Um klukkan fjögur í dag var tilkynnt um umferðarslys í Hafnarfirði. Báðar bifreiðar voru óökuhæfar eftir óhappið og voru fjarlægðar af vettvangi með kranabifreið. Ökumenn sluppu ómeiddir.
Síðdegis barst lögreglu tilkynning um að ekið hefði verið á gangandi vegfaranda í austurborginni. Í ljós kom að um ágreining var að ræða og hafði aðilinn í raun hent sér á bifreið þess sem hann var ósáttur við og hangið á henni. Engin slys urðu á fólki.
Höfð voru afskipti af ökumanni bifreiðar í Kópavogi nú síðdegis. Sá reyndist vera ölvaður. Afgreitt samkvæmt venju og var ökumaður frjáls ferða sinna eftir það. Tilkynnt var um innbrot í bifreið í miðborginni ásamt því að það barst tilkynning að brotist hefði verið inn í beltagröfu í Hafnarfirðinum.
Rúmlega þrjú í dag var tilkynnt um sláttuvélaslys í austurborginni en hinn slasaði hafði skorist illa á fingrum. Hann var fluttur á slysadeild.