Bólusettir farþegar með tengsl við Ísland þurfa frá og með 16. ágúst að fara í sýnatöku innan 48 klukkustunda frá komu til landsins. Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Einstaklingar með tengsl við Ísland teljast:
- Íslenskir ríkisborgarar
- Einstaklingar búsettir á Íslandi
- Einstaklingar með atvinnuleyfi á Íslandi
- Umsækjendur um atvinnuleyfi eða alþjóðlega vernd á Íslandi
Umræddir farþegar munu ekki þurfa að sæta sóttkví þar til niðurstaða úr sýnatöku liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að fólk fari annað hvort í hraðpróf (antigen) eða PCR-próf, en nánara fyrirkomulag verður unnið í samráði við sóttvarnalækni. Þá verður hægt að fara í sýnatöku annað hvort á landamærum eða á sýnatökustöð innan tímamarkanna og verður sýnatakan gjaldfrjáls. Heimilt verður að sekta þá einstaklinga sem ekki fara í sýnatöku innan tiltekins tíma.
Samkvæmt upplýsingum frá embætti sóttvarnalæknis hafa um 90% þeirra einstaklinga sem greinst hafa með COVID-19 frá 1. júlí íslenska kennitölu. Mikilvægt er að tryggja varnir gegn nýjum afbrigðum veirunnar og því er þessi ákvörðun tekin. Áfram verður gerð krafa um framvísun neikvæðs COVID-prófs á landamærum en tvöföld sýnataka með nokkurra daga millibili hefur reynst vel í faraldrinum.
Unnið verður að nánari útfærslu framkvæmdarinnar næstu daga og m.a. verður óskað eftir mati sóttvarnalæknis á þeim hópi sem aðgerðirnar ættu að takmarkast við.