Atlagan miðar að því að yfirtaka heimabanka með alvarlegum afleiðingum
Smishing er form vefveiða þar sem glæpamenn senda út svikul skilaboð í formi SMS skilaboða. Þetta hefur verið algegnt form netárása á Íslandi og oftast tekið það form að segja að pakki sé kominn til móttakanda og tengill á síðu þar sem þarf að skrá kortaupplýsingar til að greiða „smá“ gjald en þessar upplýsingar eru síðan notaðar til að ná út háum upphæðum af kortinu. Í fjölda atvika þá er þetta sennilega algengasta form netsvindls á Íslandi. Skilaboðin eru oftast í nafni þekktra fyrirtækja sem svindlararnir misnota.
Nú hefur bæst við ný nálgun. Nú er fólk að fá skilaboð sem líkir eftir bankanum þeirra og þolendur eru beðnir um að fara á tengil og síðan staðfesta skráningu með rafrænum skilríkjum. Þetta er gert til að komast inn á heimabanka viðkomandi og í raun yfirtaka hann. Það er greinilegt að þessir glæpamenn hafa góða þekkingu á virkni heimabanka og hvernig hægt er að millifæra fé og jafnvel stofna ný greiðslukort og virkja þau stafrænt á símum glæpamannanna. Þegar glæpamenn hafa náð stjórn á heimabankanum þá geta þeir gert ansi mikinn usla og stolið umtalsverðum upphæðum og jafnvel stofnað til skulda.
Við höfum séð að fólk sem talar ekki íslensku að móðurmáli er viðkvæmara fyrir þessu formi á svindli.
Verið er að gera varnir tryggari gegn þessu nýja svindli, en vandinn er að hluta til sá að brotaþolar eru sviknir til að staðfesta aðgerðir með rafrænni auðkenningu og hleypa þannig glæpamönnunum inn á heimabankann sinn eins og þau væru að fara inn sjálf.
Því beinum við því til fólks að skoða gaumgæfilega öll skilaboð sem miða að bankaviðskiptum og greiðslum og temja sér tortryggni gagnvart þeim. Ekki treysta vörumerkjum fyrirtækja því þau er mjög auðvelt að falsa í svikaskilaboðum.