Björgunarsveitir stóðu víða í ströngu um helgina og á sunnudag, rétt fyrir hádegið var óskað aðstoðar björgunarsveitar á Dalvík við að sækja mann í skála í Þorvaldsdal rétt suður af Dalvík. Sá treysti sér ekki til að ganga lengra sökum veikinda. Frá Dalvík fóru 2 bílar og sjö manns að skálanum og sóttu manninn og ferðafélaga hans. Viðkomandi þurfti aðstoð við að ganga þann spöl sem þurfti til að komast í bíla björgunarfólks og var svo fluttur til byggða.
Rétt rúmlega 3 í gær komu svo boð frá ferðafólki í Núpsstaðaskóg um að einn ferðalanga væri líklega með slitna hásin og þyrfti aðstoð til að komast til baka að bílum. Fara þurfti yfir Núpsá til að komast að viðkomandi og treysti hópurinn sér ekki til að aka yfir ána á þeim bíl sem þau voru á. Björgunarsveitir frá Kirkjubæjarklaustri, Skaftártungum, Álftaverum og Öræfum héldu af stað og inn í Núpsstaðaskóg.
Vel gekk að fara yfir ár, og sækja ferðalanginn og koma honum á tjaldstæðið, þar sem viðkomandi hélt för áfram á eigin vegum.
Skömmu síðar barst tilkynning um slys á manni í Loðmundarfirði, en hann hafði fengið hnykk á bakið. Björgunarsveitin á Borgarfirði Eystra, Sveinungi, hélt af stað í Loðmundarfjörð, og sjúkrabíll frá Egilsstöðum fór á Borgarfjörð. Í fyrstu var óttast að meiðsl mannsins væru alvarleg, en fljótlega kom í ljós að svo var ekki, en þyrfti þó að sækja hann. Hann gæti sest upp, en væri betri útafliggjandi. Björgunarfólk ásamt lækni var komið í Loðmundarfjörð undir sex, og bjó um þann slasaða í börum og fluttu til Borgarfjarðar, þar sem sjúkrabíll tók við honum og flutti til Egilsstaða. Aðgerðum á Borgarfirði var lokið um 20:30
Klukkan 19:45 voru sveitir á Suðurlandi frá Hellu til Víkur boðaðar út vegna ungs pars sem voru á göngu um Fimmvörðuháls. Systir konunnar hafði verið að fylgjast með framgangi göngunnar erlendis frá og heyrt í þeim að veðrið væri að versna, myrkur að skella á og þeim litist ekki nógu vel á blikuna. Henni fannst svo að þau væru ekki lengur á göngu, en ekki komin í skála og hafði samband við Neyðarlínu.
Björgunarsveitir fóru af stað og héldu upp á Fimmvörðuháls frá Skógum, ásamt því að gönguhópar héldu inn á Goðaland til að fara upp á hálsinn Þórsmerkurmegin. Veðrið var orðið slæmt, gekk á með snjóéljum og nokkuð hvasst.
Sem betur fer þurfti ekki að leita lengi að fólkinu, en björgunarmaður á sexhjóli keyrði fram á það rétt við Fimmvörðuskála. Þá amaði ekkert að þeim, en þau höfðu verið í skálanum í einhverja daga og gengið út frá honum dagsferðir. Veður gærdagsins hafði hins vegar tafið þau til baka í skála. Björgunarfólk skildi við þau í skálanum þar sem þau voru búin að koma hita á skálann og voru ánægð að vera komin inn úr veðrinu. Björgunarfólk hélt til byggða og var aðgerð lokið rétt fyrir miðnætti.
Myndir eru frá aðgerðum á Fimmvörðuhálsi, Borgarfirði og Núpsstaðaskógi.