Tæplega 40% af öllum þeim íslendingum sem látast á hverju ári látast úr hjarta og æðasjúkdómum
Hér á eftir er lýsing á Brostnum hjörtum: Greinin birtist á vefnum Hjartalíf.is – https://hjartalif.is/author/bjorn/ og er Björn Ófeigsson höfundur hennar. ,,Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.“ Segir á vefnum.
Reglulega berast okkur til eyrna fregnir af fólki sem deyr skyndilega af völdum hjartaáfalls eða hjartastopps. Sumir látast langt fyrir aldur fram og eftir standa fjölskyldur og vinir buguð af sorg með ósvaraðar spurningar.
Þegar við fáum fregnir af slíku bregður okkur og við verðum hugsi. Hjartað brestur um stund og okkur verður ljóst að ekkert okkar er ódauðlegt. Það er ekkert sjálfsagt í þessu lífi.
Algengasta dánarorsökin
Hjarta og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök Íslendinga. Tæplega 40% af öllum þeim íslendingum sem látast á hverju ári látast úr hjarta og æðasjúkdómum. Það gerir að á hverjum degi deyja um það bil tveir einstaklingar úr hjarta og æðasjúkdómum sem eru fleiri en látast af öllum krabbameinunum samanlagt.
Það má því með sanni segja að hjarta og æðasjúkdómar séu mikill vágestur í okkar samfélagi og reyndar um heim allann.
Hvað getum við gert?
Um það verður ekki deilt að erfðaþættir hafa mikil áhrif um það hvernig okkur vegnar í baráttu við hjartasjúkdóma á lífsleiðinni. Því er mikilvægt að vera meðvitaður um fjölskyldusögu sína með tilliti til slíkra sjúkdóma. Besta ráðið er að vera í virku eftirliti og fylgjast vel með blóðþrýstingi og kólesterólgildum. Þannig leggjum við lóð á vogarskál til að þekkja eigin áhættu og geta brugðist við ef þörf krefur.
Það er heldur ekki deilt um að lífsstíll og mataræði hefur mikil áhrif á þróun hjarta og æðasjúkdóma og enn og aftur er það svo að við höfum það í okkar höndum hvernig við spilum úr þeim spilum. Við veljum jú mataræði okkar og hvernig við kjósum að lifa lífi okkar.
Síðast en ekki síst þá er það hreyfingin sem er okkur náttúruleg og eðlileg leið til að láta líkamanum líða vel. Í þessum efnum verður hver og einn að velja sína leið en rétt að benda á að reglulegur göngutúr sem þarf hvorki að vera langur eða erfiður getur verið allt sem þarf. Léttur hjólreiðatúr er einnig góð hugmynd.
Lífið er gjöf sem við skulum fara vel með
Það er því vel hægt að segja að hver og einn sé sinnar gæfu smiður í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum. Ábyrgðin á eigin lífi og að gera okkar besta í aðstæðum okkar sé á okkar herðum.
Lífið er dýrmætt og ljóst að ef grunur leikur á að hjartað virki ekki sem skildi skal undir engum kringumstæðum taka áhættu og brjóstverkir og hjartsláttartruflanir eru dauðans alvara eins og dæmin sanna.
Sjálfsagt verður aldrei hægt að koma algjörlega í veg fyrir skyndidauða af völdum hjarta og æðasjúkdóma en við getum svo sannarlega lagt okkar að mörkum til að minnka líkurnar á því að það hendi okkur sjálf eða okkar nánustu.
Verum góð við hvort annað því við vitum aldrei hvaða hjarta brestur næst.
Björn Ófeigs.
Munið eftir að læka við Hjartalíf á Facebook