Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög
Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 27. október – 2. nóvember, en alls var tilkynnt um 38 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 27. október kl. 7.37 varð árekstur strætisvagns og fólksbifreiðar á athafnasvæði Strætó við Hestháls í Reykjavík. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 28. október. Kl. 8.28 varð þriggja bíla árekstur á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, við Álverið, þar sem vegaframkvæmdir standa yfir. Tveimur bifreiðum var ekið úr gagnstæðri átt og fór önnur þeirra yfir á öfugan vegarhelming svo árekstur varð með þeim. Við það kastaðist önnur bifreiðin á þriðju bifreiðina sem kom aðvífandi. Allir þrír ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Og kl. 11.56 varð árekstur bifreiðar og létt bifhjóls í Síðumúla í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið norður Síðumúla, en bifhjólinu þvert yfir götuna. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 29. október. Kl. 11.56 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni þegar hann ók suður Sæbraut í Reykjavík. Við það fór hún utan vegar og eftir grasbala inn á frárein frá Miklubraut og á aðra bifreið sem ekið var þar um, en síðarnefnda bifreiðin valt við áreksturinn. Tjónvaldurinn var ekki með öryggisbelti. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16.20 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól á Laugavegi í Reykjavík, við Bolholt. Ökumaður rafmagnshlaupahjólsins var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 30. október kl. 11.32 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Reykjavíkurvegar/Hafnarfjarðarvegar og Álftanesvegar í Hafnarfirði. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið suður Hafnarfjarðarveg en hinni norður Reykjavíkurveg og hugðist síðarnefndi ökumaðurinn beygja til vinstri inn á Álftanesveg þegar árekstur varð með þeim. Vitni sögðu jafnframt þann ökumann hafa ekið gegn rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 31. október kl. 18.49 varð tveggja bíla aftanákeyrsla á Kringlumýrarbraut til suðurs í Reykjavík, við Miklubraut, en tjónvaldurinn stakk af frá vettvangi. Ökumaður bifreiðarinnar, sem ekið var á, var fluttur á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 2. nóvember. Kl. 17.44 var bifreið ekið á gangandi vegfarenda á Hringbraut í Hafnarfirði, við Suðurbæjarlaug. Gangandi vegfarandinn, sem var ölvaður, var fluttur á slysadeild. Kl. 19.30 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli við Mathöllina á Hlemmi. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Kl. 21.58 var bifreið ekið á steinvegg við Brúarvog í Reykjavík, við Barkarvog. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Og kl. 21.58 varð tveggja bíla árekstur á Breiðholtsbraut í Reykjavík, við Seljaskóga, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum hugðist ökumaðurinn sem ók til vesturs ætla að taka vinstri beygju á gatnamótunum og aka Seljaskóga til suðurs þegar árekstur varð með þeim. Einn farþegi var fluttur á slysadeild.