Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, staðfesti í dag í ríkisráði þingsályktun um þriðja orkupakkann. Undanfarið hefur verið skorað á forsetann að skrifa ekki undir tilskipunina sem var samþykkt á Alþingi á mánudaginn. Guðni segist jafnframt í yfirlýsingu sinni hafa staðfest tvenn lög sem tengjast þriðja orkupakkanum. Þau lagafrumvörp voru jafnframt samþykkt á Alþingi á mánudaginn.
,,Ég hef í dag undirritað og staðfest tvenn lög, lög um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum (flutningskerfi raforku), og lög um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun (EES-reglur, viðurlagaákvæði). Alþingi samþykkti þessi lög hinn 2. september 2019. Lög þessi endurstaðfesti ég auk þess á fundi í ríkisráði síðdegis.
Frumvörp til þessara laga voru lögð fram á Alþingi 1. apríl síðastliðinn, fyrir rúmum fimm mánuðum. Umræður um efni þeirra og skyld málefni höfðu varað mánuðum saman fyrir það, ef ekki lengur.
Í 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins hefur frá upphafi verið kveðið á um þann rétt forseta að synja lögum staðfestingar þannig að þau öðlist gildi en verði lögð í dóm kjósenda til samþykktar eða synjunar. Frá lokum síðustu aldar hefur
allmörgum sinnum verið skorað á forseta að beita þessum rétti, með og án tilætlaðs árangurs eins og dæmin sanna.
Í byrjun ágúst, fyrir mánuði, var birt áskorun til forseta á vefnum Synjun.is og hófst um leið söfnun undirskrifta. Tekið var fram að hægt væri að „að skrá sig sjálfan, fjölskyldumeðlimi og vinnufélaga“. Áskorunin var svohljóðandi:
„Við undirrituð skorum á þig forseta lýðveldisins Íslands Hr. Guðna Th. Jóhannesson að beita málskotsrétti þínum til þjóðarinnar skv. 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og synja staðfestingar á hverjum þeim lögum samþykktum af Alþingi Íslendinga sem fela í sér afsal á yfirráðum Íslendinga yfir náttúruauðlindum okkar, svo sem orku vatnsaflsvirkjana og jarðhitasvæða, drykkjarvatni og heitu vatni, og afsal á stjórn innviða tengdum þeim til erlendra
aðila, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, ríki eða ríkjasambönd, og vísa þannig lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Í gær, hinn 5. september, tók ég á móti lista með nöfnum þeirra sem höfðu á rafrænan hátt lýst yfir fylgi við þessa áskorun, samtals 7.643 nöfn. Það eru rúm
þrjú af hundraði kjósenda. Ég þakka þeim sem lýstu þannig afstöðu sinni í mikilvægu álitamáli.
Hinn 2. september síðastliðinn samþykkti Alþingi einnig þingsályktunartillögu sem heimilaði ríkisstjórn að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn).
Hinn 28. ágúst síðastliðinn tók ég á móti fulltrúum samtakanna Orkan okkar. Þeir afhentu svohljóðandi áskorun: „Samtökin Orkan okkar skora á forseta Íslands að staðfesta ekki upptöku þriðja orkupakkans inn í EES-samninginn nema annað tveggja komi til: a) sameiginlega EES-nefndin hafi veitt Íslandi undanþágu frá innleiðingu eða b) þjóðin hafi í þjóðaratkvæðagreiðslu fallist á að undirgangast skuldbindingar orkupakkans.“
Fulltrúar samtakanna áttu svo fund með forseta. Þeir færðu rök sín fram af kurteisi, festu og sanngirni. Það hafa fleiri gert sem haft hafa samband við mig vegna orkupakkamálsins. Ég þakka þeim fyrir að nýta þá leið til að láta skoðun sína í ljós.
Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar eru teknar með stjórnskipulegum fyrirvara ef breyta þarf lögum vegna innleiðingar þeirra. Slíkum fyrirvara er aflétt með þingsályktunartillögu í samræmi við 21. gr stjórnarskrárinnar um það hvenær Alþingi þarf að koma að gerð þjóðréttarsamninga. Þingsályktunartillögur Alþingis eru ekki lagðar fyrir forseta, hvorki til upplýsingar né samþykktar eða synjunar. Fari svo að Alþingi samþykki að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara veitir þingið ríkisstjórn hins vegar heimild til að staðfesta ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar. Slíkar ákvarðanir eru lagðar fyrir forseta til staðfestingar, með vísan til áðurnefndar 21. greinar stjórnarskrárinnar sem kveður á um að forseti Íslands geri samninga við erlend ríki.
Má hér nefna til frekari upplýsingar að árin 2013 til 31. júlí 2016 staðfesti forseti (eða handhafar forsetavalds) 41 ákvörðun sameiginlegu EESnefndarinnar með þessum hætti. Frá 1. ágúst 2016 til þessa dags hafa 32 ákvarðanir verið staðfestar á sama hátt.
Ég hef í dag fallist á tillögu um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EESnefndarinnar, og endurstaðfest þá tillögu í ríkisráði. Kysi forseti að staðfesta
ekki formlega með undirritun sinni þá ákvörðun Alþingis að heimila ríkisstjórn að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar myndi
sú afstaða ekki leiða til þjóðaratkvæðagreiðslu, ólíkt því sem skýrt er kveðið á um í 26. grein stjórnarskrárinnar um synjun staðfestingar laga.
Enginn réttur af því tagi yrði virkjaður af því að hann er ekki að finna í stjórnskipun lýðveldisins. Í aðdraganda forsetakjörs 2016 lýsti ég stuðningi við þá hugmynd um
breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins að sett yrði ákvæði um að tiltekinn fjöldi kjósenda geti með beinum hætti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög Alþingis.
Ég kvaðst einnig styðja aðrar stjórnarskrárbreytingar, ekki síst að ákvæði um forseta Íslands yrðu endurskoðuð þannig að þau lýstu á skýrari hátt stöðu
forseta en bæru ekki sterkan keim af uppruna í konungsríki fyrir daga þingræðis og lýðræðis. Í umræðum um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá því í byrjun
þessarar aldar hefur auk þess reglulega verið bent á að ákvæði hennar um forseta Íslands séu orðuð þannig nú að þau dragi ekki upp rétta mynd af stjórnskipun
landsins nema þau séu lesin í fullu samhengi hvert við annað.
Þessum sjónarmiðum hef ég einnig lýst á forsetastóli. Þá má finna stuðning við þau í röðum flestra ef ekki allra stjórnmálaflokka. Þess má vænta að þessi sjónarmið muni heyrast áfram nú þegar formenn eða fulltrúar allra flokka á Alþingi vinna saman að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Því ber að fagna.“