Aldrei hafa fleiri tekið þátt í The Puffin Run í Vestmannaeyjum sem fór fram í sjötta skiptið í dag. Alls voru keppendur hátt í ellefu hundruð sem hlupu í hagstæðu hlaupaveðri, nema aðeins blástur á Stórhöfða og voru brautarmet slegin. Eyjafréttir.is fjölluðu um hlaupið á vef sínum og mikið fjör var í bænum.
Fyrstur allra og það langfyrstur var Arnar Pétursson á tímanum 01:17:32, sjö mínútum á undan næsta manni, Jörundi Frímanni Jónassyni. Andrea Kolbeinsdóttir var fljótust kvenna á tímanum 01:26:12. Fljótastur Eyjapeyja var Hannes Jóhannsson og Þórsteina Sigurbjörnsdóttir hljóp hraðar en aðrar Eyjakonur. Nánar á timataka.net.
Sumarið er komið segir bæjarstjóri
„Puffin Run er frábært framtak, þátttakan frábær og er hlaupið enn eitt dæmið um það hvernig eintaklingsframtak getur bætt viðburðaflóru Eyjanna,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í kveðju til hlaupara á Facebook síðu sinni um hið frábæra Puffin Run.
„Það fylgir því alltaf tilhlökkun og markar upphaf sumars hjá okkur Eyjamönnum þegar Puffin Run hlaupið fer fram í byrjun maí. Þetta framtak Eyjaskokks er frábær viðbót við þá viðburði sem eru í Vestmannaeyjum á hverju ári og laða til sín mikið af gestum. Hlaupið hefur stækkað frá ári til árs og er það orðið fastur viðburður í upphafi hlaupasumar hjá mjög mörgum. Hlaupið er nú haldið í 6. sinn.
Eyjamenn eru þekktir fyrir að taka vel á móti gestum og það er alltaf sérstök upplifun að koma til Eyja, nánast eins og að fara til útlanda, þegar farið er um borð í Herjólf og siglt til Eyja. Eyjaskokk leggur alltaf mikinn metnað í hlaupið sem er einstakt náttúruhlaup með stórbrotinni hlaupaleið, sem á sér fáar líkar. Með samstilltu átaki allra þeirra sem koma beint eða óbeint að hlaupinu og hefur þetta gengið ótrúlega vel hingað til. Margir bæjarbúar eru virkir þátttakendur í hlaupinu annað hvort með því að aðstoða eða hlaupa sjálfir, það eru t.d. um 120 brautaverði í hlaupinu og er öll vinna í kringum hlaupið er sjálfboðavinna, heimafólk vill taka þátt.
Vestmannaeyjar hafa upp á margt að bjóða fyrir hlaupara ég efast ekki um að þú, sem og aðrir gestir, eigið góðar stundir framundan á okkar fallegu eyju. Hafðu í huga að þetta er upplifun og þetta er ævintýri sem vert er að njóta, alla leið „Þar sem hjartað slær“ .
Njótið dagsins!“ sagði Íris.