margra erlendra fræðimanna á þessu sviði. Evrópurétturinn er einmitt af flestum fræðimönnum túlkaður sem sérstakt réttarkerfi („sui generis“) eins og útskýrt er á eftirminnilegan hátt í máli 6/64 Costa gegn ENEL.
Þegar sjónum er beint að lögsögu (jurisdiction) Evrópuréttar og efnahagslögsögu (EEZ) aðildarríkja ESB kemur ýmislegt athyglisvert í ljós. Rannsóknir sem gerðar hafa verið benda sterklega til þess að Evrópurétti verði beitt innan efnahagslögsögu ríkja, svo lengi sem aðildarríki [ESB] hefur lögsögu. Enda þótt Evrópusambandið hafi ekki sjálfstæða lögsögu, óháð aðildarríkjum sínum, þá kunna reglugerðir ESB, sem hafa bein réttaráhrif, einnig að hafa réttaráhrif innan efnahagslögsögu.[x]
Mynd 1[xi]
Áætlað er að sæstrengur til Bretlands geti veitt um 5 teravattstundir á ári, á lægra verði en býðst með vindorku á hafi, og þjónað um 2 milljónum breskra heimila. Í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB, og hér er vitnað í, kemur og fram að menn hafa viðrað hugmyndir um samtengingu Norður-Ameríku og Evrópu – að samtengja raforkukerfi tveggja heimsálfa.[xii] Skyldu einhverjir stjórnmálamenn enn reyna að halda því fram að engin áform séu um lagningu sæstrengs[xiii] til Ísland? Slíkum afneiturum hlýtur að fara ört fækkandi. Er Íslandi e.t.v. ætlað að verða „tengipunktur“ á milli Ameríku og Evrópu í framtíðinni?
Eins og sést á mynd 1 er IceLink á áætlun árið 2022 og er kostnaður metinn tæpir 5 milljarðar evra [kr. 6.53×1011]. Það sýnist nokkuð ljóst, að lagning sæstrengs er draumaverkefni Landsvirkjunar, fjárglæframanna á Íslandi (í samvinnu við erlenda fjárglæframenn) og íslenskra stjórnmálamanna mjög margra! Þarna sjá sumir „olíuævintýri“ í hillingum.
[Prófessorssteypa]
Húsið byggja á hálfan grunn,
hann er sundur genginn.
Stöðnuð fræðin, steypan þunn,
styrkurinn því enginn.
Spurningin um „skylduna“ til þess að leggja sæstreng snýst í raun og veru um það hvort ríki, sem gerist aðili að sameiginlegum orkumarkaði Evrópu, hyggst taka þátt í samstarfinu. Það er eitthvað verulega mikið bogið við það að hægt sé að samþykkja aðildina, að innri raforkumarkaðnum, en á sama tíma reyna að telja fólki trú um að það sé „allt í plati“ og skipti engu máli.
Eftir samþykkt þriðja orkupakkans [sem vonandi verður aldrei] munu einkaaðilar koma fram og kynna lagningu sæstrengs. Það er á þeim punkti sem áðurnefnd „neikvæð skylda“ íslenska ríkisins virkjast. Verandi búið að innleiða pakkann mun ríkinu ekki líðast að standa í vegi fyrir „einkaframtakinu“ og markaðslögmálunum sem þriðji orkupakkinn snýst um. Málið snýst ekki um það að „jákvæð skylda“ verði lögð á íslenska ríkið að leggja strenginn.
Enda hefur umræðan innan t.d. Landsvirkjunar ekki snúist um það. Þvert á móti hefur Landsvirkjun ekki gert ráð fyrir því að hún kostaði og stæði að lagningu sæstrengs, heldur „einkaaðilar“.
Að lokum skulum við kanna hvernig möguleg skaðabótaskylda íslenska ríkisins gæti stofnast. Eftir að íslenska ríkið hefur samþykkt nefndan orkupakka er þar með ljóst að það jafngildir lagalegum skuldbindingum á innihaldi pakkans, af hálfu ríkisins. Markmið pakkans þarf ævinlega að hafa í forgrunni – samtenging ríkja innri orkumarkaðar Evrópu (cross-border). Einkaaðili, einn eða fleiri, sem hyggst flytja rafmagn, til Bretlands eða meginlands Evrópu, í krafti regluverks pakkans kann að hafa lagt í fjárfestingar vegna þess. Jafnvel varið háum fjárhæðum til undirbúnings.
Viðkomandi aðili gengur út frá því að þar sem Alþingi hafi samþykkt orkupakkann, þá jafngildi það vilja til þess að tengjast sameiginlegum orkumarkaði Evrópu. Um líkt leyti koma fram aðilar sem lýsa sig reiðubúna til þess að leggja sæstreng.[xiv]
Einkaaðilinn hefur því réttmætar væntingar [legitimate expectation] um raforkusölu í krafti pakkans, enda hafi verið um það rætt, áratugum saman, t.d. innan Landsvirkjunar, að leggja sæstreng og nú sé rétta tækifærið komið með innleiðingu þriðja orkupakkans. Ef íslenska ríkið ætlar á þeim tímapunkti að hindra, eða koma í veg fyrir tengingu, og þar með sölu á rafmagni inn á sameiginlegan orkumarkað Evrópu, er mjög sennilegt að viðkomandi einkaaðili láti reyna á réttarstöðu sína fyrir dómstólum. Þar hefur hann mjög sterkt bakland sem er einmitt þriðji orkupakkinn!
Mun þá duga skammt fyrir lögmenn íslenska ríkisins að byggja málsvörn á því að ætlunin hafi aldrei verið að standa neitt við markmið þriðja orkupakkans, enda hafi málið allt frá byrjun verið í plati! Enginn dómstóll mun taka mark á slíkum lagarökum.
Er þá enn ótalinn þáttur þeirra sem koma að lagningu sjálfs sæstrengsins. Þeir kunna og að hafa réttmætar væntingar, eftir innleiðingu pakkans, um „fullt athafnafrelsi“ þar að lútandi. Enda augljóst að það er mikil þversögn í því fólgin að samþykkja pakkann en ætla sér síðan að standa í vegi fyrir því að markmið hans nái fram að ganga! Í því sýnist engin vitglóra. Líklegt er að íslenska ríkið muni tapa öllum dómsmálum sem af því kunna að rísa.
[i] Sources and scope of European Union law. http://www.europarl.europa.eu/factsheets/en/sheet/6/sources-and-scope-of-european-union-law
[ii] Gr. 21, 58, 71, 79, 87, 112-115 og 297(1)(a) í hafréttarsáttmálanum fjalla um sæstrengi.
[iii] http://legal.un.org/ilc/texts/instruments/english/conventions/1_1_1969.pdf
[iv] Sjá t.d.: https://thediplomat.com/2017/05/u-s-ratification-of-the-law-of-the-sea-convention/
[v] https://www.itlos.org/jurisdiction/
[vi] https://www2.le.ac.uk/departments/law/people/katja-ziegler
[vii] Ziegler, Katja S., The Relationship between EU Law and International Law (December 30, 2013). University of Leicester School of Law Research Paper No. 13-17. Available at SSRN: https://ssrn.com/abstract=2373296 or http://dx.doi.org/10.2139/ssrn.2373296
[viii] https://www.icj-cij.org/fr
[ix] Odermatt, Jed, The International Court of Justice and the Court of Justice of the European Union: Between Fragmentation and Universality of International Law (April 10, 2019). Forthcoming in Achilles Skordas (ed), Research Handbook on the International Court of Justice, Edward Elgar; iCourts Working Paper Series No. 158. Available at SSRN: https://ssrn.com/abstract=3369613 or http://dx.doi.org/10.2139/ssrn.3369613
[x] Sunila, K., et al. (2019). A supra-national TSO to enhance offshore wind power development in the Baltic Sea? A legal and regulatory analysis. [online] ScienceDirect. Available at: https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0301421519300485 [Accessed 2 Aug. 2019].
[xi] Ardelean, M. and Minnebo, P. (2019). HVDC Submarine Power Cables in the World. [online] Publications.jrc.ec.europa.eu. Available at: http://publications.jrc.ec.europa.eu/repository/bitstream/JRC97720/ld-na-27527-en-n.pdf [Accessed 2 Aug. 2019].
[xii] Ibid.
[xiii] Sjá einnig: Red Eléctrica de España (2019). Spain-France electricity interconnection across the Bay of Biscay. [online] Available at: https://www.ree.es/sites/default/files/page/2017/10/file/Folleto_Inelfe_INGL_13oct_0.pdf [Accessed 2 Aug. 2019].
[xiv] Sjá enn fremur: Dedecca, J.G., et al. (2019, June). The integrated offshore grid in Europe: Exploring challenges for regional energy governance. Retrieved from https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S2214629618304675