Breytingar í framkvæmdastjórn Arion banka – Iða Brá Benediktsdóttir verður aðstoðarbankastjóri
Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason hefur ákveðið að kveðja Arion banka og hverfa til annarra starfa eftir að hafa gegnt starfi aðstoðarbankastjóra og framkvæmdastjóra fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs frá árinu 2019. Ásgeir mun láta af störfum hjá bankanum á næstu dögum. Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs, mun nú jafnframt gegna starfi aðstoðarbankastjóra og í því hlutverki meðal annars leiða sókn Arion banka og Varðar á tryggingamarkaði. Hákon Hrafn Gröndal, lánastjóri á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs og hefur tekið sæti í framkvæmdastjórn bankans.
Margrét Sveinsdóttir mun einnig láta af störfum hjá bankanum eftir að hafa sinnt starfi framkvæmdastjóra eignastýringar, síðar markaða, frá árinu 2009. Margrét mun láta af störfum á næstu vikum. Jóhann Möller, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Stefnis undanfarin ár, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri markaða og mun taka sæti í framkvæmdastjórn Arion banka á næstu vikum.
Iða Brá Benediktsdóttir hefur starfað hjá Arion banka og forverum frá árinu 1999. Frá þeim tíma hefur hún gegnt ýmsum störfum innan bankans. Iða var framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs frá 2016 til 2017 þegar hún tók við starfi framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs. Áður var Iða Brá forstöðumaður samskiptasviðs, einkabankaþjónustu og í fjárstýringu bankans. Iða Brá er varaformaður stjórnar Varðar trygginga hf. Hún er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með MSc í fjármálum frá Erasmus Graduate School of Business í Hollandi. Iða Brá er með próf í verðbréfaviðskiptum.
Hákon Hrafn Gröndal hóf störf hjá Arion banka fyrir rúmum tíu árum sem þjónusturáðgjafi í útibúi bankans á Höfða. Síðan þá hefur Hákon sinnt ýmsum störfum innan bankans tengdum fjármálaráðgjöf og útlánum. Undanfarin ár hefur Hákon verið lánastjóri á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði. Hákon er viðskiptafræðingur frá Griffith University, með MSc í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands og með próf í verðbréfaviðskiptum.
Jóhann Möller hefur verið framkvæmdastjóri Stefnis frá árinu 2020. Hann hefur starfað á fjármálamarkaði í rúm 20 ár og hjá Stefni frá árinu 2006 við stýringu á innlendum hlutabréfasjóðum auk þess sem hann veitti hlutabréfateymi félagsins forstöðu á árunum 2017-2020. Jóhann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með próf í verðbréfaviðskiptum.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:
„Ég vil þakka því góða fólki sem nú kveður bankann farsælt og ánægjulegt samstarf. Ásgeir hefur verið hjá bankanum í tæp þrjú ár og á þeim tíma gegnt lykilhlutverki í stefnumótun og þeim mikilvægu breytingum sem bankinn hefur farið í gegnum, ekki síst varðandi þjónustu okkar við fyrirtæki. Margrét hefur setið í framkvæmdastjórn Arion banka í 13 ár og veitt eignastýringu bankans forystu þann tíma og markaðsviðskiptum undanfarin þrjú ár. Margrét skilar afar góðu búi og eru eignastýring og markaðsviðskipti Arion banka í forystu hér á landi. Ég óska þeim báðum góðs gengis í nýjum verkefnum.
Ég óska Iðu Brá, Jóhanni og Hákoni Hrafni til hamingju með ný hlutverk innan bankans.“
—