Samkvæmt nýjum gögnum frá OECD er mun minni stuðningur við barnafjölskyldur á Íslandi en í flestum vestrænum hagsældarríkjum. Ísland er langt undir meðaltali OECD-ríkjanna og hin Norðurlöndin eru með mun ríflegri barnabætur fyrir fjölskyldur með lágar tekjur. Hér byrja skerðingar barnabóta við lágmarkslaun á vinnumarkaði, sem er óvenju lágt. Fáir foreldrar fá því óskertar barnabætur.
Í fjárlögum fyrir næsta ár eru kynntar hækkanir barnabóta og skerðingarmarka en þær fela einungis í sér uppfærslu vegna verðlags- og launabreytinga, sem ekki komu fram að fullu árin 2020 og 2021, og skila þær því engum raunverulegum kjarabótum fyrir barnafjölskyldur
Barnabætur eru mikilvægur þáttur í kjörum fjölskyldna, einkum hjá lægri tekjuhópum. Víðast hvar í nútímalegum samfélögum er talið nauðsynlegt að létta framfærslubyrði ungra fjölskyldna þegar byrðin er hvað mest vegna húsnæðisöflunar og barneigna. Barnabætur eru ekki styrkur til barnafólks heldur tilfærsla milli tímabila á lífshlaupinu.
Fólk fær barnabætur á fyrri hluta starfsferils þegar þörfin er mest en þegar börnin eru farin að heiman þá greiðir fólk hærri skatta til að
fjármagna barnabætur til næstu kynslóðar á eftir. Á Íslandi hafa greiddar barnabætur lengi verið lágar vegna mikilla skerðinga. Óskert upphæð bóta með fyrsta barni er nú um 19.500 krónur á mánuði fyrir hjón en um 32.550 fyrir einstæða foreldra.
Þó grunnupphæð bótanna fyrir börn undir sjö ára aldri (þar sem greidd er sérstök uppbót á bæturnar) sé ekki sérlega lág miðað við önnur lönd, þá er byrjað að skerða bæturnar strax við lágmarkslaun á vinnumarkaði, sem í dag eru 351.000 krónur á mánuði. Það þýðir að fáir fullvinnandi foreldrar fá þessar óskertu barnabætur á Íslandi. Æskilegt væri að skerðingar byrji ekki fyrr en nálægt meðallaunum.
Discussion about this post