Kristján Þórður Snæbjarnarson hefur tilkynnt um að hann gefi ekki kost á sér til embættis forseta ASÍ á komandi þingi 10.-12. október n.k. skv. frétt á vef félagsins þar sem vitnað er í yfirlýsingu Kristjáns.
Kristján segir það hafa verið gefandi verkefni að stuðla að auknu samtali á milli ólíkra hópa innan ASÍ frá því að hann tók óvænt við hlutverki forseta 10. ágúst s.l. Það hafi verið flókið fyrir hann að komast að niðurstöðu um næstu skref, þar sem verkefnin framundan eru spennandi bæði hjá RSÍ og ASÍ. Framundan séu þó gríðarlega stór og gefandi verkefni hjá RSÍ, sem hann hyggst taka þátt í, þrátt fyrir hvatningu um að gefa kost á sér til forseta úr mörgum áttum.
„Ég hef því ákveðið að gefa ekki kost á mér í embætti forseta ASÍ að svo stöddu heldur einbeita mér að verkefnum RSÍ. Ég mun þó áfram gefa kost á mér til þátttöku í forystu ASÍ sem 1. varaforseti enda mikil þörf á að tryggja að rödd iðn- og tæknifólks heyrist innan heildarsamtakanna,“ segir Kristján Þórður í tilkynningu sem hann birtir á facebook síðu sinni í gær, 5. september.