Eiga von á þrettán Airbus A321XLR þotum og fjórum A321LR
Icelandair hefur valið Airbus A321XLR og A321LR þoturnar frá Airbus sem arftaka Boeing 757 flugvélanna og hefur flugfélagið undirritað samning við flugvélaframleiðandann evrópska um pöntun á allt að 25 þotum af þessum tegundum.
Allar þoturnar sem pantaðar hafa verið eru af gerðinni Airbus A321XLR og hefur Icelandair undirritað samning um kaup á 13 þotum með möguleika á 12 þotum til viðbótar og er um að ræða svokallaðan kauprétt.
Að minnsta kosti 6 ár verða þangað til að fyrstu A321XLR þoturnar verða afhentar til Icelandair frá og með árinu 2029 en félagið er hinsvegar að ljúka við samningum við Airbus um leigu á a.m.k. fjórum þotum af gerðinni Airbus A321LR sem vonast er til að hægt verði að fá í flotann eftir tvö ár eða árið 2025.
A321XLR sem er langdrægasta farþegaþota heims í flokki mjóþotna sem koma með einum gangi en í yfirlýsingu frá Icelandair Group segir að með þotunum mun Icelandair ná að ljúka við að skipta út þeim Boeing 757 þotum sem að félagið hefur haft í flotanum sl. 33 ár en félagið fékk fyrstu 757 þotuna afhenta árið 1990.
Verða með blandaðan flota af Boeing og Airbus innan þriggja ára
Icelandair segir að félagið muni halda áfram með óskertan flota af Boeing 757 þotum til ársins 2025 en þá verður félagið með blandaðan flota af Boeing og Airbus þotum þegar fyrstu A321LR þoturnar verða afhentar.
„Það er ánægjulegt að tilkynna að við höfum nú komist að niðurstöðu um framtíðarflota Icelandair. Við höfum ákveðið að Airbus A321LR og A321XLR verði arftakar Boeing 757 flugvéla félagsins sem munu hætta í rekstri á næstu árum,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils segir að nýju Airbus-þoturnar muni gera Icelandair kleift að þróa viðskiptalíkan félagsins enn frekar í flugi yfir Atlantshafið og jafnframt skapa tækifæri til að sækja á nýja og spennandi markaði.
Icelandair hefur í nokkur ár verið að endurskoða flotastefnu sína er kemur að Boeing 757 þotunum en eftir að framleiðslu þeirra flugvéla leið undir lok árið 2004 var ljóst að erfitt væri að finna flugvélategund sem býður upp á þá sérstöku yfirborði sem að Boeing 757 býr yfir sem hefur hentað leiðarkerfi Icelandair einstaklega vel.