3.8 C
Reykjavik
Laugardagur - 28. janúar 2023
Auglýsing

Ungu fólki í dag líður verr en því leið fyrir 10 árum

Auglýsingspot_img

Nýjar fréttir

Auglýsingspot_img

 

Niðurstöður viðamikillar heilbrigðiskönnunar kynntar

Yngra fólk skortir helst félagsskap og hefur það mikil tengsl við líkamlega heilsu, en 25% Íslendinga á aldrinum 18-24 segist oft eða alltaf hafa engan að leita til. Þetta kemur fram í nýrri Heilbrigðiskönnun Gallup sem Ólafur Elínarson sviðsstjóri markaðsrannsókna Gallup kynnti á ráðstefnu í Hörpu í dag. Í könnuninni voru Íslendingar fengir til að meta heilsu sína, með áherslu á hreyfingu, andlega heilsu, svefn og næringu.
Í könnuninni kom meðal annars fram að hreyfing og svefn eru lykilatriði fyrir aukna hamingju og betri heilsu. Þau sem sofa í 7 tíma upplifa betri heilsu, meiri hamingju, minni þunglyndiseinkenni og minni kvíðaeinkenni. Það sama á við þau sem hreyfa sig reglulega. Einnig kom fram að yngri aldurshópar eru undir miklu álagi og þá sérstaklega konur og ungt fólk með barn á heimili.
Á ráðstefnunni í Hörpu í dag ávarpaði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ráðstefnugesti. Fulltrúar samstarfsaðila Gallup héldu einnig erindi um sýn þeirra á heilbrigðismál. Fyrirlesarar voru Edda Hermannsdóttir frá Íslandsbanka, Sigríður Margrét Oddsdóttir frá Lyfju, Linda Bára Lýðsdóttir frá VIRK starfsendurhæfingarsjóði og Erla Björnsdóttir frá Nox medical. Arna Frímannsdóttir hjá Gallup stýrði fundinum.
Heilbrigðisráðherra kom í ávarpi sínu inn á að heilsa væri allt í senn líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma eða örorku. Það væri því allt samfélagið undir – lifnaðarhættir, umhverfisþættir, félagslegir þættir og efnahagslegir þættir, s.s. jöfnuður, fátækt, húsnæði og jafnrétti kynja – allt væru þetta þættir sem hefðu áhrif á heilsu. Ráðherra nefndi einnig að alþjóðlegur samanburður segði okkur að við þurfum að hafa varann á í geðheilsumálum. Eigið mat á andlegri heilsu sé á leið í neikvæða átt og ungu fólki í dag líði verr en því leið fyrir 10 árum. Í þessu samhengi sé munur á tekjulágum og tekjuháum, svo félagslegur jöfnuður hafi því áhrif á hvort fólk sé við góða heilsu.
Það þarf að vera gaman
Edda Hermannsdóttir frá Íslandsbanka sagði frá stefnu bankans í lýðheilsumálum og hvernig bankinn vilji leggja áherslu á að vera hreyfiafl til góðra verka. Íslandsbanki hefur lagt ríka áherslu á að Reykjavíkurmaraþonið sé sífellt meiri fjölskylduviðburður, ásamt því að vera stærsta góðgerðarfjáröflun á Íslandi, en frá 2006 hefur milljarður króna safnast til góðgerðarmála gegnum maraþonið.
Edda vitnaði í könnun Gallup þar sem fram kemur að fólk hreyfi sig frekar ef það finnur hreyfingu sem því finnst skemmtileg. „Þetta rímar vel við áherslur okkar undanfarin ár, en í dag er Reykjavíkurmaraþonið er miklu meiri fjölskylduviðburður en keppni, ásamt því að vera stærsta góðgerðarfjáröflun á Íslandi. Frá árinu 2006 hefur milljarður króna safnast til góðgerðarmála gegnum maraþonið, sem er mögulega það fallegasta við þetta allt saman“, segir Edda.
Stafræn og persónuleg heilbrigðisþjónusta
Fram kom í máli Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Lyfju, að hugtakið heilbrigði hafi tekið miklum breytingum síðustu ár og hafi til að mynda áður verið byrði og varðaði fyrst og fremst sjúkdóma en sé nú lífstíll og sé því tengdur ýmsum fleiri þáttum, eins og mataræði og hreyfingu. Lyfja vinnur hörðum höndum að því að verða apótek framtíðarinnar, en Lyfja telur að heilbrigðisþjónusta komi til með að verða sífellt stafrænni, heildrænni og persónulegri, auk þess sem eldra fólki muni fjölga mikið á komandi árum, sem komi til með að hafa áhrif á samfélagið allt og valdi því að kröfur til heilbrigðisþjónustu breytist ört og því sé þörf fyrir nýjar og hagkvæmari leiðir.
Greining oft skilyrði til að geta fengið aðstoð
Linda Bára Lýðsdóttir frá VIRK starfsendurhæfingarsjóði, sagði frá því að 67% þeirra sem sækja þjónustu til VIRK séu konur og 80% þeirra sem leiti til VIRK hafi skerta starfsgetu vegna andlegra erfiðleika og/eða stoðkerfisvandamála. Í máli sínu kom Linda inn á það að á Íslandi sé töluverður greiningarkúltúr, til að mynda í skólakerfinu, þar sem greining sé oft skilyrði til að geta fengið aðstoð. Þetta sé þó að breytast til hins betra, því það er mikilvægt fyrir fólk með langvinn veikindi að það sjái hlutina í samhengi, sé sjálft við stjórnina og þurfi ekki að upplifa sig sem fórnarlamb.
Þurfum að hætta að hetjuvæða svefnleysi
Fulltrúi Nox medical, Erla Björnsdóttir, fór yfir hvernig það hefur verið hetjuvætt í þjóðfélaginu að sofa lítið en afkasta miklu. Góður og nægur svefn er nátengdur góðri heilsu, bæði geðrænni og líkamlegri. Það sé því sláandi að í könnun Gallup segist 34% Íslendinga sofa 6 tíma eða minna á nóttu, því það hefur margvísleg neikvæð áhrif á heilsu okkar og lífsgæði, eykur líkur á andlegum og líkamlegum sjúkdómum, hefur áhrif á framleiðni og lífslíkur okkar. Þegar Íslendingar voru spurðir
hvað þeir gerðu til að viðhalda góðum svefni voru svefnlyf oft nefnd, en eins og Erla fór yfir eru þau eingöngu ætluð til að bregðast við skyndilegu og skammvinnu svefnleysi og ætti ekki að nota lengur en 4 vikur í senn. Íslendingar nota svefnlyf mun meira en önnur Norðurlönd, og hefur orðið sprenging í ávísun svefnlyfja til barna og unglinga á Íslandi, sem sé áhyggjuefni og nauðsynlegt að greina betur hvað veldur þessu svefnleysi og hvernig hægt sé að vinna betur með vandann.