,,Credit info segir að ekki sé hægt að taka fólk af vanskilaskrá fyrr en það hafi greitt kröfurnar og þar með viðurkennt þessi ólöglegu lán“
Formaður Neytendasamtakanna, Breki Karlsson, segir það ótækt að Credit Info kanni ekki lögmæti krafna áður en það setur fólk á vanskilaskrá. Dæmi eru um að fólk lendi á vanskilaskrá eingöngu vegna smálána. Fólk losni ekki af vanskilaskránni nema það greiði smálánaskuldina og viðurkenni þar með ólögleg lán. Þetta kemur fram í viðtali við Breka á Rúv.
Hákon Stefánsson, hjá Credit Info, sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í gær að auðveldasta leiðin til að stöðva smálánafyrirtækin væri fyrir lántaka að neita að greiða, þannig að málið endi fyrir dómstólum. Fjölmargir sem tekið hafa smálán hafa leitað til Neytendasamtakanna.
En á sama tíma er Credit info að skrá þessi vanskil á fólk vegna lána sem að standast ekki íslensk lög
„Okkur hjá samtökunum hafa borist nokkrar ábendingar um það að fólk sem hefur lent í vandræðum hjá smálánafyrirtækjunum fyrir að greiða ekki þessi ólöglegu lán, hefur lent á vanskilaskrá hjá CreditInfo,“ segir Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna í viðtalinu.
Aðspurður um hvort að það sé bara vegna smálánaskulda? Svarar hann. „Já, samkvæmt okkar upplýsingum er það bara vegna smálánaskulda, engra annarra skulda,“
Þá segir Breki í viðtalinu að svör Credit info hafi verið á þá leið að ekki sé hægt að taka fólk af vanskilaskrá fyrr en það hafi greitt kröfurnar og þar með viðurkennt þessi ólöglegu lán. Breki furðar sig á því að fyrirtæki geti beðið Credit Info um að setja fólk á vanskilaskrá og Credit Info kanni ekki réttmæti þeirra krafna. Þó svo að fólk fái nokkurra daga andmælarétt nýtist það oft ekki þar sem þeir sem taki smálán séu oft ekki stakk búnir til að taka til varna.
„Við höfum krafist þess að Credit Info breyti verklagi sínu og leggi niður þessa öfugu sönnunarbyrði. Það er að segja að fyrirtæki verði þá að sanna það að kröfur þeirra séu réttmætar en ekki að einstaklingar verði að afsanna það að þær séu réttmætar,“ segir Breki.