Rætt var um gríðarlega skuldsetningu ríkissjóðs og gengdarlausan fjáraustur úr sameiginlegum sjóðum landsmanna í Silfrinu í morgun sem og stjórnleysi ríkisstjórnarinnar og met í verðbólgu og vaxtaokri.
Benti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á að einnig væri ríkisstarfsmönnum að fjölga gríðarlega. ,,Það eru tveir vinnandi menn á Íslandi að halda uppi þeim þriðja, sem er þá ríkisstarfsmaður.“ Varðandi innflutning á fólki, þá þyldi ekkert þjóðfélag það til lengdar að fólksfjölgun væri með þeim hætti að á móti einum innfæddum væru fimmtán innflytjendur. Auk þess sem ríkið væri búið að yfirbjóða t.d. einstæðar mæður á leigumarkaði með yfirboðum ríkisins á húsnæði fyrir innflytjendur.
,,Blússandi góðæri og mikill hagvöxtur á Íslandi“
,,Við erum auðvitað að glíma við aðstæður sem að fáar vestrænar þjóðir eru að glíma við, það er blússandi góðæri og mikill hagvöxtur og góður gangur í atvinnulífinu, við þurfum fleiri vinnandi hendur hreinlega.“ Sagði Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Deilir ekki kjörum með venjulegu fólki
Viðar Eggertsson benti á að ellilífeyrir hefði aðeins hækkað um 0,6% á meðan launavísitala hefði hækkað um 14-16% og sagði að gífurleg kjaragliðnun hefði átt sér stað.
Hann sagðist hafa rætt þetta mál við fjármálaráherra og benti á forsendubrestinn ,,en ráðherrann deilir ekki kjörum með venjulegu fólki og stendur í ræðustól og segir að lífeyrisþegar hafi bara aldrei haft það betra, sjáið þið ekki veisluna?
Og ég segi bara nei, við sjáum ekki veisluna. Okkur almenningi hefur bara ekki verið boðið í þetta einkapartý, þetta er bara partý fjármagnseigenda sem eru í kringum fjármálaráðherra. Þetta er ríkasta eitt prósentið sem hefur grætt á ástandinu í þjóðfélaginu.“ Sagði varaþingmaður Samfylkingarinnar, Viðar Eggertsson.
Egill Helgason hafði umsjón með þætti dagsins. Rætt var meðal annars um efnahags og húsnæðismál við þingmennina Ágúst Bjarna Garðarsson, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Diljá Mist Einarsdóttir og varaþingmanninn Viðar Eggertsson.