Komst inn um svalarhurðina
Í nótt vaknaði ég við að ókunnur maður stóð inni í svefnherberginu mínu. Fyrir þau sem ekki hafa reynt það get ég upplýst að hægt er að vakna á betri hátt. Ég rauk upp og rýndi í andlit hans í myrkrinu til að sjá hvort þetta væri einhver sem ég þekkti, sem reyndist sem sagt ekki vera. Ekki datt mér nú í hug í fátinu að kveikja ljósið.
Venjulega býð ég gesti velkomna, en einhvern veginn fannst mér þessar aðstæður ekki kalla á slíkt, heldur þreif ég til hans og ýtti honum út úr herberginu, fram stofuna, niður stigann og út. Honum fundust móttökurnar heldur slælegar, hélt fast um síma sinn og tautaði reglulega um hvort við gætum ekki rætt málin, ástandið væri ekki gott. Hann muldrar eitthvað um hrun og grípur um pyngjuna; þessar ljóðlínur Megasar komu upp í hugann.
Mér fannst aðstæðurnar ekki bjóða upp á djúpar samræður, hann klæddur, ég alls ekki, hann nýkominn af djammi, ég nývaknaður. Þegar út var komið vildi hann halda spjalli áfram, það væri fólk sem ætti erfitt með að komast inn í húsið við hliðina. Vissulega mátti heyra barsmíðar berast þaðan þar sem bankað var á hurð, en ég taldi meira um vert að fá upp úr honum hvernig hann komst inn til mín. Um það vildi hann fátt segja, annað en að lífið væri flókið. Það er vissulega rétt, en þó var ég ekki tilbúinn í innilegar samræður um það.
Ályktunarhæfni mín var slík, við þessar aðstæður, að það var ekki fyrr en eftir að ég var lagstur aftur í rúmið að ég greindi að hurðin sem ég heyrði reglulega skellast aftur var svalahurðin hjá mér og kom mér í að loka henni og læsa. Svo fór ég að sofa. Í morgun blasti vettvangurinn við; sporin eftir hann á svölunum, merkjanleg för eftir blauta skó að rúminu mínu. Þetta vekur upp í mér rannsakandann og helst vil ég fara að taka gifsmót af förunum í snjónum og verða mér út um smásjá. Tilgangurinn er þó óljós.
Ég vona bara að aumingja maðurinn hafi komist þangað sem hann ætlaði sér eftir að okkar fundum lauk.