Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, er látinn, á 99. aldursári. Greint er frá andláti Jóhannesar á forsíðu Morgunblaðsins í dag.
Jóhannes var seðlabankastjóri frá stofnun Seðlabanka Íslands árið 1961 til ársins 1993 og þar af var hann formaður bankastjórnar frá 1965. Jóhannes var jafnframt kjörinn stjórnarformaður Landsvirkjunar við stofnun hennar þann 1. júlí 1965 og gegndi hann því starfi til ársins 1995.
Í minningarorðum í Morgunblaðinu í dag kemur fram að með Jóhannesi sé genginn einhver atkvæðamesti maður í efnahagslífi og atvinnuuppbyggingu á liðinni öld.
Hann lauk doktorsprófi frá London School of Economics árið 1953 og starfaði fyrst um sinn eftir útskrift hjá Landsbankanum.
Jóhannes kvæntist Dóru Guðjónsdóttur Nordal píanóleikara sem lést árið 2017. Þau eignuðust sex börn og lifa fimm þeirra foreldra sína.
Umræða