Fjórir umsækjendur hljóta styrki í fyrstu úthlutun nýs Menntarannsóknasjóðs mennta- og menningarmálaráðuneytis. Alls bárust 23 gildar umsóknir til sjóðsins; 14 umsóknir um verkefnastyrki og 9 um doktorsnemastyrki.
Markmið sjóðsins er að styrkja stoðir hagnýtra menntarannsókna hér á landi, auka tækifæri til að skapa og miðla þekkingu til framþróunar og umbóta í skólastarfi og styðja við framkvæmd menntastefnu til 2030. Styrkina hljóta að þessu sinni:
Verkefnastyrkir:
• Kathryn Margaret Crowe fyrir verkefnið Orðaheimurinn á Íslandi, 23,7 milljónir kr.
• Kristjana Stella Blöndal fyrir verkefnið Margbreytileiki brotthvarfsnemenda: Raddir nemenda, 24,8 milljónir kr.
Styrkir til doktorsnema:
• Heiður Hrund Jónsdóttir fyrir verkefnið Sjálfsmynd og skólaviðhorf nemenda í tengslum við skuldbindingu þeirra og brotthvarf frá námi (langtímarannsókn meðal framhaldsskólanema), 7,9 milljónir kr.
• María Jónasdóttir fyrir verkefnið Stytting námstíma stúdentsprófsbrauta: Áhrif á inntak bóklegs náms á framhaldsskólastigi og áframhaldandi nám á háskólastigi, 15,9 milljónir kr.
Nánar má fræðast um verkefnin og styrkhafana á vef Rannís, sem hefur umsjón með sjóðnum fyrir hönd ráðuneytisins.
Í fagráði sjóðsins sátu Júlíus K. Björnsson, formaður, Gunnlaugur Magnússon, Pasi Sahlberg, Tine Nielsen og Mara Westling Allodi en úthlutunarnefndina skipuðu:
• Sonja Dögg Pálsdóttir, án tilnefningar, formaður,
• Guðmundur Heiðar Frímannsson, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins,
• Anna María Gunnarsdóttir, tilnefnd af Kennarasambandi Íslands,
• Katrín Friðriksdóttir, tilnefnd af Menntamálastofnun,
• Helgi Arnarson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Ráðgert er að rannsóknaráherslur næstu úthlutunar sjóðsins verði kynntar vorið 2022.