Þjóðarpúls Gallup hefur gert könnun á fylgi flokka ef kosið yrði til borgarstjórnar
Píratar sækja í sig veðrið og fylgi Samfylkingarinnar dalar. Helstu breytingar á fylgi framboða til borgarstjórnar frá síðustu mælingu eru þær að fylgi Pírata eykst á sama tíma og fylgi Samfylkingar dregst saman.
Fylgi Pírata eykst um ríflega þrjú prósentustig en rösklega 14% segjast myndu kjósa þá ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag. Að sama skapi minnkar fylgi Samfylkingarinnar um nær fjögur prósentustig og segjast tæplega 28% myndu kjósa flokkinn nú.
Fylgi annarra framboða breytist lítið milli mánaða eða á bilinu 0,2-1,7 prósentustig. Nær 26% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, rúmlega 9% Vinstri græn, liðlega 8% Viðreisn, næstum 5% Miðflokkinn, rösklega 3% Flokk fólksins, liðlega 2% Sósíalistaflokkinn, nær 2% Framsóknarflokkinn og 1% Höfuðborgarlistann.
Rúmlega eitt prósent segist myndi kjósa aðra flokka, þar af 0,5% Kvennaframboðið, 0,5% Karlalistann, 0,2% Borgina okkar – Reykjavík og 0,1% Alþýðufylkinguna.
Tæplega 11% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og næstum 6% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag.
Ef borgarfulltrúum er skipt milli flokka út frá niðurstöðum könnunarinnar fengju Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn sjö fulltrúa hvor, Píratar fjóra, Vinstri græn og Viðreisn tvo hvor og Miðflokkurinn fengi einn borgarfulltrúa.
Spurt var: Ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa? En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu? Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?
Þjóðarpúls Gallup Maí 2018
Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna í Reykjavik eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 4. apríl til 3. maí 2018, meðal Reykvíkinga 18 ára eða eldri. Heildarúrtaksstærð var 2.031 og þátttökuhlutfall var 56,6%.
Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,6-2,8%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.