Nokkuð færri virtust vera úti að skemmta sér þetta föstudagskvöld en síðustu helgar. Þrátt fyrir það var talsverður erill hjá lögreglu og 10 manns voru vistaðir í fangaklefum.
Karlmaður var handtekinn eftir að hafa sýnt af sér ósæmilega hegðun við íþróttasvæði í Laugardalnum. Hann var ölvaður og verður yfirheyrður þegar það verður runnið af honum.
Kona var handtekin fyrir líkamsárás inni á skemmtistað í miðbænum. Tveir karlmenn voru handteknir í aðskildum málum vegna þess að þeir voru að stofna til slagsmála í miðbænum og neituðu svo að segja til nafns þegar lögreglan hafði afskipti af þeim. Þeir mega eiga von á því að vera m.a. kærðir fyrir brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar.
Karlmaður var handtekinn fyrir grófa líkamsárás í miðbænum en hann er m.a. grunaður um að hafa sparkað í höfuð liggjandi manns.
Á tímabilinu frá klukkan 17 til klukkan 05 þá sinnti lögreglan sjö líkamsárásarmálum.
Sex ökumenn voru handteknir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna.
Tveir lögreglumenn fóru á slysadeild til skoðunar eftir að hafa verið bitnir þegar þeir voru við störf.
Einnig sinnti lögreglan barnaverndarmálum, kynferðisbrotum, umferðaróhöppum, þjófnuðum og hefðbundnum umferðarmálum.